Ásta Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 3. febrúar 1944. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Hvammstanga 22. mars 2022 eftir langvarandi veikindi.

Foreldrar Ástu voru Gunnar Símonarson loftskeytamaður, f. 1923, d. 1953 og Elín Runólfsdóttir, húsmóðir og matráðskona, f. 1926, d. 1997. Systkini Ástu eru: Gunnar, fv. fasteignasali, f. 1945, maki Valgerður Jónsdóttir ritari, f. 1944, d. 1995; Björk, fv. fulltrúi, f. 1948, maki Hrafn Björnsson húsasmiður, f. 1945, og Rúnar arkitekt, f. 1950, maki Helga Jensdóttir kennari, f. 1950.

Eiginmaður Ástu var Magnús Guðmundsson kjötiðnaðarmaður, f. 1934, en þau skildu. Börn þeirra og barnabörn eru: 1) Elín Bára íslenskufræðingur, f. 1962, maki Þorsteinn G. Indriðason prófessor, f. 1959. Börn þeirra: Lára Margrét sálfræðingur, f. 1995 og Indriði Guðmundur rafvirki, f. 2000.

2) Guðrún Lára leikskólastjóri, f. 1964. Fyrri maki: Kristján Einar Þorvarðarson sóknarprestur, f. 1957, d. 1999. Seinni maki: Guðni Þór Ólafsson sóknarprestur, f. 1952. Sonur Guðrúnar og barnabörn: Tómas Arnarson, framkvæmdastjóri, f. 1981, maki Pornphan Wongchan. Dætur þeirra: Guðrún Lára, f. 2019 og óskírð, f. 2021. Börn og barnabörn Guðrúnar og Kristjáns Einars: Þorvarður framkvæmdastjóri, f. 1989, maki Unnur Margrét Ingólfsdóttir. Dóttir Unnar er Aldís Inga Hrannarsdóttir, f. 2006, en börn hennar og Þorvarðar eru: Kristján Einar, f. 2012 og Edda Lára, f. 2017; Kristrún hjúkrunarfræðingur, f. 1991, sambýlismaður Patrekur Patreksson, þau skildu. Synir þeirra: Tómas Eldur, f. 2017 og Kristján Eldur, f. 2020; Ástrós háskólanemi, f. 1993, sambýlismaður Arnar Freyr Geirsson.

3) Guðmundur framkvæmdastjóri, f. 1966, maki Lisbeth Thompson, f. 1961. Börn þeirra og barnabörn: Una Dögg verkefnastjóri, f. 1986. Fyrri maki: Ómar Helenuson. Dætur þeirra: Alexandra Líf, f. 2007 og Andrea Líf, f. 2011. Sambýlismaður Unu, Árni Þór Ragnarsson. Sonur þeirra: Þór, f. 2021; Magnús Ingi framkvæmdastjóri, f. 1992, sambýliskona Ingunn Fanney Hauksdóttir. Sonur Magnúsar: Guðmundur Reynir, f. 2009. Dóttir Magnúsar og Ingunnar: Emilía Dögg, f. 2019; Unnur María ferðamálafræðingur, f. 1996, sambýlismaður Andri Hrafn Ármannsson.

4) Ásta Margrét, starfar við ferðaþjónustu, f. 1974, maki Ralph P. Byrne verktaki, f. 1963, þau skildu. Sonur þeirra: Noah framhaldsskólanemi, f. 2001.

Ásta tók gagnfræðapróf frá Laugarnesskóla og stundaði einnig nám við Hanna skolen, gagnfræðaskóla í Danmörku. Síðar lærði hún snyrtifræði og vann við það fag á tímabili. Ásta starfaði fyrst sem heimavinnandi húsmóðir en eftir það vann hún við verslunarstörf, lengst af í Kosta Boda-búðinni. Eftir það starfaði hún við skrifstofustörf, fyrst á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og síðar hjá kjötvinnslu Goða.

