[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NBA Gunnar Valgeirsson Los Angeles Eins og mörgum þeim sem fylgjast með toppíþróttadeildunum í Bandaríkjunum er kunnugt, þá eru þær reknar á öðruvísi grundvelli en stærstu atvinnudeildirnar í knattspyrnu í Evrópu.

NBA

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Eins og mörgum þeim sem fylgjast með toppíþróttadeildunum í Bandaríkjunum er kunnugt, þá eru þær reknar á öðruvísi grundvelli en stærstu atvinnudeildirnar í knattspyrnu í Evrópu. Liðin í Bandaríkjunum eru rekin sem „útibú“ (franchise) deildanna, rétt eins og þekkist í skyndibitaiðnaðnum. Ríkir einstaklingar – eða fjárfestingahópar á síðustu tveimur áratugum – hafa einfaldlega keypt þessi lið og gert við þau það sem þeir vilja, þar á meðal flutt þau milli borga.

Eigendur liðanna taka síðan allar lykilákvarðanir um rekstur deildanna sem einn hópur, og ráða síðan einfaldlega framkvæmdastjórn til að reka deildarskrifstofuna sjálfa.

Eigendur stjórna deildunum

Fyrir utan áhersluna á mikilvægi úrslitakeppninnar – í stað þess að láta deildakeppnina útkljá titilinn – tóku þessir eigendahópar tvær ákvarðanir fyrir nokkrum áratugum, sem hafa leitt til þess að mun fleiri lið hafa tækifæri til að vinna titilinn ár hvert en við þekkjum í knattspyrnunni í Evrópu.

Í háskólavalinu ár hvert velja verstu liðin fyrst og þau bestu síðast. Þetta gefur liðum á botninum tækifæri til að byggja nýjan liðshóp. Þar að auki hafa eigendur samþykkt mismunandi útgáfur á „launaþaki“ sem gerir liðum erfiðara að laða til sín endalausa runu af stórstjörnum.

Afraksturinn af þessum sósíalísku prinsippum er að fleiri lið eiga möguleika á að vinna meistaratitillinn ár hvert, auk þess sem vel rekin lið í minni borgum eiga möguleika á að vera með í baráttunni. Þetta er ástæða þess að San Antonio Spurs – lið frá lítilli borg – vann fimm meistaratitla í NBA á sínum tíma.

Fórnir lykill að velgengni

Þessi uppbygging á deildunum hér vestra sýnir sig nú í NBA-deildinni þar sem undanfarin þrjú keppnistímabil hafa nokkur lið verið – á einhverjum tímapunkti – talin sigurstranglegust af íþróttafréttamönnum, með sviptingar hjá toppliðunum allt tímabilið.

Einn afraksturinn af þessari stöðu er að þó nokkur keppni er meðal toppliðanna seint í deildakeppninni að bæta möguleikana á titlinum, með því að ná í toppleikmenn frá

öðrum liðum til að styrkja hópinn ef tækifærið gefst. Þetta er venjulega gert með því að fórna framtíðarvali í háskólavalinu og/eða skipta á leikmönnum. Allt gengur þetta út á að reyna að vinna titilinn ef tækifærið gefst, jafnvel þótt fórna þurfi framtíðarmöguleikum.

Á undanförnum vikum höfum við séð þetta í NBA-boltanum þegar Philadelphia 76ers náði í James Harden. Forráðamenn 76ers sáu að tímaramminn væri naumur hjá þessum leikmannahópi og þeir tóku því af skarið. Los Angeles Lakers gerðu þetta fyrir tveimur árum þegar þeir skiptu þremur upprennandi leikmönnum fyrir Anthony Davis. Það leiddi til meistaratitils hjá liðinu, en fórnin er nú að bíta liðið í rassinn.

Vegna aukins valds stjörnuleikmanna í deildinni undanfarin ár að neyða framkvæmdastjóra liða í leikmannaskipti – jafnvel þótt þeir eigi enn nokkur ár eftir á samningi sínum – hefur pressan á framkvæmdastjórana aukist að taka af skarið þegar tækifærið gefst.

Mörg lið tilkölluð austanmegin

Þetta kerfi hefur oft leitt til nokkurra sviptinga yfir langt keppnistímabil, en deildakeppninni lýkur nú um helgina. Úrslitakeppnin hefst svo fyrir alvöru um næstu helgi.

Í ár hafa fimm lið verið talin sigurstranglegust í Austurdeildinni á mismunandi tímapunktum – Brooklyn, Miami, Boston, Philadelphia, og Milwaukee. Eins og staðan er núna virðist lítill munur á fjórum síðustu liðunum, á meðan Brooklyn er að reyna að skríða saman eftir erfiða deildakeppni.

Í Vesturdeildinni er þetta mun skýrara. Phoenix, Phoenix, Phoenix.

Af því sem ég hef séð til liðanna í Vesturdeildinni er ekki að sjá að nokkurt annað lið – fyrir utan (kannski) Memphis Grizzlies – muni ógna liðinu verulega.

Hægt er að ofurgreina stöðuna í langri deildakeppninni, enda ekki svo lítill fjölmiðlaheimur sem dag hvern verður að bregðast við fréttum dagsins mánuðum saman. Ég hef lært að hunsa þessar sveiflur í stöðunni og þess í stað einfaldlega látið leikina sjálfa segja mér allt sem ég þarf að vita.

Mér er nokkuð ljóst að liðin tvö sem léku til úrslita á síðasta tímabili – Phoenix Suns og Milwaukee Bucks – ættu að komast í úrslitin að nýju nú, hvað svo sem gerist í jafnri stöðunni austan megin. Þessi lið hafa lært hversu mikilvægt það er að mæta með hörkukeppnisskap í hvern leik í deildakeppninni. Það gengur að vísu ekki alltaf upp, en þau ná oft að merja sigur í leikjum sem annars hefðu tapast.

Tuttugu lið sem halda áfram

Deildakeppni NBA lýkur um helgina en í fyrrinótt varð endanlega ljóst hvaða lið færu beint í úrslit og hvaða lið færu í umspil.

Í Austurdeild fara Miami, Milwaukee, Boston, Philadelphia, Toronto og Chicago beint í úrslit en Cleveland, Brooklyn, Atlanta og Charlotte fara í umspil um tvö síðustu sætin.

Í Vesturdeild fara Phoenix, Memphis, Golden State, Dallas, Utah og Denver beint í úrslit en Minnesota, LA Clippers, New Orleans og San Antonio fara í umspil um tvö síðustu sætin.