Leikarinn Bruce Willis er hættur störfum eins og frægt er. Ástæðan er málstol ( afasía ), sem er missir eða skerðing á hæfni til að nota eða skilja tungumál vegna truflana eða skaða á málstöðvum í heila.
Elsta heimild um þetta sjúkdómseinkenni er frá dögum Hettíta, sem bjuggu þar sem nú er Tyrkland á öðru árþúsundi fyrir tímatal okkar. Hettítíska er elsta indóevrópska málið (17.-13. öld f. Kr.) og rituð með fleygrúnum sem voru ráðnar í upphafi 20. aldar af tékkneska austurlandafræðingnum Bedrich Hrozný.
Þegar Múrsílí 2. Hettítakonungur var eitt sinn á ferð í opinni stríðskerru skall á heiftarlegt þrumuveður. Í sömu andrá varð hann málstola – gat aðeins tjáð sig með erfiðismunum. Málröskunin ágerðist og á endanum ráðfærði hann sig við véfrétt. Spápresturinn vísaði úrlausnarefninu til stormguðsins ógurlega og tiltók með hvaða helgisiðum konungur gæti blíðkað hann. Helgisiðirnir fólu í sér að gera ákveðin dýr að blóraböggli og fórna þeim til að endurheimta heilsu konungsins. Naut, lamb og nokkrir fuglar voru ákærð fyrir að hafa saurgað heilög vé stormguðsins og brennd á báli.
Frásögnin af málröskun Múrsílís er lögð í munn konungi sjálfum sem lýsir helgisiðaferlinu allnákvæmlega. Strangasta skilyrðið var að kvöldið áður en fénaðinum var fórnað mátti konungur ekki samrekkja konu. Um morguninn átti hann að laugast og snerta fórnardýrin með annarri hendi en persónulegir munir hans voru teknir úr umferð, m.a. kerran góða sem hann ók þegar þrumuveðrið skall á. Þótt þess sé ekki getið í heimildum má ætla að meðferðin hafa haft tilætluð áhrif. Málstolið er a.m.k. ekki nefnt í annálum frá efri árum konungs.
Textinn sem greinir frá þessum atburðum er jafnan kallaður Málstol Múrsílís 2 . Að vísu er erfitt að sanna að konungur hafi þjáðst af málstoli í skilningi nútíma taugavísinda – en það er líklegt. Sjálfur segir hann: „Í munni mínum minnkaði röddin.“ Og bætir svo við: „Ég varð skakkmynntur.“ Þetta orðfæri virðist benda til málröskunar og jafnvel lömunar á talfærum. Sumir fræðimenn velta því fyrir sér að Múrsílí hafi fengið blóðþurrð í heila sem hafi orsakað tímabundna tjáskiptatruflun. Þessi tilgáta byggir á því að málröskun Múrsílís virðist ekki hafa verið varanleg. Aðrir ímynda sér að ómælið hafi stafað af streitu vegna stanslausra vígaferla sem Múrsílí átti í, en hann kann líka að hafa verið örvæntingarfullur sökum skæðrar drepsóttar sem geisaði í ríki hans. Loks gætu erfiðleikar í einkalífi konungs, m.a. sorglegt andlát drottningar hans, Gassúlawíu, hafa valdið áfallinu. Við munum aldrei fá úr því skorið með vissu. Hitt er ljóst að frásögnin af málstoli Múrsílís frá því um 1300 f. Kr. er elsta heimild sem til er um slíka röskun og er ekki síst merkileg fyrir þá sök að sjúklingurinn skýrir þar sjálfur frá raunum sínum á skilmerkilegan hátt.
Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is