Ásta bjó lengi í Árbæjarhverfi og var mjög virk í félagsmálum þar. Hún starfaði lengi fyrir kvenfélag Árbæjarkirkju og framfarafélagið í hverfinu og einnig hverfafélag sjálfstæðismanna í Árbæjarhverfi en hún var m.a. formaður þess á tímabili.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Það er margt hægt að segja um hana mömmu og mikil ósköp er erfitt að kveðja mömmu sína og sjá á eftir henni. Í mínum huga var hún stórbrotin kona. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við höfum gengið saman. Án hennar væri ég ekki hér, hún fæddi mig í þennan heim. Hún var eins og íslensk veðrátta. Að eðlisfari var hún glaðvær og hláturmild umhyggjusöm og mátti ekkert aumt sjá. Hún var ákveðin og sagði hlutina hreint út og það var ekki verið að setja hlutina í neinn silkipappír. Hún var skemmtileg, stuðpinni og hafði gaman af að koma fólkinu sínu saman. Hún átti sína erfiðu tíma og var þá kvíðin og óörugg. Við vorum ekki alltaf sammála, þannig er lífið, en við fundum alltaf lendingu. Hún var stórhuga kona og fór það sem hún ætlaði sér. Gjafmild var hún og vildi ávallt gera vel við sína. Hún reyndist mér vel allt mitt líf og var til staðar þegar eitthvað var að gerast. Hún var hjá mér þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn og hennar fyrsta barnabarn, hún handleiddi hún mig í gegnum þann tíma og ég fann ég til mikils öryggis með hana mér við hlið. Hvatti mig til náms og ég fann að það var henni mikils virði að ég fór að hennar ráði. Stóð eins og klettur mér við hlið í veikindum Kristjáns Einars og hlúði vel að börnum á þeim tíma. Hún átti alltaf í einstöku sambandi við minn barnahóp og var þeim góð amma, góður vinur, hún var alltaf svolítill unglingur í sér og hún átti trúnað þeirra. Hún hafði ótrúlegan lífsvilja og bjó yfir mikilli þrautseigju þrátt fyrir mikil veikindi. Hún kom norður til okkar og dvaldi á Heilbrigðisstofnun Hvammstanga eða hjúkrunarheimili síðustu sjö mánuði, hún vildi aldrei tala um að hún væri á slíku heimili, sagði bara að það þarf ekki að tala um það. Það var gott að fá að fylgja henni eftir síðustu mánuði lífs hennar og hún var hæst ánægð að barnabarnið hún Kristrún hjúkraði henni þennan tíma, hún elskaði það. Það sem einkenndi hana mömmu var að hún var glæsileg kona smart í sér og gerði alla hluti vel hún var fagurkeri og sannkölluð listakona. Ég hélt í hennar hendi þegar hún kvaddi og ég kveð og þakka fyrir samfylgdina og bið góðan Guð að vaka yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni, eða eins og mamma sagði Guð gefi þér góða nótt. Þín dóttir

Guðrún Lára Magnúsdóttir.

...

Engu þarf að kvíða.

Nú kular úr opnum skörðum

og lækurinn hljóðnar í lautunum mér að baki.

Engu þarf að kvíða, klárinn fetar sinn veg, stefnir

inn í nóttina með stjörnu í enni.

(Hannes Pétursson)

Það er margs að minnast við þessi tímamót nú þegar elskuleg tengdamóðir mín Ásta Gunnarsdóttir hefur kvatt þessa tilveru. Ég minnist þess þegar Lára Margrét kom í heiminn og Ásta mætti upp á fæðingarstofu korteri eftir fæðingu, sveiflaði sér inn um dyrnar og spurði eftir nýju barnabarni. Og svo tók hún bara yfir stjórnina á stofunni sem var ágætt. Þegar heim var komið með frumburðinn í Garðastræti hafði Ásta tekið þannig til í íbúðinni að maður gat speglað sig í gólfum sem hafði ekki verið hægt hingað til og íbúðin var sem ný þó gömul væri.

