Alfreð Elías Sveinbjörnsson fæddist að bænum Á í Unadal í Skagafirði 26. apríl 1924. Hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 19. mars 2022.
Foreldrar hans voru Sveinbjörn Sigurður Sveinbjörnsson, f. 27. maí 1893, d. 27. júlí 1990, og Jóhanna Símonardóttir, f. 21. október 1899, d. 11. desember 1988. Systkini hans eru: Anna Hallfríður, f. 28. ágúst 1921, d. 18. apríl 2017, Marín, f. 1. apríl 1923, d. 2. mars 2018, Sigurlaug, f. 19. september 1927, Sigurður Bjarni, f. 28. ágúst 1935, d. 18. apríl 2002, Guðrún, f. 24. október 1937, og Ásdís Hulda, f. 8. mars 1940.
Alfreð ólst upp að Á í Unadal til 1934 að hann flytur að Ljótsstöðum með foreldrum sínum og systkinum. Þann 26. ágúst 1956 kvænist Alfreð Ingibjörgu Bryngeirsdóttur, f. 6. október 1925, d. 2. júní 2002. Foreldrar hennar voru Bryngeir Torfason, f. 26. september 1895, d. 9. maí 1939, og Lovísa Gísladóttir, f. 18. júní 1895, d. 30. mars 1979. Heimili Alfreðs og Ingibjargar var að Gerði í Vestmannaeyjum fram að gosi, en þá misstu þau hús sitt. Þau settust að í Grindavík, í Norðurvör 5 og áttu þar heimili til 2001 er þau flytja að Strembugötu 4 í Vestmannaeyjum. Heimili Alfreðs síðastliðin tvö ár var að Eyjahrauni 1f. Börn þeirra eru: 1) Jóhann Þórir, f. 22.9. 1957, kvæntur Ingibjörgu Áslaugsdóttur. Börn þeirra eru Alfreð Elías, Magnús Örn, Ragnar Daði og Áslaugur Andri. Barnabörn þeirra eru níu. 2) Sveinbjörn Símon Alfreðsson, f. 7.11. 1960, kvæntur Gunnhildi Björgvinsdóttur. Börn þeirra; Inga Björg, Sara og Emil Daði. Barnabörnin eru átta. 3) Sigurður Björn, f. 25.8. 1962, kvæntur Margréti Elísabet Kristjánsdóttur. Börn þeirra; Ásgeir Davíð, Ólöf, Björk og Kristjana. Barnabörn þeirra eru tvö. 4) Jóhanna, f. 29.10. 1965, gift Ólafi Tý Guðjónssyni. Börn þeirra; Eva, Bjartur Týr og Ólafur Freyr og eiga þau eitt barnabarn. Ingibjörg og Alfreð ólu upp sonarson sinn frá tveggja ára aldri, fóstursoninn 5) Alfreð Elías, f. 12.8. 1976, kvæntur Berglindi Friðriksdóttur og eiga þau þrjú börn. Fyrir átti Ingibjörg 6) Bryngeir, f. 27.7. 1945, kvæntur Ástu Margréti Kristinsdóttur. Börn þeirra; Eyja, Ingibjörg og Nanna. Barnabörnin eru tvö. 7) Lovísa Guðrún, f. 5.9. 1946, d. 16.1. 1980, gift Þresti Bjarnasyni, f. 23.8. 1945, d. 15.11. 2000. Börn þeirra eru Heimir og Jónína. Barnabörnin eru fimm og barnabarnabörnin þrjú. Alfreð vann hefðbundin sveitastörf og verkamannavinnu framan af ævinni. Alfreð lærði pípulögn hjá Sigursteini Marinóssyni 1964-1968 og starfaði við þá iðn hjá Miðstöðinni í Vestmannaeyjum og síðar í Grindavík sem sjálfstæður pípulagningameistari, þar til að hann lét af störfum sökum aldurs.
Útför Alfreðs fer fram frá Landakirkju í dag, 9. apríl 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.
Ég er svo lánsöm að hafa átt góðan pabba sem bar hag minn og minna fyrir brjósti og ég fékk að hafa lengi hjá mér. Pabbi var sveitastrákur úr Skagafirði sem kom á vertíð til Eyja og hitti hana mömmu mína. Þau stigu lífsdansinn saman og börnin fæddust eitt af öðru.
