* Hannes Þ. Sigurðsson , fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn þjálfari Wacker Burghausen sem leikur í þýsku D-deildinni frá og með komandi sumri Hannes, sem er 38 ára gamall, hefur stýrt þýska liðinu Deisenhofen næstu tveimur deildum þar fyrir neðan, frá árinu 2018.
* Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik staðfesti við netmiðilinn handbolti.is í gær að meiðsli sem hann varð fyrir í Evrópuleik með Magdeburg á þriðjudagskvöld væru ekki alvarleg. Hann reiknar með að ná leikjum Íslands og Austurríkis í umspilinu fyrir HM 2023 sem fram fara á miðvikudag og laugardag.
*Serbneski miðherjinn Nikola Jokic náði einstökum áfanga í NBA-deildinni í körfuknattleik í fyrrinótt þegar lið hans, Denver Nuggets, vann Memphis Grizzlies, 122:109, og tryggði sér öruggt sæti í úrslitakeppninni. Jokic skoraði 35 stig, tók 16 fráköst og gaf sex stoðsendingar fyrir Denver. Þar með varð hann fyrstur í sögu deildarinnar til að skora 2.000 stig, taka 1.000 fráköst og gefa 500 stoðsendingar á einu og sama keppnistímabilinu.
*HK, sem féll úr úrvalsdeildinni í knattspyrnu síðasta haust, hefur fengið Stefán Inga Sigurðarson ánaðan frá nágrönnum sínum í Breiðabliki. Stefán lék sem lánsmaður með ÍBV í 1. deildinni á síðasta tímabili og skoraði þar þrjú mörk í tíu leikjum. Stefán er 21 árs gamall og hefur leikið fjóra úrvalsdeildarleiki með Breiðabliki en einnig verið í láni hjá Grindavík, og þá lék hann 14 leiki með U17 ára landsliði Íslands.
*Sundkonan Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH átti góðu gengi að fagna á fyrsta keppnisdegi Íslandsmeistaramótsins í sundi í 50 metra laug í Laugardalslaug í Reykjavík í gær. Jóhanna Elín kom fyrst í mark í 50 m skriðsundi kvenna á tímanum 26,09 sekúndum og náði um leið lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið 2022 sem fram fer í Róm á Ítalíu í ágúst. Þá kom Steingerður Hauksdóttir úr SH fyrst í mark í 50 m baksundi á tímanum 30,88 sekúndum. Þá setti Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH piltamet í 100 m flugsundi, Auguste Balciunaite úr SH setti meyjamet í 100 m bringusundi og Ylfa Lind Kristmannsdóttir úr Ármanni setti telpnamet í 50 m baksundi. Íslandsmeistaramótið heldur áfram um helgina og lýkur á morgun, sunnudag.
* Cristiano Ronaldo , leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er klár í slaginn þegar United heimsækir Everton í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park í Liverpool í hádeginu í dag. Ronaldo, sem er 37 ára gamall, missti af síðasta leik liðsins gegn Leicester í úrvalsdeildinni sem fram fór á Old Trafford á sunnudaginn síðasta vegna meiðsla en leiknum lauk með 1:1-jafntefli. United verður hins vegar án þeirra Edinsons Cavanis , Lukes Shaws , Raphaëls Varanes og Scotts McTominays en þeir glíma allir við meiðsli og missa því af leiknum gegn Everton. Ronaldo er markahæsti leikmaður United á leiktíðinni með 18 mörk í öllum keppnum en hann hefur skorað 12 mörk í 24 leikjum í úrvalsdeildinni á tímabilinu. United er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti en liðið er með 51 stig, fjórum stigum minna en Arsenal sem er í fjórða sætinu, en Arsenal á leik til góða á United.
*Liverpool heimsækir Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Etihad-völlinn í Manchester á morgun. Liðin eru í harðri baráttu í efstu tveimur sætum deildarinnar. City, sem er ríkjandi Englandsmeistari, er í efsta sætinu með 73 stig en Liverpool er í öðru sætinu með 72 stig. Leikurinn á morgun gæti því ráðið úrslitum um það hvort liðið stendur uppi sem Englandsmeistari í vor en leikurinn er hluti af 31. umferð deildarinnar. City á eftir að mæta Wolves, Brighton, Watford, Leeds, Newcastle, West Ham og Aston Villa í lokaleikjum sínum en Liverpool á eftir að mæta Manchester United, Everton, Newcastle, Tottenham, Aston Villa, Southampton og Wolves.
*Ársþing Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, fyrir árið 2022 fór fram um mánaðamótin síðustu. Þar voru fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, þær Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri. Ísland var eina aðildarþjóð FIFA þar sem allir þingfulltrúarnir á þinginu voru konur. Á þessu 72. þingi FIFA, sem fram fór í Doha í Katar, var fjallað um ýmis málefni knattspyrnunnar í heiminum og umræður og umfjöllun um komandi úrslitakeppni HM karla 2022 í Katar var áberandi.
* Thomas Partey , miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla. Þetta tilkynnti Mikel Arteta , stjóri Arsenal, á blaðamannafundi í gær en Partey er að glíma við meiðsli í nára. Miðjumaðurinn, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við Arsenal frá Atlético Madrid sumarið 2020 og hefur verið óheppinn með meiðsli síðan hann kom til Lundúna. Hann hefur byrjað 23 leiki Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað tvö mörk en alls á hann að baki 59 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.