Gunnlaugur Theodórsson fæddist á Hafursstöðum í Öxarfirði 1. desember 1929. Hann lést á dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík 11. mars 2022.
Foreldrar hans voru Guðrún Pálsdóttir húsfreyja frá Svínadal, f. 3. mars 1902, d. 19. júlí 1987, og Theodór Gunnlaugsson bóndi og rithöfundur frá Bjarmalandi, f. 27. mars 1901, d. 12. mars 1985.
Gunnlaugur var einn fimm systkina, en hin eru Þorbjörg, f. 13. júlí 1926, d. 13. ágúst 2012, Guðmundur f. 1. október 1927, d. 22. júlí 2012, Halldóra, f. 23. mars 1933, og Guðný Anna, f. 24. ágúst 1947.
Gunnlaugur bjó lengst af á býlunum Bjarmalandi og Austara-Landi í Öxarfirði. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Elsku kæri Gulli frændi. Þetta verður víst síðasta bréfið til þín. Við höfum alltof lítið getað spjallað saman síðustu árin. Það hefur verið langt á milli okkar, heyrn þín orðin döpur, og símtölin því orðið sífellt fátæklegri. Við höfum, sem betur fer, áður haft mörg tækifærin til að ræða málin. Dýrmætast finnst mér að hafa fengið að hlusta á frásagnir þínar þar sem þú rifjar upp æskuárin á Hafursstöðum og Bjarmalandi. Árin í torfbænum þar sem alltaf var hlýtt, um náttúruna í heiðinni, um Jöklu og umhverfi hennar, um veiðar, um fjölskylduna og frændfólkið. Þar var ástin til sveitarinnar og umhyggjan fyrir náttúrunni svo sjálfsögð að ekki var þörf á hugtökum eins og mengun eða ofneyslu. Það sem náttúran gat gefið var þegið með þökkum en þar sem landeyðing átti sér stað var ráðist í uppgræðslu. Þú sagðir mér af erfiðleikunum við að stunda búskap uppi í heiðinni og hve stór breyting varð við flutninginn í Austara-Land. Þar var heyfengurinn margfaldur og hægt að fjölga skepnunum. Lífið varð auðveldara samtímis sem heiðarbýlið var áfram annað heimili. Ást þín til heimahaganna og frelsisins hindraði þig þó ekki frá því að svala ævintýraþránni. Þú sóttir vertíðir til margra ára í Vestmannaeyjum og á Snæfellsnesi við góðan orðstír, í góðum félagsskap heimamanna og farandverkamanna. Þú fékkst snemma áhuga á bílum og tókst meirapróf á Akureyri. Frá því ég pollinn fór að vera sumur og sumarparta á Austara-Landi varst þú í mínum augum besti bílstjóri í heimi. Þú hlúðir að bílunum, rétt eins og dýrunum og öllu öðru í kringum þig. Röð, regla og vandvirkni hefur alltaf einkennt þig.
Þú varst oft upptekinn með vörubílinn í vegavinnu á sumrin en komst svo heim og vannst fram á nótt í heyskap. Þú gafst þér þó tíma til að spjalla við litla frænda þinn sem bjó um sig í hinu rúminu í svefnherberginu þínu. Þú leiðbeindir honum á allan mögulegan hátt, við smölun og flutning fjár, um keyrslulag, virðingu fyrir náttúrunni, notkun skotvopna og margt fleira. Þú varst við hlið hans þegar hann skaut sína fyrstu rjúpu. Sambandið hefur aldrei rofnað, tryggðin og vinskapurinn alltaf sjálfsagður. Á síðari árum var tryggð þín við bróður þinn einstök og aðdáunarverð við erfiðar aðstæður.
Síðustu árin bjóst þú í góðu yfirlæti á dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík. Þegar við Guðrún, konan mín, komum í heimsóknir til þín rifjuðust ætíð upp kærar minningar frá samverunni í sveitinni, okkur til endalausrar ánægju. Síðustu árin hefur svo heilsan farið að gefa sig og þú alveg steinhissa á hve háum aldri þú hafðir náð, „hefði aldrei búist við að verða svona gamall“. Nú svífur þú sem fuglinn frjáls til æðri tilveru þar sem allir þínir góðu eiginleikar tryggja þér það hásæti sem sæmir þér.
Hugur minn verður alla tíð hjá þér, kæri frændi.
Theodór Gunnar Sigurðsson.