Mamma og pabbi bjuggu í Eyjum fram að eldgosinu 1973 en þá fór fjölskyldan til Grindavíkur. Næg atvinna var fyrir pípulagningameistara í Grindavík og ílengdist fjölskyldan þar. Á uppvaxtarárum mínum vann pabbi mikið og átti lítinn frítíma. Það var þó alltaf skotist norður í Skagafjörðinn fagra á sumrin til að hitta ættingja. Stundum út í Eyjar í lundaveiði eða á Þjóðhátíð. Pabbi og mamma flytja aftur til Eyja 2001 en þá var heilsa mömmu orðin léleg en hún lést 2002. Pabbi bjó sér fallegt heimili á Strembugötu 4, snyrtimennska einkenndi pabba og allir hlutir áttu sinn stað.
Hann lét gamlan draum rætast og fékk sér gróðurhús, fyrst eitt og síðan dugði ekkert minna en tvö. Hann ræktaði sumarblóm og matjurtir með góðum árangri. Lánið hans pabba var að fá að vera með nokkrar ær hjá Guðjóni á Látrum og Önnu Svölu en með þeim og pabba tókst einstök vinátta. Sveitastrákurinn hafði engu gleymt og naut sín að stússa í kringum sauðfé.
Pabbi var mikið með okkur Óla Tý og strákunum okkar Bjarti Tý og Óla Frey, hann kom í hádeginu, sá til þess að strákarnir fengju sér eitthvað að borða og svo skutlaði hann í skólann, íþróttahúsið og á æfingar. Hann hjálpaði til við heimalærdóminn, mætti á fótboltaleiki, skákmót og sýndi öllu sem þeir voru að sýsla mikinn áhuga. Kom á kvöldin og borðaði með okkur, við grínuðumst stundum með það að við þyrftum ekki klukku, pabbi var klukkan okkar. Pabbi var líka minnið okkar, þegar einhverjar upplýsingar vantaði þá var viðkvæðið „hann afi man þetta“. Pabbi var víðlesinn, stálminnugur og ákaflega fróður um menn og málefni. Hann kunni mikið af lausavísum og sögum, hvort sem það var vorjafndægur eða haustjafndægur þá kunni hann vísu.
Strákarnir mínir fóru í vinnuskóla til afa, þar lærðu þeir að hugsa um garðinn, slá, reyta, planta blómum, skrapa og mála og annað tilfallandi. Þegar pabbi keyrði ekki lengur snerist dæmið við. Þeir fóru að skutla honum og sækja. Pabbi naut þess að vera í samneyti við unga fólkið. Þjóðhátíð skipar stóran sess í lífi fjölskyldunnar og Alli afi var alltaf með. Strákarnir mínir og vinir þeirra í búningafjöri og almennu sprelli, það líkaði pabba. Sagði oft við þá að unga fólkið ætti að vaka lengi og skemmta sér, það væri nægur tími til að sofa og hvíla sig þegar árin færðust yfir. Þegar heilsan fór að gefa sig sýndi pabbi mikið æðruleysi, þrautseigju og dugnað. Verst fannst honum að missa lestrarsjónina. Pabba fannst netið hið mesta undur og átti oft skemmtileg myndsamtöl við strákana okkar, Ólöfu Rögnu og litla Alfreð Tý sem sýndi afa langa allt það nýjasta sem hann kunni. Elsku pabbi minn, takk fyrir allt sem þú varst mér og mínum, minning lifir.
Dóttir þín,
Jóhanna.
Ólafur Týr Guðjónsson.
Öllu er skapað að skilja
er skín á himinsins ljós,
jafnt eikin hin forna fellur
sem fegursta heimsins rós.
(Þorvaldur Sæmundsson.)
Margrét Elsabet.
Það sem einkenndi afa hins vegar allra mest var hversu mikill fjölskyldumaður hann var. Hann fylgdist svo vel með okkur öllum og vissi hvað allir voru að aðhafast í lífinu. Afi var til dæmis einn af fáum í fjölskyldunni sem mundu frá fyrsta degi hvað námið sem ég var í héti, það vafðist fyrir sumum fyrstu árin ... en aldrei elsku afa.
Eitt af því síðasta sem afi sagði við mig þegar ég var hjá honum uppi á spítala var „ég hefði ekki getað beðið um betri börn“ og mér finnst það lýsa afa i hnotskurn. Hugsandi um fjölskylduna sína fram á síðustu stundu.
Elsku besti Alli afi, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum, allt það sem þú hefur gefið af þér og kennt okkur. Ég veit að Imba amma hefur tekið vel á móti þér í sumarlandinu góða.
Kristjana Sigurðardóttir.
Eitt sinn verða allir menn að deyja
eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja
að sumarið líður allt of fljótt.
Ólöf Ragnarsdóttir.