— Morgunblaðið/Eggert
Hálfum mánuði síðar hafði „einhver snjall“ ljósmyndari náð mynd inn um glugga Elysée-hallarinnar í París. Þar glitti í forsetann inn um gluggann, þreytulegan og illa rakaðan og í dökkgrænni stuttermaskyrtu, eins og Selenskí forseti hefur gert fræga.

Fórnarlömb stríðs eru af margvíslegu tagi. Það gefur augaleið að þeir sem klæðast einkennisbúningum stríðandi fylkinga eru merktir hættunum í sterkari litum en aðrir. Þess utan er það annað ódæði að fella slíka í átökum en almenna, óvopnaða borgara. Og eru þá konur og börn gjarnan nefnd til sögu. Enda er sá hópur grátlega oft óvæntur þolandi. Ekki eru einungis gerðar árásir á þá staði sem slíkra er von. Þeir eiga það oft sameiginlegt að engum vörnum verður við komið.

Komi stríð fær það forgang

Öll almenn umhyggja og velferð hverju nafni sem nefnist víkur fyrir stríði. Það er eiginlega aldrei ákveðið. Það gerist bara. Alltaf. Árangur stríðsins og lokadómurinn sem í því felst krefst þess.

Sjúkrahúsin og stærsti hluti starfsemi af því tagi tekur mið af því að græða sár hermanna, bæði til þess að angist þeirra vegna stríðshættunnar aukist ekki, ef skynja má að særðir verði þeir skildir eftir sem tilvonandi lík og þar með gagnslausir í framhaldinu, í stóra dæminu sem víkur öllu öðru frá.

Almennir sjúkdómar sem áður hefðu átt forgang í hefðbundinni samfélagssátt sitja nú á hakanum í sjálfgefinni „sátt“. Og á meðan loftárásir ganga yfir, gagngert til að brjóta niður mótþróa, styrk og von almennings, þá þarf hver nótt af því tagi á allri þeirri heilbrigðishjálp að halda sem fyrir hendi er. Allt annað víkur. Ekki bara í vikur og mánuði. Á meðan þarf.

Og í sömu andrá hafa heimilin horfið út úr tilverunni, eru rjúkandi rústirnar einar hvert sem litið er og orðin minna en ekkert athvarf.

Svarthvítu myndirnar úr síðari heimsstyrjöldinni eru okkur flestum í minni, en hafa breyst og eru aðeins útlitsmyndir söguefnis sem er fjarlægt og fráleitt er að verði framtíðarefni. Þær segja auðvitað sögu ömurleikans, en persónulega samúðin er orðin fjarlægari en áður af eðlilegum ástæðum.

Plan B verður ekki endilega betra

Við sáum í síðustu viku myndirnar frá Barodianka-svæðinu, eftir að Rússlandsher vék burt þaðan, og ekki til síns heima, heldur til að grípa til annarrar skipulagningar í þröngri stöðu. Nú kemur að tillögu B eins og það heitir gjarnan þegar tillaga A, sú sem fyrst varð ofan á, gekk ekki samkvæmt vonum og jafnvel miklu lakara en það. Reynslan sýnir að tillaga B er líklegri til að einkennast af hörkunni, þeirri sem bersýnilega vantaði í númer A.

Það væri of mikið sagt að Úkraínustjórn hafi unnið það svæði sem Rússar yfirgefa í raunverulegum bardaga þótt ekki sé gert lítið úr þrautseigju þeirra. En fyrirstaða þeirra reyndist augljóslega mun burðugri en tillaga A hafði gert ráð fyrir. Upp úr því krafsi hafðist, að höfuðborginni Kænugarði er veitt nokkurt friðarskjól, um hríð. Meira að segja svo öruggt, að helstu forystumenn ESB treystu sér til að heimsækja Selenskí forseta landsins þangað.

Fæst er sem sýnist

En sá sem hefur varla leikmannsþekkingu á helstu þáttum styrjaldarvafsturs, og þráir ekki meiri færleik í slíku, getur þó borið upp nokkrar spurningar og það við sjálfan sig á meðan næst ekki í annan skárri.

Hvers vegna í ósköpunum skildi rússneski herinn eftir þessi lík, sum þeirra bundin á bak aftur og skotin í hnakka, fyrst hann hafði nægan tíma til að fjarlægja þau ummerki eða gera torkennilegra að túlka? Í versta falli látið óhugnaðinn líta út sem eins konar almennt uppgjör átaka? Eina skýringin, á meðan önnur skárri finnst ekki, hlýtur að vera sú, að rétt eins og gapandi sár á heilu blokkarlengjunum í fjölda borga eru hugsuð til þess eins að draga úr baráttuþreki „óvinarins“ eigi þetta að þjóna sama tilgangi, og að það hafi meiri þýðingu en sá skaði sem framgangan hefur á almenningsálitið í þeim heimshluta, sem hefur þegar tekið eindregna afstöðu á móti.

