Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Ný aðstaða fyrir þjónustu og starfsemi Alzheimersamtakanna og Parkinsonsamtakanna var síðdegis í gær vígð á 3. hæð gamla St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði. Þar hafa félagar í Oddfellowreglunni unnið hörðum höndum síðan í ársbyrjun 2021 að endurgerð um 530 fermetra húsnæðis, sem samtökin skipta með sér. Framlag Oddfellow nemur um 180 milljónum króna og mun ganga upp í leigu á húsnæðinu til næstu 15 ára. Viðstödd vígsluna voru Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, fulltrúar Oddfellow og verktaka.
Fyrir um tveimur árum settist Steindór Gunnlaugsson, formaður stjórnar Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, niður með með Vilborgu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Alzeimersamtakanna, og hugmyndin fæddist um að stofna miðstöð fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma, sem væri í ætt við Ljósið á Langholtsvegi. Rættist sú hugmynd með aðkomu Hafnarfjarðarbæjar, sem hafði stofnað Lífsgæðasetrið á 2. hæð hússins. Seinna komu Parkinsonsamtökin inn í myndina og ákveðið var að endurgera alla 3. hæðina. Húsnæði Alzheimersamtakanna nefnist Seiglan og Taktur er heitið á aðstöðu Parkinsonsamtakanna. Öll verkstjórn framkvæmda var í höndum Magnúsar Sædals Svavarssonar byggingarmeistara og Péturs J. Haraldssonar húsasmíðameistara, félaga í Oddfellow.
„Samstarfið hefur gengið mjög vel,“ segir Steindór við Morgunblaðið en bærinn hefur komið til móts við samtökin með því að hafa enga leigu næstu 15 árin. „Okkur fannst strax svo mikilvægt að fólk með heilabilunarsjúkdóma ætti sér stað þar sem það ætti möguleika á auknum lífsgæðum. Það er hægt að taka á móti mörgum á hverjum degi og hugsað er sérstaklega til þess að styðja við fólk sem greinist ungt. Síðan verða Parkinsonsamtökin með talþjálfun og gönguþjálfun og á fyrstu hæðinni í Lífsgæðasetrinu er íþróttaaðstaða. Svo fer 4. hæðin til smærri fyrirtækja og einyrkja. Við göngum afskaplega stolt frá þessu verkefni,“ segir Steindór.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segist afskaplega ánægð með Lífsgæðasetrið. „Hafnarfjarðarbær keypti þetta sögufræga og fallega hús af ríkinu árið 2017 en það hafði drabbast mikið niður eftir að hafa staðið autt um árabil. Ég er ákaflega stolt af því að St. Jósefsspítala skuli hafa verið bjargað með þessum hætti og það hefur mikla þýðingu fyrir bæjarbúa því flestir hafa miklar tilfinningar til hússins og þeirrar góðu starfsemi sem þar fór fram í áratugi,“ segir Rósa og bætir við að samstarf Hafnarfjarðarbæjar, Oddfellowreglunnar og Alzheimer- og Parkinson-samtakanna sé einnig einstakt. Með þessu þríhliða samstarfi hafi tekist að endurnýja heila hæð í húsinu án beins fjárframlags bæjarins.
„Við erum mjög þakklát fyrir aðkomu allra þeirra sem létu þetta takast,“ sagði Rósa í gær.