Sigrún Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 14. júní 1954. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 16. mars 2022.
Foreldrar Sigrúnar voru þau Gunnar Pétursson verslunarmaður, f. 6. júlí 1926, d. 21. ágúst 1983 og Sigrún Guðbjarnadóttir hárgreiðslukona, f. 26. nóvember 1926, d. 18. september 1982.
Systir Sigrúnar var Sigríður Halldóra, f. 3. febrúar 1951, d. 29. nóvember 2019 og börn hennar eru Gunnar Skúli Guðjónsson, Sigrún Másdóttir/Vöggsdóttir, Ólafía Björg Másdóttir og María Másdóttir.
Synir Sigrúnar eru tveir: Hrólfur Sigurðsson, f. 1. september 1977, maki Sigurlaug Mjöll Jónasdóttir, f. 4. apríl 1984. Hrólfur á tvo syni úr fyrra sambandi, Bjart, f. 19. febrúar 2002 og Teit, f. 21. júlí 2004, og tvær dætur með Sigurlaugu, Rakel Evu, f. 13. nóvember 2013 og Rebekku Ástu, f. 23. mars 2017.
Eiginmaður Sigrúnar er Jón Kristján Johnsen, f. 17. október 1956, og sonur þeirra er Lárus Kristján, f. 23. janúar 1992.
Sigrún ólst upp í Reykjavík. Að loknum grunnskóla lá leiðin í Kvennaskólann og síðar í MR og Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með BS-gráðu í jarðfræði. Sigrún kenndi við Menntaskólann í Kópavogi, Kvennaskólann og Fjölbrautaskólann í Ármúla. Hún starfaði um árabil hjá SKÝRR og Veðurstofunni og lauk starfsævinni hjá ÍSOR. Þá var hún meðfram öðrum störfum formaður Tourette-samtakanna í um það bil áratug. Meðal áhugamála hennar var bridge og lestur góðra bóka auk félagsstarfa.
Útför Sigrúnar fór fram í kyrrþey að hennar ósk.
Elsku Sigrún eða Rúna frænka mín og móðursystir mín er farin frá okkur allt of snemma. Hún var mér einstaklega kær og var ég skírð Sigrún í höfuðið á henni og ömmu minni. Upplifði ég stundum eins og ég væri dóttir hennar. Þrátt fyrir að hún hafi átt við margskonar erfið veikindi að stríða frá því að hún var ung að aldri þá var hún einstaklega sterk og dugleg. Hún vildi yfirleitt lítið tala um veikindin sín og sinnti hún bæði vinnu sinni og sínu fólki alltaf af alúð. Sérstaklega fann maður alltaf hversu mikið strákarnir hennar og barnabörnin áttu stóran hlut í hjarta hennar og hún naut þess mikið að segja mér frá barnbörnunum sínum. Stórfjölskyldan var henni einnig alltaf kær og var hún ávallt í sambandi við gamlar frænkur og fræddi hún mig sérstaklega um þær og hvar þær voru staddar í lífinu.
Rúna var jarðfræðingur að mennt og vann sem kerfisfræðingur síðastliðin ár. Rúna var einstaklega nákvæm í öllum sínum vinnubrögðum og það kom sér mjög vel fyrir mig þegar hún las yfir verkefni mín í háskólanum og sérstaklega nýkláraða mastersritgerð. Hún setti sig vel inn í hvert verkefni þrátt fyrir að þau væru alls ekki innan hennar áhugasviðs, voru það vinnubrögðin sem hún lagði alla áherslu á. Þrátt fyrir að við værum ekki alltaf endilega sammála komumst við alltaf að góðri niðurstöðu. Rúna starfaði einnig við kennslu í nokkur ár og veit ég að nemendur hennar voru heppnir með hana sem kennara, sérstaklega í stærðfræði sem var hennar sérsvið. Allir innan fjölskyldunnar vissu hversu greiðvikin hún var og þegar Rúna hafði lesið yfir verkefni eða sinnt annarskonar málum sem kröfðust nákvæmnisvinnu gat maður treyst því að hlutirnir væru vel gerðir. Samband systranna var hjartnæmt og náið alla tíð þar sem þrjú ár voru á milli þeirra í aldri, þó voru þær ólíkar að mörgu leyti en báðar mjög nákvæmar í öllum vinnubrögðum. Ekki er lengra síðan en rúm tvö ár að elskuleg móðir mín Sigríður kvaddi okkur og sinnti Rúna móður okkar systkinanna einstaklega vel í hennar erfiðu veikindum fram á síðasta dag. Vorum við systkinin henni afar þakklát og áttu þær systur góðan tíma saman. Mamma hafði alla tíð einstaklega gaman af því að elda góðan mat fyrir þær systur, okkur börnin sín og einnig vini.