Og annað kemur á óvart

En það er fleira skrítið í tengslum við þetta stríð, sem er þó sjálfsagt, eins og flest annað, smælki við hlið illra örlaga leiksoppanna. Farið var yfir það á dögunum í Morgunblaðinu að formaður herráðs Bandaríkjanna hefði sagt bandaríska þinginu í trúnaðaryfirheyrslu í byrjun febrúar að Kænugarður, höfuðborg Úkraínu, yrði fallinn 72 tímum eftir að Pútín hefði gefið fyrirmæli sín um innrás í landið. Bandaríkin eru talin hafa öflugustu leyniþjónustu í heimi. „Augu“ hennar eiga að beinast að óvinum og andstæðingum Bandaríkjanna, sem teljast, í smáu eða stóru, hættulegir öryggi eða öryggishagsmunum ríkisins og eftir atvikum samherja þess og bandamanna.

Höfuðstöðvar Bandaríkjahers eru í Pentagon, sem einhverju sinni var fullyrt að væri aðstaða 25.000 stjórnenda hans og hjálparliðsins niður úr.

Starfsmenn CIA voru gjarnan sagðir, til hagræðis hér heima, vera jafnmargir á launaskrá og íbúafjöldinn væri á Íslandi. Þarna er því töluverður mannskapur til að grufla í þeim verkefnum sem teljast svo mikilvæg stórveldinu, sem enn er talið það öflugasta í heimi, hvað sem verður. Ekki dugði allt þetta vit og þekking til að koma í veg fyrir að formaður herráðs ríkisins færi með hreint fleipur í trúnaði yfir þinginu. Ekki þarf að taka það fram að sá trúnaður varð ekki fyrirstaða þess að þar með var lögð lína í fjölmiðlum veraldar um að Úkraína myndi falla undraskjótt.

Og mikið var fagnað

Og þegar það gerðist ekki þá urðu til fagnaðarstunurnar um ótrúlega og óvænta varnargetu Úkraínumanna. Við erum mörg, eins og konan í leikritinu Gísl sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu fyrir rúmum 60 árum og Herdís Þorvaldsdóttir lék með ágætum. Við biðjum Guð helst um lítið.

Bréfritara þótti sýningin góð og lét því eftir sér að fara nokkrum sinnum í húsið og alltaf upp á þriðju svalir til að sjá verkið aftur og aftur. Lærði þá óviljandi nokkra söngva sýningarinnar utan að og hefur síðan ímyndað sér að hann fari rétt með þá, sem er þó alls ekki víst. Herdís söng (með þeim fyrirvara):

Ég er ein kristin kona,

og kann á fáu skil.

Sem herrans lamb eitt lítið,

ég lifa og deyja vil.

En Kennedy og Krústsjev,

ég kurteislega bið:

Fiktið ei við,

fiktið ei við,

fiktið ei tunglstötrið við.

Virtist blasa við

Við vitum það nú og reyndar fyrir löngu að ekkert var gert með þessi hógværu tilmæli konunnar.

Og þótt við kæmum nú þeim boðum til þeirra sem öll tæki hafa til að fara sæmilega með getgátur sínar og spár, þá er ekki víst að við því yrði brugðist.

En það skrítna við þessar vitlausu spár var að Pútín hafði raðað upp sínum herstyrk, tækjum, tólum og mannskap, eins og okkur var raðað upp í barnaskólaportinu forðum, svo við gætum gengið fram, öll í röð, þegar bjallan hringdi og kallið kæmi.

Það er ekki nóg með það, að ekkert hafi verið gert með beiðnina um að friða tunglið, heldur hefur á þessum rúmu 60 árum verið skotið upp gervitunglum sem taka allan sólarhringinn myndir af jörðinni og hverjum lófastórum bletti, sem forvitnir geta skoðað, eins og þeir hjá CIA og Pentagon, og margir fleiri eru fræg dæmi um. Ljósmyndafjölda mátti dreifa til þeirra sem þekktu best til og kunnu að telja og það var eftir það ekkert rúm fyrir plat eða blekkingu að neinu gagni. Samt vissu þeir sem allt þóttust vita ekkert um það efni. Þeir voru eins og karlinn sem var lunkinn í að spá um allt, „nema þá helst framtíðina“.

Nýja spáin og ein óumbeðin

Formaður herráðsins og framkvæmdastjóri NATO á eftir honum sneru vitlausu spánni um þriggja sólarhringa stríð algjörlega á hvolf og sögðu, hvor á sínum fjölmiðlafundinum, að stríðið vonda gæti nú, að þeirra mati, staðið í ár eða jafnvel mun lengur en það. Og það kom ekkert fram um það, hvað þeir hefðu fyrir sér um það!

