Jón Helgi Hjörleifsson fæddist 20. júlí 1943. Hann lést 22. desember 2021.
Útför hans fór fram 12. janúar 2022.
Jón Helgi fæddist 20. júlí 1943 á Gilsbakka í Austurdal í Skagafirði. Hann lést 22. desember 2021 á Sak, Akureyri. Hann var í skreppitúr til Akureyrar, en lenti á Sak. og lést stuttu síðar. Höggið var mikið. Enginn átti von á slíku en svona ske hlutirnir. Líkaminn var á þrotum, samanber að síðast þegar ég sá hann gekk hann bara í draumi að mér fannst.
Eins og allir á þeim árum vann hann að búi föður síns, því miður dó móðir hans alltof fljótt. Skepnuvinur var hann af lífi og sál, hélt kindur og fór síðar í Egilsá í samvinnu við Guðmund, þann öðlingsmann, sem var ekki allra en Jón sá um kindur hans og einnig sínar; ef Jón gat ekki náð til hans þá gat það enginn. Hláturinn mildaði allt.
Jón var hrókur alls fagnaðar með smitandi hlátur. Er hann kom á bæi sagði hann ætíð „blessaður vertu“ og brustu allir í hlátur sem endaði oft með votum augum. Hann var mjög hjálplegur og oft leitað til hans ef vantaði hjálp. Hann var fús að hjálpa til, sem var æði oft. Seinna fékk hann sér heybindivél, sem voru fáar til, kannski bara þessi eina. Þá var nóg að gera og þvílík bylting og maður horfði agndofa, þvílíkur lúxus, börnin burðuðust með þessa litlu bagga, helst datt þeim í hug að byggja hús!
Nú fór hann að vinna úti á Krók, í Steinullinni og neðra sláturhúsinu eins og kallað var til endaloka. Ekki gleymdi hann sveitinni og var í sauðburði og öðru hjá Jóa í Gerði. Einu sinni doblaði ég hann til að labba með mér fram í Merkigil, varð Bryndís fyrir valinu að fara með, dagur sem gleymist aldrei. Fengum gott veður og var tekið tveim höndum af Helga og Moniku, það besta borið á borð, þvílíkar veitingar. Áður en við fórum urðum við að borða gæsaregg. Þá fékk ég bakteríuna og varð heilluð af þessum stóru hvítu fuglum, en ég er sú eina í firðinum fagra sem á svona dýr í dag. Þá var nú farið að huga að heimferð, það var ekkert mál að fara upp gilið en heldur verra niður. Þá runnum við alla vega, Jón hló svo mikið að við þurftum að jafna okkur er upp kom.
Einnig rotaði hann jólin með okkur nokkrum sinnum, börnin þustu til dyra er hann birtist, gleðin var mikil þau kvöld og mikið hlegið. Hann unni fæðingarstað sínum mjög, hlúði vel að öllu, Ingólfur gerði líka góða hluti þar og Aldís, Þórdís lengst í burtu en Ásdís mín með sængina stóru sótti heim í hreiðrið sitt. Hún var líkust honum, svo hláturmild að allt fór af stað þegar hún birtist. Hún átti við veikindi að stríða, við sendum henni heita strauma svo allt færi vel.
Ekki síst reyndist hann sveitungum vel er hann var starfsmaður í neðra húsinu, þá var vinnudagur oft langur. En þar kynntust þau Kristín og það var mikil gæfa fyrir þau bæði og ekki síst drengina hennar því faðir var hann góður, eins áttu allar skepnur hug hans allan. Eina dóttur átti hann, Rósu Björk. Ég kveð hann með þessum línum:
Við þökkum samfylgd á lífsins leið
þar lýsandi stjörnur skína
og birtan himneska björt og heið
hún boðar náðina sína
en alfaðir blessar hvert ævinnar skeið
og að eilífu minningu þína.
Soffía og börn.