Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Ástin lætur tímann líða – og tíminn lætur ástina líða,“ segir Erró íhugull eftir að hafa gengið um sali Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og séð hvar verk frá öllum hans langa ferli eru komin þar upp á veggi í tilkomumikilli yfirlitssýningu sem fyllir alla sali safnsins og verður opnuð kl. 14 í dag.
„Ég held mikið upp á málshætti,“ bætir Erró við. „Ég held það væri gott að veita árlega verðlaun fyrir besta nýja málsháttinn. Það er svo mikið af vélum og allskyns nýju dóti sem tengjast engum málsháttum.“
Hann segist eiga bók um íslenska málshætti og einn af þeim sem eru honum að skapi er hálfnað er verk þá hafið er . „Hann ýtir við manni, til að halda áfram,“ segir hann hugsi.
Erró hefur alla ævi þótt vera með atorkusömustu og einbeittustu listamönnum, eins og ævintýraleg verkin á viðamikilli sýningunni leiða bersýnilega í ljós – eflaust hefur ekki þurft að ýta mikið við honum um dagana. Erró verður níræður síðar á árinu, 19. júlí, og afrakstur ævistarfsins er heldur betur áhrifaríkur og mikill að vöxtum eins og þessi viðamikla yfirlitssýning sannar, stærsta sýning á verkum eftir Erró sem sett hefur verið upp hér á landi. Heiti hennar er Sprengikraftur mynda og á vel við.
Sýningin endurspeglar glæsilegan feril Errós og er að mestu byggð á listaverkagjöf hans til Reykjavíkurborgar. Árið 1989 tók borgin við um 2.000 verkum eftir listamanninn, auk skjala og annarra gagna. Listaverkasafnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin og telur nú hátt á fimmta þúsund verka. Erró-safninu var fundinn staður í Hafnarhúsi og var gjöfin grunnur þess að Listasafn Reykjavíkur hóf starfsemi í húsinu.
Sýningarstjórar eru Danielle Kvaran, verkefnastjóri Erró-safns Listasafns Reykjavíkur, og Gunnar B. Kvaran. Um sýningarhönnun sér Axel Hallkell Jóhannesson. Á sýningunni eru meira en 300 listaverk af ýmsum gerðum, sem og ljósmyndir og annar fróðleikur um listamanninn. Gunnar og Danielle rita í sýningarskrána um ólík tímabil á ferli Errós, en einnig eru í henni textar og viðtöl eftir Bjarna Hinriksson, Jean-Max Colard, Alain Jouffroy, Jean-Jacques Lebel, Hans Ulrich Obrist og Anne Tronche.
Til Danmerkur og Frakklands
„Ég er alveg hissa sjálfur,“ segir Erró og hlær þegar haft er á orði að glögglega megi finna fyrir afköstum hans og starfsþreki í verkunum á þessari stóru sýningu. En hvernig finnst honum að mæta þessum verkum, frá öllum ferlinum, hér aftur í sölunum? Eru þau eins og gamlir vinir?„Ég horfi fyrst eftir því hvort hvítt er hvítt í þeim! En þau hafa elst svo vel, það hefur verið settur fernis á þær sumar og það er eins og þær hafi verið málaðar í gær, ég er bara hissa,“ segir hann kankvíslega.
„Svo er þetta helvíti vel sett upp! Rosalega vel, verð ég að segja,“ segir hann og er auðheyrilega ánægður.
Sýningin fer á flakk eftir að henni lýkur í Hafnarhúsinu. Hún átti að fara til Moskvu en af því verður vitaskuld ekki í ljósi einangrunar Rússlands í samfélagi þjóðanna en næsta vor verður hún sett upp í ARos-safninu vinsæla í Árósum. Þar á eftir verður hún sett upp í borginni Angoulême og Erró kveðst ánægður með að sjá verkin verða sýnd í Frakklandi sem hefur verið hans heimaland lungann úr ævinni. Í Angoulême var líka sett á sínum tíma upp gríðarstór veggmynd eftir Erró en hann segir borgina vera kallaða höfuðborg teiknimyndasagna.
„Sýningin verður bæði í Angoulême og í fjórum bæjum í kringum borgina,“ segir hann. „Mér finnst gaman að verkin muni ekki stoppa í París heldur fari til Suður-Frakklands í þessa skemmtilegu borg og bæina í kring.“
„Þetta eru sögumyndir“
Erró segir að ef litið sé yfir þau myndverk sem hann hefur skapað um dagana, þá megi í þeim finna vísanir í eða verk um margt það merkilegasta og umtalaðasta sem gerst hefur á þeim tíma. „Þetta eru sögumyndir. Og svo fann ameríski listfræðingurinn Arthur C. Danto skemmtilegt nafn á minn stíl, popp-barokk.“Þegar Erró er spurður að því hvort hann líti á sig sem túlkanda þess sem hefur verið að gerast í mannkynssögunni, þá neitar hann því. En segir að vissulega hefði verið gaman að sjá fleiri feta þessa slóð, að gera svona verk.
En Erró hefur alltaf fylgst vel með því sem er að gerast og þurft að þekkja söguna, hvort sem það er listasagan eða pólitíkin.
„Það er alveg rétt,“ segir hann. „En stundum hef ég ekki haft hugmynd um það hvaðan ég hef fengið upplýsingarnar sem ég vinn með eða myndefnið, þegar ég sé klippimyndirnar sem ég hef gert um þetta. Nú eru til átta yfirlitsskrár með um 16.000 málverkum sem ég hef gert og ég held að það séu þar að auki að minnsta kosti 30.000 klippimyndir til. Ég hef aldrei farið út í að gera skrá um þær. En fólk hefur sent mér myndir víða að, frá mörgum löndum, og svo er ég með svona 80 skúffur á vinnustofunni þar sem allt er flokkað niður. Ég þarf kannski að leita að landslagi, opna landslagsskúffuna og get þá valið úr mörgum myndum að vinna út frá.“
„Þetta kemur af sjálfu sér“
Þegar Erró er spurður að því hvort hugurinn sé sífellt að spinna upp ný verk, þá svarar hann: „Já já, þetta kemur af sjálfu sér!“Og það er ekki að heyra að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi breytt verklagi hans á neinn hátt.
