Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Orð um tóskap höfum hér.
Hetjudáð, sem lofa ber.
Það í mínu úri er.
Ávallt það oss vanda ber.
Guðrún B. á þessa lausn:
Tóverk handverk heitir
og hetjudáð afreksverk.
Gangverk framtíð fleytir.
Fremst nosturverkin sterk.
„Þá er það lausnin,“ segir Helgi R. Einarsson:
Tóverk konur kunnu hér.
Kraftaverkin lofa ber.
Úrverkið ei hefur hátt.
Hausverkur menn leikur grátt.
Harpa á Hjarðarfelli leysir gátuna svona:
Áður tóverk unnið var.
Afreksverkið lofa ber.
Úrsins gangverk gengur þar.
Gott ef verkið vandað er.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Orðið tóverk höfum hér.
Hreystiverkið lofum vér.
Í klukku minni úrverk er.
Afbragðs verki skila ber.
Þá er limra:
Það var fyrir langa löngu
að loknu dagsverki ströngu
um kvöld nokkurt, að
hann Kobbi fékk það
hjá Möngu með réttu' eða röngu.
Síðan er ný gáta eftir Guðmund:
Árla dags úr rekkju rís,
rækja skylduverkin kýs,
ekki gengur allt í vil,
áðan varð þó gáta til:
Krakka angi kátur er.
Kjöt hann geymir tólg og smér.
Fullur af lofti fleytir þér.
Fingraloppnum yljar mér.
Lausn Helga fylgdu þessar limrur:
„Veröld fláa sýnir sig“
Sá litli fram úr sér fór
með fjandanum drýgir nú hór,
börnin hann myrðir
um mennskuna' ei hirðir,
misskilur orðið stór.
Víða hann eykur vandann
veikir trúna á andann,
allt hans bras
og argaþras
eflaust kætir fjandann.
Gömul vísa að lokum:
„Veltast í honum veðrin stinn“
veiga mælti skorðan,
„kominn er þefur í koppinn minn
kemur hann senn á norðan.“
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is