Þannig var Ásta, þrældugleg til allra verka meðan heilsan leyfði og fús til þess að rétta sínum nánustu hjálparhönd beðin og óumbeðin. Oft kom það fyrir að maður var í basli með einhverja hluti, hvort sem það var bíllinn eða eitthvað í íbúðinni og kjörin kröpp til viðgerða og viðhalds. Um leið og Ásta heyrði af slíkum hlutum var hún óðar komin í símann að tala við fólk sem maður þekkti ekkert til og sem gat þá leyst úr þessum málum en það sýndi hversu vel tengd hún var inn í þjóðfélagið á tímabili.

Ásta var líka einstök í kringum börnin okkar og hún var alltaf til í að hafa þau hjá sér. Mér fannst oft sem henni liði betur meðal barna en fullorðinna; börnin skildu hana og dáðu og hún náði sambandi við þau á einhvern sérstakan og fallegan hátt. Í ófáum heimsóknum frá Noregi var alltaf erfiðust stundin fyrir börnin að skilja við ömmu Ástu. Þessum sérstöku tengslum hélt hún allt til loka þó fjarlægðir væru á milli.

Ásta var fædd lýðveldisárið 1944 og því kom það ef til vill af sjálfu sér að hún væri sjálfstæðismanneskja. Hún var í Sjálfstæðisflokknum og starfaði í hverfafélagi flokksins í Árbænum um árabil. Við áttum ágætlega skap saman þótt við ættum ekki pólitíska samleið. Hún lét mig aldrei finna að hún væri óánægð með mína afstöðu en í raun féll sú afstaða hennar líka vel að túlkun hennar á því að vera sjálfstæðismanneskja. Sú túlkun náði langt út yfir flokkinn og allt það þref sem því fylgir. Hennar túlkun var miklu fremur sú að menn ættu að vera sjálfstæðir í skoðunum og láta ekki deigan síga hvað sem á dyndi.

Hin seinni ár bilaði heilsan meir og meir með tíðum sjúkrahúsheimsóknum. Ásta vildi vera heima hjá sér þó hún hefði ekki alltaf heilsu til þess og fékk því ef til vill ekki notið þess besta sem íslenskt heilbrigðiskerfi býður upp á. Á endanum varð úr að hún fluttist á sjúkrahúsið á Hvammstanga og var þar nálægt Guðrúnu Láru og fjölskyldu hennar. Þar lifði hún sína hinstu daga við góða umönnun.

Á þessari stundu vil ég minnast tengdamóður minnar með mikilli hlýju og þakklæti um leið og ég votta aðstandendum samúð mína. Enginn var betri en Ásta á sínum bestu dögum og þannig vil ég muna hana, í miðjum klíðum að hjálpa sínum nánustu þegar eitthvað bjátaði á.

Þorsteinn G. Indriðason.

Elsku amma mín!

Þú sem varst alltaf fyrst til að bjóða fram hjálp þína sama hvernig á stóð. Þú sem máttir aldrei neitt aumt sjá.

Faðmur þinn var ávallt opinn fyrir alla og þá sérstaklega okkur barnabörnin. Öll þau hundruð skipta sem við fengum öll að gista hjá þér og alltaf var pláss fyrir alla.

Spóla af vídeóleigunni, ostapopp og saltstangir með ídýfu var fastur liður.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar þrátt fyrir að hafa þurft að synda á móti straumnum nánast alla þína tíð. Þú hafðir þína djöfla að draga en lífsviljinn og eljan var með ólíkindum.

Það að sitja hjá þér þegar þú tókst síðasta andardráttinn er stund sem ég mun aldrei gleyma.

Takk amma mín fyrir að kenna mér svo margt um lífið og takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Hvíldu í friði með þeim sem þú hefur saknað heitt og beðið svo lengi eftir að hitta á ný.

Þinn vinur,

Þorvarður.

Elsku amma Ásta. Þú varst engin venjuleg amma, þú varst frekar eins og besta vinkona okkar og komst fram við okkur eins og jafningja.