Rúna eignaðist margar góðar vinkonur í gegnum tíðina og hluta af þeim hafði hún kynnst ung og voru þær stór hluti af hennar lífi alla tíð þrátt fyrir að nokkrar búi víðs vegar um heiminn. Rúna hafði áhuga á að heimsækja spennandi staði á landinu okkar og minnist ég þess þegar Stefán maður minn fór með hana að skoða eldgosið í Eyjafjallajökli þar sem eldgos eiga sér ekki stað á hverjum degi. Stefán hafði ekki síður gaman af og fékk nákvæma og skemmtilega fræðslu frá jarðfræðingnum.
Kæra Rúna mín, nú veit ég að elsku mamma tekur vel á móti þér ásamt ömmu og afa og litla fjölskyldan sameinast. Kæri Nonni, Lalli, Hrólfur, Silla og börn, ég votta ykkur innilega samúð og megi góðar minningar um sterkan gimstein geymast í hjarta okkar.
Þín kæra frænka,
Sigrún systurdóttir.
Dauðinn er óvæginn og birtist þegar hans er síst von. Hann kemur manni í opna skjöldu, kemur aftan að manni. Getur það verið að hún Rúna mín elskuleg sé horfin á braut? Ég reyni að halda henni nálægt mér með því að minnast hennar í örfáum orðum.
Hnyttin og skemmtileg var hún í tilsvörum, fljót að hugsa og fljót að greina hismið frá kjarnanum. Eldklár. Hún var gædd ríku skopskyni og kryddaði jafnan frásögn sína með laumulegum og fyndnum athugasemdum. Brosti sposk í kampinn en gerði um leið óspart grín að sjálfri sér. „Geggjaður húmoristi“ voru orð dóttur minnar þegar hún minntist hennar nú á dögunum.
Oft drógust samtöl okkar á langinn, litríkar umræður fóru á flug sem stundum virtust engan enda ætla að taka. Það var alltaf gefandi að vera í návist hennar og hlusta á hana ryðja upp úr sér alls kyns fróðleik um menn og málefni. Ekki var síðra að rifja saman upp sólríkar stundir æskuáranna hjá afa í Kjarri. Ömmu á Sjafnó.
Lífið lagði Sigrúnu óvenjuerfið verkefni á herðar. Allt frá blautu barnsbeini mátti hún þola sífelldar sjúkrahúsinnlagnir og illvígir sjúkdómar herjuðu sleitulaust á líf hennar og limi. Alla tíð. En aldrei lét hún neinn bilbug á sér finna, Kjarkurinn og þrautseigjan voru óþrjótandi.
Hún var haldin ómældri fróðleiksfýsn og varð sérfræðingur í ýmsum málum á ólíkum sviðum, þar á meðal sálfræðilegum og félagslegum greiningum. Það var óborganlegt að fá að vera þátttakandi í pælingum hennar.
Hennar sérgrein var að vísu jarðfræði en stuttu eftir að jarðfræðináminu lauk, venti hún kvæði sínu í kross og gerðist upp á sitt einsdæmi tölvuséní og forritari löngu áður en nokkur vissi hvað hugtökin tölva eða forritun þýddu. Á starfsferlinum vann hún hjá virtum innlendum og erlendum náttúruvísindastofnunum og var höfundur ómetanlegra gagnagrunna í þágu vísinda og framfara.
En síðast og ekki síst var hún vakin og sofin yfir velferð fjölskyldu sinnar. Hún var alltumlykjandi.
Blessuð sé minning Sigrúnar Gunnarsdóttur
Ég sendi Jóni og Lalla, Hrólfi, Sillu og barnabörnunum mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Svava Björnsdóttir.
Þegar við höfðum tækifæri til að hittast var hún ætíð glöð og bjartsýn, þrátt fyrir að hún hafi oft þurft að glíma við veikindi og áföll í gegnum árin. Hún gerði alltaf lítið úr sínum erfiðleikum en var sjálf alltaf reiðubúin að bjóða sig fram til að aðstoða aðra; hvort sem það voru fjölskyldumeðlimir, vinir eða félagasamtök.
Sigrún var heilsteypt persóna, gáfuð, íhugul og varfærin. Henni voru oft falin ábyrgðarverkefni, sérstaklega í þágu Tourette-samtakanna, þar sem hún vann mikilvægt starf.
Margir leituðu til Sigrúnar með ritgerðir eða greinar sem þurfti að yfirfara. Hún var fær við lagfæringar á texta, hvort sem hann var á íslensku eða ensku, og gerði það alltaf með glöðu geði. Hún var sérlega vel ritfær og átti ég því láni að fagna að fá frá henni handskrifuð bréf í mörg ár, áður en tölvupóstar urðu algengir. Ég á þau enn.
Sigrún var jarðfræðingur að mennt og vann lengi á Veðurstofu Íslands. Einnig vann hún í mörg ár hjá ÍSOR og hafði nýlega lokið þar störfum.
Vandvirkni og heiðarleiki voru Sigrúnu í blóð borin. Þessir eiginleikar sýndu sig í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún fór sér að engu óðslega, en vann sín verkefni af alúð og nákvæmni.
