Guðrún Jörgensdóttir fæddist 4. júlí 1929. Hún lést 8. mars 2022. Útför hennar fór fram 24. mars 2022.
Elsku hjartans mamma mín er dáin. Nú get ég ekki lengur slegið á þráðinn til þín og heyrt röddina þína. Mikið á ég þér margt að þakka. Þú varst alltaf nálæg, alveg sama hver fjarlægðin á milli okkar var.
Mér er minnisstætt hversu vel þú hugsaðir um Eyrúnu mína fyrsta árið eftir að ég byrjaði að vinna frá henni. Hún æfði sig að ganga með því að ganga hringinn í kringum kringlótta sófaborðið þitt. Þú varst svo góð amma, spilaðir á gítar og það var ekkert leikskólalagið sem þú gast ekki spilað. Eyrúnu minni leið svo vel hjá þér. Þú passaðir stundum annað barnabarn, Svövu, þær áttu svo vel saman. Þú sagðir að stelpurnar hefðu svo gott skap og væru svo glaðlyndar, það var eins og þú áttaðir þig ekki á því að það varst þú sem skapaðir þessa vellíðan þeirra.
Fyrstu árin þín í Kópavogi bjó elsta barnabarnið þitt hjá þér, hann hafðir þú passað mikið þegar hann var lítill og nú var hann í læknisfræði. Þú naust þess að hafa hann hjá þér og sagðir að hann minnti þig um margt á pabba, sem þú hafðir misst árið áður. Það var svo gaman að heimsækja ykkur, enda var ykkar samband alltaf svo hlýtt.
Ég þakka þér fyrir hvernig þú umvafðir Steingrím minn þegar þú vissir að hann þyrfti á þér að halda, honum leið ekki vel í skólanum og flýtti sér heim til þín eftir skóla. Þú tókst alltaf á móti honum opnum örmum. Stundum fóruð þið á flakk, eins og þú kallaðir það, þá fóruð þið með strætó í Kringluna eða Kolaportið. Hann elskaði að flakka með þér, ykkur leið svo vel saman. Þegar ég þakkaði þér fyrir, þá sagðir þú bara að hann væri svo yndislegur ferðafélagi og að það væru ekki mörg börn sem nenntu að þvælast í strætó með ömmu sinni. Þú varst líka svo stolt af honum þegar hann söng í barnakór, þar varst þú líka á heimavelli.
Við fluttum til Danmerkur þegar Steingrímur minn var níu ára og hans fallegustu minningar frá Íslandi tengjast þér. Hann missti svo mikið við að flytja.
Ég þakka þér fyrir að heimsækja okkur svo oft til Danmerkur. Þú gast gert þig skiljanlega á bæði ensku og dönsku svo það var enginn flugvöllur eða lestarstöð sem þú réðst ekki við. Þú lést ekkert stoppa þig.
Þegar sonur minn var 17 ára og 21 árs valdi hann að verja sumarfríinu sínu hjá þér. Hann sagðist skulda ömmu sinni að verja tíma með henni og henni einni eftir allt það sem hún hefði gefið sér. Hann er og verður alltaf ömmustrákurinn þinn.
Steingrímur tengdist þér og pabba einstaklega sterkum böndum og eru bæði börnin hans skírð eftir ykkur, Anton Einir og Guðrún Anna.
Eyrún mín hefur erft svo margt frá þér, elsku mamma mín, hún hefur þitt einstaklega góða tóneyra. Það er jafn erfitt að hlusta á söngvakeppni með henni, hún er eins og þú, heyrir hverja einustu feilnótu og nefnir hana, í hvert skipti. Hún er bæði lík þér í sér og í útliti og það er svo yndislegt að sjá þig skína í gegn í henni. Það er svo gott að hugsa til þess sem lifir áfram þegar þú ert ekki lengur hjá okkur.
Elsku mamma, þín verður sárt saknað. Takk fyrir að reynast mér yndisleg mamma.
Þín yngsta dóttir,
Ásta.