Þ ví fer fjarri að allir hermenn sem hingað komu í seinna stríði til að sinna vörnum landsins hafi verið kynntir sérstaklega fyrir lesendum Morgunblaðsins. Það kom þó fyrir, eins og í tilviki Ragnars Stefánssonar liðsforingja, sem kom frá Bandaríkjunum, enda var hann fæddur á Íslandi og stórættaður í þokkabót.
Fjallað var um Ragnar á síðum blaðsins í byrjun apríl 1942 en hann var þá kominn fyrir nokkru. Fram kom að hann væri sonur hjónanna Jóns Stefánssonar og Solveigar Jónsdóttur, Jóns alþingismanns í Múla, og var hann því systursonur Árna Jónssonar alþingismanns.
„Eru báðar ættir Ragnars landskunnar og óþarfi að rekja hjer,“ sagði blaðið og taldi greinilega óþarft að eyða dýrmætum dálksentimetrum í ættfræði.
Jafnframt kom fram að Solveig, móðir Ragnars, hefði verið kjörin í bæjarstjórn Seyðisfjarðar, er konur fengu kosningarétt og kjörgengi í sveitarstjórnarmálefnum. „Mun hún því vera fyrsta íslenska konan, sem kjörin er í bæjarstjórn á Íslandi. Solveig var þá aðeins 25 ára að aldri.“
Fór 10 ára vestur um haf
Ragnar fluttist frá Seyðisfirði, með móður sinni, er hann var 10 ára að aldri, árið 1919, en faðir hans var þá fluttur vestur fyrir nokkrum árum. Ragnar og fjölskylda hans höfðu búið í Baltimore, Maryland, þar sem var fátt Íslendinga og voru foreldrar og systkini Ragnars lengi einu Íslendingarnir þar um slóðir. „Nú eru búsettir í Baltimore þessir Íslendingar: Dr. Stefán Einarsson, Sigurður Steffensen og kona hans, Rósa. Sigurður er fyrsti vjelstjóri hjá Standard Oil fjelaginu þar, og sonur hans Svavar er aðstoðarvjelstjóri. Nokkrir aðrir Íslendingar hafa dvalið í Baltimore í lengri eða skemri tíma. Koma landar þarna oft saman til að tala íslensku og minnast átthaganna heima á Fróni.“Ekki er annað hægt en að taka hér hatt sinn ofan fyrir blaðinu; engin leið er að fylgjast svona vel með Íslendingasamfélaginu vestra í dag jafnvel þótt tækninni hafi fleygt fram.
Solveig og Jón Stefánsson eignuðust sex börn: Jón Múla, en hann fórst í bílslysi síðla árs 1941, Stefán í Flórída, Karl, sem lagði stund á jarðfræðinám, Ragnar liðsforingja, Valgerði, sem var að verða útlærð hjúkrunarkona og Sólveigu sem stundaði nám í kennaraskóla. Ragnar var einn kvæntur þeirra systkina en kona hans var amerísk, Mildred Elisabeth. Þau hjón áttu tvö börn á þessum tíma, Davíð Ragnar fjögurra ára og Mildred Elisabeth, átta mánaða.
Áður en Ragnar fór í herþjónustu starfaði hann við landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna og las lögfræði.
Faðir hans barðist með Bandaríkjahernum
Ragnari Stefánssyni kippir mjög í kynið hvað hermennskuna snertir, sagði Morgunblaðið, því að Jón faðir hans var einn þeirra fáu Íslendinga, sem barðist í her Bandaríkjanna í spánsk-ameríska stríðinu. „Tók Jón þátt í bardögum á Filippseyjum og gat sjer orð fyrir hreystilega framkomu í bardögum. Hlaut hann mörg heiðursmerki að launum. Jón Stefánsson kom hingað til lands er hann hafði lokið herþjónustu. Var hann þá stundum í daglegu tali nefndur Jón Filippseyjakappi. Hann andaðist 1932.“Ragnar gekk ungur í ríkisher síns ríkis (National Guard) og hafði síðan hann var 17 ára lagt stund á hernaðarlegar íþróttir í frístundum sínum. Þá var þess getið að Ragnar væri söngmaður góður, baríton, enda átti hann það ekki langt að sækja. „Hefir hann sungið í kórum og einsöng, opinberlega í Ameríku. Var hann lengi með söngfjelagi, sem nefndist Gilbert Sullivan Light Opera Reportoir Co. Söngfjelag þetta söng víða opinberlega og hlaut góða dóma. Það var að hálfu leyti skipað áhugamönnum, eins og Ragnari, en hljómlistargagnrýnendur blaða dæmdu jafnan um frammistöðu þess, sem um atvinnuflokk væri að ræða.“
Síðast en ekki síst kom fram í Morgunblaðinu 1942 að Ragnar hefði sjálfur farið þess á leit, að hann yrði sendur til Íslands, þótt hann hefði að sumu leyti átt betri framtíð fyrir höndum, ef hann hefði verið kyrr með herdeild sinni. En hann langaði til að kynnast föðurlandi sínu betur, en hann hafði tækifæri til fram til 10 ára aldurs. Einnig lék honum hugur á að sjá ættingja og æskuvini. „Valgerður systir hans, sem mun ljúka hjúkrunarnámi í vor, hefir einnig farið þess á leit að hún yrði send til Íslands.“
Bakari handtekinn
Hernámið var að vonum fyrirferðamikið á síðum Morgunblaðsins á þessum tíma og við hlið fréttarinnar um Ragnar Stefánsson var að finna frétt um að lögreglan hefði gert húsrannsókn og tekið fastan bakara einn hér í bænum. Sönnuðust á hann viðskipti (sem þá voru raunar með effi) við breska setuliðsmenn.Við rannsókn málsins kom í ljós, að bakarinn hafði keypt 20 dósir af ávaxtasultu og sírópi af hermanni, sem hann kvaðst ekki þekkja né geta bent á. Hafði hermaður þessi lofað að selja honum efni, sem notað er til kökuskreytinga, en ekki staðið við orð sín. Hver dós var 8 pund og kostaði 15 krónur.
Þá hafði hann keypt fjóra til fimm kassa af áfengum bjór. Í hverjum kassa voru 48 flöskur. Einnig hafði hann keypt af dönskum liðsforingja hjá NAAFI-stofnuninni 15 poka af hveiti. Loks hafði hann fengið 48 kassa, eða 1.149 ensk pund, af smjörlíki frá NAAFI. Hafði hann nótu yfir þau viðskipti frá stofnuninni.
„Rannsókn málsins mun vera
langt komin hvað íslensk yfirvöld snertir, en dómur hefir ekki gengið í málinu.“