„Ég vakna klukkan sjö á morgnana. Ég bý á fimmtu hæð í smá íbúð og labba niður 120 tröppur. Þá kemur bíll sem nær í mig og ekur mér á vinnustofuna, um hálftíma leið. Það er svo mikið af þjófum í neðanjarðarlestinni, og núna líka úti á götum, að það er orðin eina leiðin fyrir mig að komast á vinnustofuna. Svo er ég á vinnustofunni til sex um kvöldið en þá er ég sóttur og ekið heim. Vilai konan mín er stórfínn kokkur og eldar fyrir okkur. Við erum búin að vera saman núna í fimmtíu ár – á giftingarsamningi. Við erum ekki gift en með samning,“ segir hann og hlær.
Þegar Erró er spurður hvort hann sé alltaf sáttur við dagsverkið þegar hann heldur heim, þá hugsar hann sig um. Segir svo: „Ég sef mjög vel en ég vakna svona þrisvar, fjórum sinnum á hverri nóttu, og þá fer ég að hugsa um hvað ég gerði daginn áður og hvað ég muni gera á morgun. Ég mæti alltaf undirbúinn í vinnuna.“
Fótboltar í kössunum
Blaðamaður fylgdist með Erró ganga um sali sýningarinnar og virða gömul verk sín fyrir sér. Hann staldraði lengi við sum, rýndi í þau og studdi jafnvel hendi á strigana. Þegar hann er spurður að því hvort hann langi að halda áfram með einhverjar myndraðanna á sýningunni, þá er svarið nei. „Ég hugsa ekkert um það. Ég var aðallega að skoða verkin til að sjá hvort litirnir standi sig enn og svo hugsaði ég um tæknina. Og það er allt hundrað prósent hér!“ segir hann sáttur.Stærsta hluta verkanna í Erró-safninu í Listasafni Reykjavíkur sendi Erró hingað til lands árið 1989 en þá var fyrirhugað að setja upp safn með þeim á Korpúlfsstöðum. Hann rifjar upp að á þeim tíma hafi Albert Guðmundsson verið sendiherra Íslands í Frakklandi.
„Hann bauðst til að senda kassana með verkunum til Íslands í diplómatapósti, en þetta voru 15-20 kassar. Þegar Albert kom í tollinn þá kynnti ég hann fyrir tollverðinum sem ætlaði ekki að trúa því að þarna væri gamla fótboltakempan komin. Þeir fóru að tala um fótbolta og kassarnir fóru í gegn.
Að lokum spurði tollvörðurinn: Hvað er í öllum þessum kössum?
Þetta eru fótboltar, það eru engir fótboltar til á Íslandi! svaraði Albert.“ Og Erró skellihlær við að rifja þetta upp.
„En þá kom mest af þessum verkum hingað, við Gunnar Kvaran völdum saman syrpur sem pössuðu vel saman.“
Svo fór að ekkert varð af Erró-safni á Korpúlfsstöðum en yfirleitt eru uppi stórar sýningar í Hafnarhúsinu með úrvali verka eftir hann, sem hefur vakið verðskuldaða athygli. En þessi sýning er með öðrum hætti, miklu stærri, og gefur afar heildstætt yfirlitt með fjölda lykilverka frá ferli Errós.
„Mér finnst hún vera mjög vel hugsuð og vel hengd,“ segir hann um framkvæmdina.
Ekkert ónæði á eyjunni
Erró segist stoppa í eina góða viku á Íslandi að þessu sinni og ekkert ferðast núna um landið. Svo heldur hann suður að Miðjarðarhafi í sumar, eins og hann hefur gert í marga áratugi.„Ég er með hús á smáeyju við Spán, sem heitir Formentera og er nærri Ibiza. Ég byggði það fyrir 50 árum. Ég fékk þá verðlaun frá Cassandra-stofnuninni í Chicago og það gerði mér kleift að byrja að byggja. Húsið var hannað af frægum frönskum arkitekt.“
Og á Formentera dvelur Erró með konu sinni yfir sumarið. Vinnst honum jafn vel þar að listinni og í París?
„Ég vinn betur þar en í París því á Formentera er enginn sími! Ég er ekkert ónáðaður,“ svarar hann og brosir.
Listamaður í fararbroddi
Í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi verður í dag opnuð sýningin Sprengikraftur mynda, sú umfangsmesta sem nokkru sinni hefur verið sett upp hér á landi með verkum eftir Erró.Erró, fæddur Guðmundur Guðmundsson árið 1932 í Ólafsvík, er einn fárra íslenskra listamanna sem náð hafa fótfestu í heimi alþjóðlegrar myndlistar. Sýningin er heildstæð úttekt á hinum litríka feril listamannsins. Þar má finna allt frá gjörningum, vídeólist, grafík, fjölfeldi og klippimyndum, til stórra verka í almannarými og málverka á öllum skala, sem hafa unnið honum verðugan sess í evrópskri listasögu. Erró var í fararbroddi evrópsku framúrstefnunnar á sjöunda áratugnum. Þar er nafn hans ekki aðeins tengt endurnýjun fígúratífs myndmáls, vegna uppfinningar hans á frásagnarmálverkum sem byggja á samklippi, heldur einnig við hræringar sem kenndar voru við uppákomur og tilraunakvikmyndir.