Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Embættismenn úr forsætisráðuneytinu hafa verið að funda með fulltrúum ýmissa stofnana ríkisins, Skaftárhrepps og annarra hagsmunaaðila um fyrirkomulag vatnaveitinga út í Eldhraun og vatnsstöðu í Grenlæk. Verið er að fara yfir mögulegar aðgerðir á svæðinu og meta fýsileika þeirra, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.
Deilur hafa lengi verið um veitingu vatns úr Skaftá út í Eldhraun þar sem það rennur að lokum í Grenlæk og fleiri vatnsföll í Skaftárhreppi. Þessum vatnaveitingum er stýrt.
Lækurinn þornað upp
Grenlækur er ein af þekktustu sjóbirtingsám landsins. Vegna þess að ekki er veitt nógu miklu vatni um hraunið hefur hann þornað nokkrum sinnum upp á undanförnum árum, meðal annars 2008, 2016 og loks í júní á síðasta ári. Sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun sagði eftir athugun á Grenlæk í fyrra að vatnsleysið væri umhverfisslys. Voru efstu 11 kílómetrar lækjarins nánast þurrir, vatn sat aðeins eftir í pollum sem ekki flæddi á milli. Á þurra svæðinu eru einmitt ein helstu hrygningar- og uppeldissvæði sjóbirtings sem einkennir lindarlækinn og töldu sérfræðingar Hafró að stofninn hefði orðið illa úti.Taldi Hafrannsóknastofnun að finna þyrfti leiðir sem til frambúðar tryggðu háa grunnvatnsstöðu í hrauninu svo vatnsrennsli til lindarvatna verði nægt til að viðhalda vatnsrennsli og því ríkulega lífríki og fiskgengd sem þar er að finna.
Forsætisráðuneytið kemur að málinu sem samræmingaraðili, samkvæmt upplýsingum þaðan, vegna þess að málið snertir málefni fleiri en eins ráðuneytis. Það hefur verið í vinnslu þar síðan fyrir áramót. Auk Hafrannsóknastofnunar eru það Landgræðslan, Vegagerðin og fleiri stofnanir sem láta málið til sín taka.
Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri segir að verið sé að leita leiða sem allar þær stofnanir sem koma að málinu geta sætt sig við. Kallað hafi verið eftir tillögum frá öllum. Ekki sé komin niðurstaða. Segir hún að beðið sé tillagna forsætisráðuneytisins.