Alda Eygló Kristjánsdóttir fæddist á Þórshöfn á Langanesi 4. júní 1937. Hún lést á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra Dalvík, 31. mars 2022.
Foreldrar hennar voru Kristján Ottó Þorsteinsson, f. 19.1. 1906 á Brekkum, d. 5.6. 1989, og Margrét Halldórsdóttir, f. 30.1. 1911 á Þórshöfn, d. 20.12. 1988. Alda átti þrjár systur: Jóhönnu, f. 5.9. 1940, d. 14.10. 2007, Halldóru Kristrúnu Briem, f. 16.1. 1948, d. 2.10. 1987, Hrönn, f. 20.4. 1950.
Alda kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Sigurði Jónssyni slökkvistjóra, f. 15.9. 1941, frá Dalvík, í herstöð Atlantshafsbandalagsins á Heiðarfjalli á Langanesi árið 1956. Þau giftu sig í Dalvíkurkirkju 30. des. 1961.
Börn þeirra eru: 1) Jón, f. 25.3. 1960, d. 21.9. 1976. 2) Hólmfríður Margrét, f. 6.6. 1962, dóttir hennar er Magdalena Ýr, f. 1984, maki Davíð Örn Eggertsson, f. 1983. Börn þeirra eru: Viktor Máni, f. 2002, Rebekka Ýr, f. 2005, Hólmfríður Bára, f. 2011, Jón Bolli, f. 2018. 3) Jóna Sigurðardóttir, f. 14.11. 1978, maki Jóhann Jónsson, f. 1974, börn þeirra eru: Lovísa Lea, f. 2004, Ívan Logi, f. 2008, Sigurður Nói, f. 2010, Ýmir Áki, f. 2015.
Alda ólst upp í foreldrahúsum á Þórshöfn með systrum sínum. Að loknu gagnfræðaskólanámi fór Alda til Ísafjarðar, þaðan sem hún útskrifaðist frá Húsmæðraskólanum Ósk vorið 1956. Hún hóf störf í eldhúsi herstöðvarinnar á Heiðarfjalli þá um sumarið, en flutti svo til Dalvíkur árið 1958. Þar byggðu þau hjónin sér fallegt hús á Ásvegi 8, sem var þeirra heimili til hennar síðasta dags.
Á Dalvík starfaði Alda fyrst um sinn í Frystihúsi KEA, en réð sig svo til starfa á Saumastofunni Ýli. Einnig vann hún í Shellskálanum og í prjónaverksmiðjunni á Dalvík um hríð. Árið 1986 opnuðu þau Myndabandaleiguna Ásvídeó, sem varð afar vinsæl hjá sveitungum þeirra, og ráku þau hana allt til ársins 2009. Samhliða þeim rekstri settu þau hjónin á laggirnar fyrstu tjaldvagna/hjólhýsaleigu landsins, einnig undir merkjum Ásvídeós, og er hún enn starfrækt í dag.
Útför Öldu fer fram í dag, 9. apríl 2022, frá Dalvíkurkirkju klukkan 13.30.
Elsku mamma. Þakklæti er mér efst í huga á þessari kveðjustund. Þakklát fyrir alla þá hlýju sem þú sýndir mér og öðrum, og fyrir þá hvatningu sem þú veittir mér þegar ég þurfti. Mér er svo minnisstætt eitt augnablik á kaffistofunni í Ásvídeó seint á sumarkvöldi, þegar ég sagði við ykkur pabba að ég vildi fara í skóla til Reykjavíkur. Pabba fannst það nú kannski ekki alltof sniðug hugmynd. Hægt væri að fjárfesta í íbúð og koma sér fyrir, enda var það það sem hann gerði sjálfur svo vel. Þú hafðir önnur ráð og þau voru að ég skyldi gera það sem ég vildi og hæfileikar mínir væru ótakmarkaðir, ég gæti allt sem ég ætlaði mér. Svona mömmuráð eru ómetanleg. Heimilið ykkar pabba var alltaf opið fyrir vinum mínum og ég fann hversu velkomnir allir voru. Það sem ég var búin að sitja yfir ykkur Mæju og Jónu Stínu í kaffi og sígó við eldhúsborðið, og hlusta á alls konar sögur, og mörg voru þau ráðin sem ég heyrði. Skrítið með þessar konur þó í sveitinni... þær virtust alltaf vera svolítið villtar.
Elsku mamma mín, af þér lærði ég mikla gjafmildi og væntumþykju sem engin bók getur kennt. Hvernig þú tókst á móti Briem-systkinunum var líka lærdómur og mikil gjöf. Þú varst þessi amma sem settist á teppið með börnunum okkar Jóa og gafst þig endalaust að þeim. Takk mamma mín fyrir allt sem þú hefur gefið mér og mínum. Góðvild þín verður mitt leiðarljós sem móðir sjálf, og fyrir það er ég afar þakklát.
Hvíldu í friði mamma mín.
Þín
Jóna (Jonna).
Alda var handavinnukona mikil og bera mörg glæsileg verk hennar þess glöggt merki. Hún hafði mikið dálæti á allskyns útiveru, og voru göngutúrar og berjatínsla í miklu uppáhaldi hjá henni, þó heimakær væri. Svo ekki sé talað um hinn margrómaða kvöldrúnt með Sigga sínum eftir lokun í Ásvídeói á kvöldin.
Á heimili Öldu og Sigga var ávallt mjög gestkvæmt og hlýtt viðmót þeirra margrómað. Starfsemi Myndbandaleigunnar var til fjölda ára í bílskúrnum á Ásvegi 8, og varð hún nokkurskonar félagsmiðstöð unga fólksins á þeim tíma, þar sem allir voru velkomnir. Samkennd Öldu átti þar stóran þátt í velgengni Ásvídeós, enda hafði hún mikla ánægju af því að gleðja þá sem minna máttu sín með fríum spólum og jafnvel snakkpoka með.
Alda var mikil fjölskyldukona og þótti afar vænt um sína nánustu, enda Ásvegurinn kærleiksríkt heimili, sem hún sinnti af einstakri alúð og myndarskap. Hún reyndist börnum okkar Jonnu einstaklega vel. Hún var þessi amma sem gaf sér strax að þeim frá fyrsta degi, leit ekki af þeim sama hvað á bjátaði, og lék við þau af mikilli ást við hvert tækifæri. Hún var sannarlega í uppáhaldi hjá þeim, enda besta amma sem þau gátu hugsað sér.
Veröld okkar verður snúin
Vindar blása hér og þar
Eins og auður annar rúinn
allra bíður eilífðar.
Verndi þitt heilaga himneska ljós
Helgi þess aldrei við týnum
Veittu þeim gæfu, visku og hrós
Vaki yfir börnunum mínum.
(Þorsteinn Már Aðalsteinsson)
Jóhann, Ívan Logi,
Sigurður (Siggi) Nói,
Ýmir Áki.
Núna kveð ég þig, elsku amma, en ég mun hitta þig aftur síðar.
Þín ömmustelpa,
Lovísa Lea.