Minningarnar úr æsku eru margar frá Hraunbæ 52 þar sem við systur og frænkur vörðum löngum stundum. Við sömdum dansa, klæddum okkur upp í gömul föt, sýndum leikrit, sungum og sömdum lög og þú varst yfirleitt eini áhorfandinn sem klappaðir okkur upp mörgum sinnum og okkur leið eins og við værum Hollywood-stjörnur. Einnig fórum í búbblubað, þrifum stigaganginn og leigðum spólur. Ávallt voru saltstangir og vogaídýfa á kantinum. Yfirleitt fengum við nákvæmlega þann mat sem við vildum og uppistaðan voru frosnar pizzur með kokteilsósu og kjúklingaleggir í BBQ með hrísgrjónum og kók. Þetta þótti okkur æðislegur matur og ég tala nú ekki um Cocoa Puffs, allt nammið og Sun Lolly. Amma elskaði ömmubörnin og langömmubörnin sín heitt og vildi vera með þeim öllum stundum og allt fyrir þau gera, enda vorum við oft tilbúnar á föstudögum og ætluðum okkur að fara til hennar.

Amma átti ekki auðvelt uppdráttar og hafði það áhrif á hana allt hennar líf. Þetta gerði það að verkum að hún gat verið erfið við okkur sérstaklega eftir að við vorum komnar á fullorðinsár. Það voru ekki allir sem skildu ömmu, eða vissu hennar sögu, en við fundum djúpa tengingu við hana sem er erfitt að lýsa með orðum. Kannski hluti af henni hafi verið föðurmissir okkar allra sem skapaði þessa miklu tengingu. En á fullorðinsárunum fórum við stundum einar eða saman til ömmu og ætluðum bara að kíkja í kaffi til hennar sem varði langt fram á kvöld. Það var alltaf svo gott að vera með ömmu. Amma var líka okkar mesti og besti stuðningsmaður, hvort sem maður var á slæmum stað í lífinu eða að standa sig vel þá var hún alltaf svo stolt af okkur. Sama hversu gömul amma varð þá var hún alltaf jafn ung í anda, hún sætti sig ekki við að vera orðin gömul og fannst ekki passa að taka þátt í starfinu sem var í boði fyrir ellilífeyrisþegana. Hún vildi bara vera með okkur, unga fólkinu og hafa gaman enda mesti stuðboltinn.

Eftir nokkurra ára heilsuleysi hjá ömmu fékkst hún til að fara inn á sjúkrahúsið á Hvammstanga þar sem ég, Kristrún, var nýfarin að vinna sem hjúkrunarfræðingur. Það var jú aðalástæðan fyrir því að hún fékkst til að leggjast þar inn. Enda hafði draumur hennar alltaf verið að eitthvert barnabarnið yrði læknir eða hjúkrunarfræðingur og myndi sinna henni í ellinni. Þarna leið henni vel og samskipti hennar við fjölskyldu urðu betri, hún var loksins í öruggum höndum. Hún fékk að kynnast barnabarnabörnum sínum Tómasi Eldi og Kristjáni Eldi sem henni þótti dásamlegt. Það var núna fyrir stuttu þegar Tómas (4 ára) sat inni hjá henni og spjallaði um heima og geima, að hann biður móður sína vinsamlegast að fara fram svo þau gætu átt sína stund. Svona var hún amma, hún lét manni líða eins og maður væri einstakur og allt sem maður sagði skipti höfuðmáli.

Takk amma fyrir allt, við elskum þig og söknum þín.

Þínar uppáhalds,

Kristrún og Ástrós Kristjánsdætur.

Amma mín, hún Ásta Gunnarsdóttir, var einstök kona.

Þegar ég loka augunum og hugsa til ömmu kemur fyrst upp í hugann ást hennar á litnum appelsínugulum, eða „orange“ eins og hún kallaði hann. Kossarnir hennar, sem voru aldrei styttri en 15 sekúndur, einlæg faðmlög sem létu allar áhyggjur hverfa og óstöðvandi astmahlátursköstin sem komu öllum í gott skap.

Hjá ömmu var maður alltaf velkominn og ég elskaði að fara til hennar og gista í Hraunbænum á mínum æskuárum. Við frænkurnar fengum að koma saman og vera prinsessur heilu helgarnar. Hún setti rúllur í hárið á okkur, leyfði okkur að leika með kjólana og hælana sína og horfði svo á okkur fara með óteljandi söng- og dansatriði. Kvöldin enduðu svo oftast á því að við fórum allar saman upp í rúm hjá ömmu þar sem við spjölluðum og hlustuðum á útvarpið þar sem kvöldgestir Jónasar Jónassonar urðu oftast fyrir valinu.

