Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Reykjavíkurborg mun, í samstarfi við Faxaflóahafnir, útvega íslenska ríkinu um 30 þúsund fermetra lóð fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila, Löggarða, milli Kleppssvæðisins og verslunarmiðstöðvarinnar Holtagarða. Í staðinn fær borgin lóð, áþekka að stærð, við Borgarspítalann í Fossvogi.
Borgarráð samþykkti á fimmtudaginn heimild til að kalla eftir úthlutun frá Faxaflóahöfnum, á fyrrnefndri lóð. Þá samþykkti borgarráð að gerður yrði makaskiptasamningur við ríkissjóð Íslands, þar sem Reykjavíkurborg framselur lóðarleiguréttindi að framangreindri lóð en fær í staðinn um 30 þúsund fermetra lóð við Borgarspítalann. Á lóðinni í Fossvogi hyggst Reykjavíkurborg þróa aukna íbúðabyggð og þegar þeirri vinnu lýkur verður hægt að bjóða til sölu byggingarrétt á lóðum á svæðinu.
Lóðargjald 654 milljónir króna
Lóðargjald, miðað við að nýtingarhlutfall á lóðinni sé 0,5, er 390 milljónir króna, sem Reykjavíkurborg greiðir Faxaflóahöfnum við úthlutun. Fyrir umfram-byggingarmagn greiðist viðbótarlóðargjald sem nemur gatnagerðargjaldi. Miðað við fjárhæð gatnagerðargjalds nú og að húsnæðið undir almannaþjónustuna verði 26 þúsund fermetrar myndi viðbótarlóðargjald nema um 264 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar. Samanlagt yrði fjárhæð lóðargjalds þá um 654 milljónir. Umframfjárhæðin kemur til greiðslu við útgáfu byggingarleyfis.Reykjavíkurborg mun annast endurskoðun á gildandi deiliskipulagi lóðar björgunarmiðstöðvarinnar og eftir atvikum aðalskipulagi borgarinnar, í samvinnu við ríkið.
Við gerð deiliskipulags skal meðal annars skilgreina byggingarheimildir og umferðartengingar með hliðsjón af fyrirhugaðri starfsemi. „Verði þörf á viðbótarlandi eða athafnasvæði til að tryggja forgangsakstur eða umferðarflæði mun Reykjavíkurborg taka jákvætt í slíkar umleitanir verði sýnt fram á mikilvægi þess,“ segir í tilkynningu borgarinnar.
Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsti árið 2020 eftir upplýsingum um 30 þúsund fermetra lóð eða húsnæði í Reykjavík fyrir sameiginlega aðstöðu löggæslu- og viðbragðsaðila landsins. Þetta eru: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, tollgæslan (Skatturinn), Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Neyðarlínan.
Flestar þessar stofnanir eru nú að hluta til með aðsetur í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, en ekki á einu gólfi. Viðbragðsaðilar eru í dag með húsnæði víða á höfuðborgarsvæðinu, samtals 36.300 fermetra, og 1.273 starfsmenn. Hin nýja miðstöð fyrir allt Ísland fékk skammstöfunina HVH, húsnæði viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu.
Sú krafa var gerð að lögregla komist á innan við átta mínútum frá HVH að Alþingisreit, miðbæ og Stjórnarráði, og ljóst er að þessi lóð við Klepp uppfyllir þau skilyrði.