Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, átti í gær fund með Vigdísi Häsler Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, og stjórn samtakanna vegna ummæla sem Sigurður lét falla í garð Vigdísar á samkomu í tengslum við Búnaðarþing um síðustu helgi.
Að fundi loknum í gær birti Vigdís færslu á samfélagsmiðlum og segir þau Sigurð Inga hafa átt „hreinskilið, heiðarlegt og opið samtal“.
Segist Vigdís hafa meðtekið afsökunarbeiðni Sigurðar Inga og hún hafi upplifað hana sem einlæga. Málinu sé lokið af hennar hálfu.
Ummælin í garð Vigdísar lét Sigurður falla þegar taka átti mynd af starfsmönnum Búnaðarsamtakanna að lyfta henni í „planka“. Myndin hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum, sem og sambærileg mynd sem tekin var á samkomu með Miðflokknum.