Amma var alltaf minn dyggasti stuðningsmaður og það var alveg sama hversu ómerkilegar fréttir maður sagði henni af sér þá fannst henni maður vera algjört ofurmenni og hrósaði manni í hástert. Amma var traust og maður þurfti aldrei að skammast sín þegar maður klúðraði hlutunum. Hún lét mann alltaf finna að þetta yrði allt í góðu og það væri í lagi að gera mistök.

Um síðustu jól fékk ég að sýna ömmu sónarmynd af ófæddu stelpunni minni. Hún var svo ánægð með myndina af henni og krafðist þess að fá að halda henni til að sýna öllum sem kæmu í heimsókn að hún væri sko að verða amma aftur. Ég veit að amma mun vaka yfir litlu stelpunni minni og passa hana.

Minningarnar eru ómetanlegar og mun ég varðveita þær að eilífu.

Ég sakna þín og veit að þú ert komin á betri stað. Ég verð alltaf þakklát fyrir það að amma mín var amma Ásta.

Unnur María

Guðmundsdóttir.

Þegar ég var barn eyddi ég sumarfríunum á Íslandi. Ég man eftir því að hafa pakkað niður í ferðatösku minnst viku fyrir ferðalagið og að hafa hringt í ömmu mörgum sinnum til þess að fullvissa mig um að ég gæti farið beint til hennar og fengið að gista. Ég man líka eftir tilhlökkuninni og óþreyjunni á flugvellinum á leið til Íslands.

Amma gat svo auðveldlega sett sig í inn í hugarheim okkar barnanna. Hún var forvitin og tók ríkan þátt í því sem við vorum að gera hverju sinni. Hún vissi nákvæmlega á hverju við hefðum áhuga og sá til þess að þegar við gistum hjá henni fengjum við að upplifa allt það sem okkur þótti best í þessum heimi. Og áhugi ömmu á því sem maður var að gera og upplifa hverju sinni minnkaði ekkert þótt maður yrði eldri. Það kom nefnilega í ljós að amma hafði líka verið unglingur eitt sinn svo hún skildi þetta allt saman. Ætti maður í erfiðleikum þá var amma betri en enginn og það var gott að leita skjóls hjá henni.

Við gátum talað um allt milli himins og jarðar, þar á meðal um uppáhaldslitina okkar og það fór ekkert á milli mála að applelsínugulur var hennar litur, það sást á öllu í kringum hana. Í þau fjölmörgu skipti sem ég hef verið í heimsókn á Íslandi höfum við barnabörnin spilað á spil við eldhúsborðið hjá ömmu. Hún var alltaf fjörug og skemmtileg og ég held það séu ekki margir sem geta talað við ömmu sína eins og jafnaldra sinn. Og seturnar við eldhúsborðið voru alltaf líflegar og mikið hlegið.

Við amma höfum kannski oftast talast við í síma gegnum árin. Hún gaf sér alltaf góðan tíma til að spjalla og var ekkert á því að ljúka samtalinu. Það var gott til þess að vita að það var alltaf hægt að hringja í hana. Hún vildi vita allt um líf mitt, það sem ég hafði upplifað og fólkið sem ég þekkti.

Elsku amma, þú hefur alltaf verið stór partur af mér. Öll samtölin og sá stuðningur sem þú veittir mér var mér gríðarlega mikilvægur. Þegar ég var lítil má segja að þú hafir verið „lögfræðingurinn“ í dómsmálinu: Það getur ekkert komið í veg fyrir að við getum skemmt okkur saman. Þú varst alltaf minn helsti stuðningsmaður og ég mun halda áfram að hugsa og tala til þín þegar mér finnst ég þurfa á þér að halda. Ég sé þig álengdar í sólsetrinu, umvafin þínum lit.

Lára Margrét

Þorsteinsdóttir.