Eftirspurn eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili er langt umfram framboð og biðlistar lengjast jafnt og þétt.
Tap einstaklinga á færni til athafna daglegs lífs (ADL) og heilsubrestur eru meginástæður þess að fólk er metið til varanlegrar búsetu á hjúkrunarheimili. Líkamleg hrörnun er ein orsaka þess að fólk tapar færni og nauðsynlegri heilsu til að búa á eigin heimili.
Rannsóknir sýna að hægt er að bregðast við og hægja á þróuninni og jafnvel snúa henni við með aðstoð fagaðila á endurhæfingarsviði sem gæti hægt á eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum.
Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á forystuhlutverk heilsugæslunnar sem leiðandi aðila í heilsueflingu og aðgerðaáætlun um lýðheilsu og forvarnir. Með virku samstarfi við heilsugæsluna væri unnt að hefja forvarnarstarf með því að beina þeim, sem farnir eru að missa færni og heilsu, í rétt úrræði sem tafið geta fyrir óhjákvæmilegum búferlaflutningi til hjúkrunarheimilis.
Í tölum Landlæknisembættisins frá því í maí 2021 kemur fram að á fimmta hundrað aldraðra, sem hafa gilt vottorð frá færni- og heilsumatsnefndum landsins þess efnis að þeir hafi ekki lengur næga færni til að búa sjálfstætt, bíða eftir því að fá pláss á hjúkrunarheimili. Þrátt fyrir góðan vilja og hægt fjölgandi hjúkrunarrými er þörfin miklu meiri en framboðið eins og meðfylgjandi graf frá Landlækni sýnir um þróunina frá 2011. Grafið sýnir meðalfjölda aldraðra á biðlista eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili á hverjum ársfjórðungi 2011 til 2020. Svarta línan sýnir meðalfjölda einstaklinga og sú ljósgráa meðalfjölda einstaklinga 67 ára eða eldri á hverja tíu þúsund íbúa.
Hrafnista og Sléttan sjúkraþjálfun ehf. bjóða aukna endurhæfingu
Sjómannadagsráð, Hrafnista og Sléttan sjúkraþjálfun ehf. hafa sent Sjúkratryggingum Íslands formlega umsókn um þjónustusamning til að veita markvissa endurhæfingu fyrir aldraða í lífsgæðakjarna Hrafnistu, Sjómannadagsráðs og Reykjavíkurborgar við Sléttuveg í Fossvogi. Takmarkið er að hefja starfsemi heilsumiðstöðvar sem stuðli að bættri heilsu einstaklinga með því að veita þeim markvissa þjálfun og leiðbeiningar og styðja þannig betur við getu þeirra og færni til að búa lengur á eigin heimili og draga um leið úr líkum á því að þeir þurfi á ótímabærri og varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili að halda.
Hröð fjölgun aldraðra
Miðað við mannfjöldaspá liggur fyrir að biðlistar eftir hjúkrunarvistun muni halda áfram að lengjast nema brugðist verði við með úrræðum sem sporna gegn ótímabærri hrörnun, sem talin er vera ein aðalorsök heilsumissis og nægilegrar færni til sjálfsbjargar við daglegar athafnir á eigin heimili. Af þeim sökum þarf á ákveðnum tímapunkti að óska eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili. Á línuritinu úr talnabrunni Landlæknisembættisins má sjá þessa slæmu þróun, þar sem fjöldi þeirra sem bíða eftir því að komast á hjúkrunarheimili hefur þrefaldast á innan við 10 árum, þ.e. úr 150 manns árið 2011 í að vera 457 árið 2020. Rannsóknir sýna að markviss þjálfun og faglegar leiðbeiningar geta hægt á hrörnun og dregið úr þessari neikvæðu þróun biðlistanna. Samkvæmt spá Hagstofu Íslands er búist við að árið 2043 verði yfir 20% landsmanna eldri en 65 ára og yfir 25% árið 2061, en þar af fjölgar hraðast í hópi þeirra sem ná meira en 80 ára aldri. Það skiptir því verulegu máli að geta brugðist við með úrræðum eins og þjónustu heilsumiðstöðvar og draga úr álagi á núverandi úrræði, bæði á hjúkrunarheimilum og ekki síst sjúkrahúsum, þar sem allnokkur fjöldi aldraðra býr þótt meðferð þar sé lokið.
Lífsgæðakjarninn við Sléttuveg getur aukið þjónustu sína
Umsækjendur um þjónustu heilsumiðstöðvarinnar telja að nýi lífsgæðakjarninn við Sléttuveg sé kjörinn staður til að veita ofangreinda þjónustu enda er öll aðstaða þar ný, vönduð og sérstaklega hönnuð til að sinna þjónustu við aldurshópinn. Við Sléttuveg er fyrir hendi nýtt og rúmgott húsnæði fyrir endurhæfingarþjónustu, þar sem mögulegt er að þjónusta enn fleiri einstaklinga með úrræðum eins og þeim sem fyrirhugaðri heilsumiðstöð er ætlað og sótt hefur verið um að verði að veruleika. Verði af þjónustunni verður ráðist í viðeigandi fjárfestingu í viðbótarbúnaði til endurhæfingar, þar sem lögð verður áhersla á sérhæfingu í greiningum, meðferð, fræðslu og þjálfun einstaklinga 67 ára og eldri. Einnig gætu félagsleg úrræði og fræðsla um heilsuvitund verið einn af hornsteinum verkefnisins. Þar mætti einnig innleiða staðlað mat á endurhæfingarþörfum, t.a.m. í samvinnu við heilsugæsluna, þar sem lögð yrði áhersla á færni í liðleika, hreyfanleika, stöðugleika, jafnvægi, samhæfingu og líkamsvitund. Þannig mætti fylgja verkefninu eftir á faglegan hátt og ná betur utan um lýðheilsu, rannsóknir, fræðslu og fleira eins og ítarlega er gerð grein fyrir í umsókninni til Sjúkratrygginga Íslands. Þörfin er brýn og álagið mikið á núverandi úrræði. Þjónustan væri því mikilvægt viðbótarúrræði fyrir aldraða sem létt gæti mjög viðvarandi álag á heilbrigðiskerfið.María er forstjóri Hrafnistu, Sigurður framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs og Pétur framkvæmdastjóri Atlas endurhæfingar ehf. og Sléttunnar sjúkraþjálfunar ehf.