Bréfritari, sem hefur enga sérstaka minnimáttarkennd, sem gæti þó ekki skaðað hann, telur sig geta slegið út alla þessa þrjá, karlinn sem vafðist fyrir að spá til um framtíðina og þessa mestu hernaðarspekinga heims, sem telja nú ekki útilokað að stríðið í Úkraínu standi í nokkur ár. Spá undirritaðs væri þá sú, að ekki væri útlokað að stríðið stæði í svona fimm sinnum 72 klukkustundir frá birtingu spárinnar og svo í ytrimörkum yrði stríðið í allmörg ár og eitthvað færri klukkustundir en 72. En svo eru þeir sem spáðu í Úkraínustríðið út frá því hvernig það gæti komið út fyrir þá.

Tækifæri lífsins

Þar er Macron forseti Frakklands fremstur í flokki. Fyrri umferð forsetakosninga fór í hönd hjá honum rúmum tveimur mánuðum eftir að verulega hitnaði undir við landamærin austur þar. Macron sá í hendi sér, eða spákúlu spúsu sinnar, að nú ætti hann leik. Hann gæti orðið sá sem sneri lukkuhjóli andstæðinganna og heimsins við og þyrfti þá ekki að binda um skitnar forsetakosningar. Macron linnti ekki látum fyrr en hann fékk vel auglýstan fund með Pútín, án þess þó að hafa nokkuð nýtt fram að færa. Honum var auðvitað dálítið brugðið fyrst þegar honum var boðið til sætis við langa borð Pútíns, sem sat öndvert honum út við sjóndeildarhringinn inni í Kremlarkastala.

Þetta var í fyrsta sinn í þessu leikriti, sem langa borðið stal algjörlega senunni og átti það þó eftir að lengjast enn um allmarga metra áður en lauk nösum.

Ekki tók betra við þegar fundinum lauk og efnt var til blaðamannafundar. Þeir fóru út úr salnum, heimsleiðtogarnir, hvor síns borðsenda megin, og ræddu við blaðamenn sem voru í órafjarlægð og hefðu því rétt eins getað verið heima hjá sér.

Leiðtogar alheims voru hvor með sinn míkrófón og var nú helmingi lengri vegalengd höfð á milli þeirra en þegar þeir sátu aleinir við langa borðið. Fjölmiðlar einbeittu sér að lengd borðsins uppi í stórum sal og héldu helst að Pútín hefði ætlað að ná DNA úr Macron, en hann hefði sýnt franska festu í anda DeGaulles og var því niðurlægður til fulls með langaborðsafbrigðinu.

En af hverju DNA? Og þetta undarlega leikrit?

Enginn veit þó af hverju Pútín er svona sólginn í DNA úr Macron, nema hann telji rétt að framleiða nokkur stykki úr honum, þar sem KGB nútímans hafi upplýst leiðtoga sinn um að ekki hafi verið búin til nein slík eintök í París.

En Macron hraðaði sér heim og hafði áríðandi símsamband við alla helstu leiðtoga heims, frá Biden og upp úr. Þá átti hann langt símtal við Pútín og aftur við leiðtogana, sjálfsagt í annarri röð en síðast. Hálfum mánuði síðar hafði „einhver snjall“ ljósmyndari náð mynd inn um glugga Elysée-hallarinnar í París. Þar glitti í forsetann inn um gluggann þreytulegan og illa rakaðan og í dökkgrænni stuttermaskyrtu, eins og Selenskí forseti hefur gert fræga. En þessi franski Selenskí var með pappíra og herkort fyrir framan sig og allar hliðar, til að geta lagt línur fyrir þetta yfirgengilega stríð og leyst það að lokum.

Ekki virðist þó þessi skrítna sviðsetning vera að ganga upp. Hefðbundið er að Marine Le Pen tapi í annarri umferð frönsku kosninganna, ef hún kemst þangað, því þá sameinist allir flokkar, venju samkvæmt, úr öllum áttum gegn „hægriöfgamanninum“ hræðilega.

Munurinn á milli M-anna stóru hefur þó minnkað nokkuð og sumir segja verulega, þrátt fyrir að forsetinn hafi tekið þetta munaðarlausa stríð upp á sína arma og hafi verið í símanum nánast allan sólarhringinn, og það þótt ekki hafi enn náðst í þann mann sem veit út á hvað þessir vafningar franska forsetans ganga.

Kannski er hann sífellt að hringja í skakkt númer?

Eitthvað er það.

Kannski veit Marine Le Pen númerið?