Það var mér mikil ánægja að Sigrún heimsótti mig til Ástralíu í apríl 2015. Við áttum þá marga góða daga saman og fórum í dagsferðir. Minningin er mér dýrmæt. Hún kom gagngert til að fara á ráðstefnu Alþjóðajarðhitasambandsins, sem haldin var í Melbourne, ásamt nokkrum starfsfélögum frá ÍSOR og öðru fagfólki frá Íslandi. Þar hélt Sigrún, meðal annarra, fyrirlestur.
Eftir ráðstefnuna fór hún í langt ferðalag inn í miðja Ástralíu; á slóðir frumbyggjanna. Hún fór m.a. til Alice Springs og sá hinn fræga „monolith“ Uluru (öðru nafni Ayers Rock). Þetta var talsvert ævintýri og hún hafði frá mörgu skemmtilegu að segja úr þessari ferð.
Síðast skrifuðum við hvor annarri fyrir 3-4 vikum. Ekki óraði mig fyrir því að það væri í síðasta sinn. Lífið er óútreiknanlegt.
Blessuð sé minning Rúnu minnar.
Ég votta Nonna, Lárusi, Hrólfi og fjölskyldu innilega samúð mína.
Ingibjörg Árnadóttir,
Melbourne, Ástralíu.
Hildur Magnúsdóttir.
Við vinkonurnar höfum haldið sambandi frá því í menntaskóla, spiluðum reglulega bridds auk þess sem vegir okkar lágu saman bæði gegnum vinnu og börnin okkar, en allar áttum við börn á svipuðum aldri og fylgdumst saman með þeim vaxa úr grasi. Sigrún var vel gefin, áræðin og seig. Hún sýndi mikið úthald í öllum sínum erfiðleikum og ætíð var stutt í húmorinn. Hún var félagslynd, hélt góðu sambandi við vini sína og fjölskyldu, sýndi öllu áhuga og umhyggjusemi og var mikill sögumaður.
Eftir að börnin okkar urðu eldri voru okkar helstu samverustundir tengdar briddsspilamennskunni, sem með tímanum urðu samt einungis átylla til að hittast því samræðurnar og sögurnar náðu yfirhöndinni. Oft náðist varla að spila meira en eitt spil á kvöldi, hvað þá einn hring. Þar naut Sigrún sín og við höfðum allar gaman af þessum kvöldstundum. Við minnumst einnig sumarbústaðaferða, sameiginlegra hádegisverða og matarboða þar sem sagðar voru sögur og spáð og spekúlerað í lífinu og tilverunni.
Sigrún menntaði sig sem jarðfræðingur en vann mestan sinn tíma í verkefnum tengdum forritun og gagnagrunnum auk þess að kenna raungreinar í menntaskóla. Hún tók virkan þátt í félagsmálum og sat í stjórnum ýmissa félagasamtaka svo sem Tourette-samtakanna og BUGL.
Við kveðjum með söknuði kæra vinkonu og minnumst um leið allra góðu samverustundanna sem við áttum með henni. Sigrúnu varð ekki margra lífdaga auðið en eftir situr þakklæti fyrir áratugalanga vináttu eða eins og segir í ljóði Starra í Garði:
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)
Sendum Nonna, Hrólfi, Lárusi, Ragnheiði og barnabörnum Sigrúnar innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Sigrúnar.
Hólmfríður, Ingibjörg og Salvör.
Sólveig kynntist Sigrúnu í jarðfræðinámi við Háskóla Íslands og naut þess að vinna með henni í jarðfræðiferðum og verkefnum og auk þess luku þær kennsluréttindum á svipuðum tíma. Þær settu svo af stað bridgeklúbb fyrir tæpum fjórum áratugum með fleiri konum til að halda vinskapnum áfram eftir námið og bættist þá Ingibjörg fljótlega í hópinn. Spilaklúbburinn hittist reglulega fyrstu áratugina og var mikið spilað en líka spjallað og spáð í hlutina. Varð vinskapurinn æ nánari með tímanum þegar við kynntumst betur. Sigrún var oft þreytt eftir langan vinnudag og heilsan var því miður ekki alltaf upp á það besta þó hún væri síst af öllu að kvarta við okkur. En hún var kankvís og mikill samræðusnillingur. Hún gat stundum verið dálítið hvatvís en klók í sögnum. Alræmd sögn í hópnum var svokölluð „Gústu-sögn“ Sigrúnar eða þrjú grönd þegar allir aðrir höfðu opnað á passi. Andstæðingar Sigrúnar dobluðu þá yfirleitt til refsingar en þeim til armæðu vannst samningurinn ótrúlega oft.
Sigrún tók marga unglinga í aukatíma í stærðfræði og fleiri greinum. Einnig las hún yfir ritgerðir háskólanema enda vel máli farin og með mjög gott vald á íslensku og ensku. Hún bar mikla umhyggju fyrir vandamönnum og vinum. Það kom gleðisvipur á hana þegar hún minntist á ömmubörnin sín sem hún var mjög stolt af.
Við kveðjum kæra vinkonu með sárum trega og sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
Guð geymi Sigrúnu okkar.
Ingibjörg og Sólveig.