Til stendur að gera landfyllingar við Leiruveg á Akureyri. Tilgangurinn er að koma fyrir aðflugsljósum fyrir Akureyrarflugvöll til að uppfylla kröfur um bætt aðflugsskilyrði og flugöryggi.
Vegna þessa hefur Akureyrarbær auglýst breytingu á deiliskipulagi að beiðni Isavia, sem rekur flugvöllinn.
Skipulagssvæðið afmarkast af Leiruvegi til suðurs og Drottningarbraut til vesturs. Tillagan gerir ráð fyrir að austast á skipulagssvæðinu verði bætt við landfyllingu út í sjó til suðurs og norðurs frá Leiruvegi. Landfyllingin mun ná tæplega 200 metra í norður frá Leiruvegi og verður um 0,5 hektarar að flatarmáli. Fyllingin verður afgirt og ekki ætluð almenningi. Aðflugsljós verða sett upp í átta ljósasamstæðum með 30 metra millibili. Þau verða 4,8 metra yfir miðlínu Leiruvegar þar sem þau verða hæst en lækka fjær veginum. Ljósin verða einungis kveikt meðan á aðflugi stendur og blikka ekki, heldur lýsa stöðugt.
Fram kemur í auglýsingunni að með uppsetningu búnaðarins aukist einnig öryggi í samgöngum við landið í aðstæðum eins og voru í Eyjafjallagosinu 2010. Þá gegndi Akureyrarflugvöllur mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Tillöguna er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar og er athugasemdafrestur til 10. apríl. sisi@mbl.is