Guðbjörg María Gunnarsdóttir fæddist á Flateyri 8. september 1931. Hún lést 16. mars 2022 á Sóltúni.
Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía Kristín Guðnadóttir, f. 15.10. 1895, d. 31.10. 1975, og Gunnar Benediktsson, f. 26.8. 1892, d. 27.10. 1934. Tvö eldri systkini Guðbjargar, þau Ingunn Guðrún og Benedikt Vagn, eru bæði látin. Kristín giftist aftur Magnúsi Jónssyni, f. 9.9. 1909, d. 28.5. 1988, sem gekk þeim systkinum í föðurstað.
Guðbjörg giftist 1.3. 1952 Magnúsi H. Magnússyni frá Patreksfirði, f. 21.9. 1929, d. 14.3. 2013. Þau hjón eignuðust þrjá drengi; tvíburana Jón og Gunnar og Magnús, sem lést 21.2. 2018. Afkomendur þeirra eru 23 talsins.
Útför Guðbjargar Maríu var gerð frá Garðakirkju 30. mars 2022.
Í nokkrum orðum vil ég minnast föðursystur minnar, Guðbjargar Maríu Gunnarsdóttur, eða Bubbu eins og hún var kölluð, sem lést hinn 16. mars síðastliðinn á 91. aldursári, fædd 8. september 1931. Hún var yngst þriggja barna Kristínar Guðnadóttur, f. 15.10. 1895, d. 31.10. 1975, og Gunnars Benediktssonar, f. 26.8. 1892, d. 27.10. 1934. Systkini hennar, þau Ingunn Guðrún og Benedikt Vagn, eru bæði látin. Amma Kristín giftist aftur 1939 Magnúsi Jónssyni, f. 9.9. 1909, d. 28.5. 1988, og í gegnum árin minntist hún Magnúsar stjúpföður síns oft með mikilli hlýju og þakklæti. Fyrstu kynni mín af Bubbu frænku má rekja til æskuára minna heima á Flateyri og í dag geri ég mér grein fyrir hvers vegna hún er mér svo minnisstæð sem barni, en það var vegna þess að mér fannst hún alltaf í svo flottum fötum og flott í öllu sem hún gerði, enda var hún ein af þeim konum sem ávallt gæta þess að vera vel til fara og áttu þau það sameignlegt hjónin Magnús H. Magnússon sem hún giftist 1.3. 1952 að fáguð framkoma og snyrtimennska var höfð í fyrirrúmi. Þau hjón eignuðust þrjá drengi, tvíburana Jón og Gunnar og Magnús sem lést aðeins 56 ára hinn 21.2. 2018 og var henni sonarmissirinn afar þungbær. Þau hjón byggðu sitt fyrsta hús á Sogavegi og bjuggu þar sín fyrstu ár. Magnús var hagleiksmaður mikill og kunnu þau bæði að fara vel með enda bæði af þeirri kynslóð sem þekkti harða lífsbaráttu og að ekkert er sjálfgefið. Eftir árin á Sogaveginum fluttu þau á Hagaflöt í Garðabæ og síðar að Lækjasmára í Kópavogi. Árið 1972 keyptu þau sig inn í fyrirtækið Skúlason & Jónsson, sem þau eignuðust að fullu skömmu síðar og er rekið í dag af Gunnari syni hennar. Við rekstur þess og uppbyggingu stóð Bubba við hlið Magnúsar og tók fullan þátt í rekstri þess ásamt heimilisstörfum. Eftir að þau fluttu í Garðabæinn starfaði Bubba við Tónlistarskólann í Garðabæ í nokkur ár. Á unglingsárum mínum kom ég oft á heimili þeirra á Sogaveginum og dvaldi hjá þeim tíma og tíma. Við Bubba náðum alltaf vel saman, gátum rætt nánast allt milli himins og jarðar og var oft glatt á hjalla. Eftir lát Magnúsar hinn 14.3. 2013 urðu samverustundir okkar tíðari og sérstaklega nú hin síðari ár eftir að sjón hennar fór dvínandi. Ég hafði alltaf gaman af heimsóknum mínum til Bubbu og þá sérstaklega þegar minningar hennar frá uppvaxtarárunum á Flateyri streymdu fram, mannlífinu og samskiptum fólks, sérstökum persónum og lífsbaráttu fólks á þeim tíma almennt, og fannst mér þá stundum að amma Kristín væri að segja frá, sé litið til svipbrigða, framsetningar og orðavals. Þó svo að sjónin væri farin að daprast var hún alltaf til í að tala um fataval og tískuna, hvað mér fyndist um þennan klút; á hann við, mér finnst þessi litur ekki klæða mig, þetta pils er of sítt, o.s.frv, eðlileg og góð dægrastytting konu sem var svo sem ekki að fara neitt en hafði alla tíð fylgst vel með tískunni og lagt metnað sinn í að vera alltaf vel tilhöfð og vel til fara. Hin síðari ár treysti hún mikið á aðstoð Jóns sonar síns sem aðstoðaði hana af einstakri umhyggju sem hún var þakklát fyrir. Við lok samferðar er ég þakklát fyrir allar stundir okkar saman og þann minningasjóð sem þær skilja eftir og kveð kæra frænku mína með söknuði. Ég votta öllum ástvinum hennar mína dýpstu samúð. Hafðu þökk fyrir allt Bubba mín.
Alda Benediktsdóttir.