Hörður frá Ísafirði tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni að ári með öruggum sex marka sigri gegn Þór frá Akureyri í lokaumferð 1. deildar karla í handknattleik, Grill 66-deildinni, á Ísafirði í gær.
Sigurinn var sögulegur þar sem liðið tryggði sér sigur í 1. deildinni með sigrinum og sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Leiknum lauk með 25:19-sigri Harðar en Rolands Lebedevs átti stórleik í marki Harðar og varði 16 skot.
Harðarmenn voru sterkari aðilinn strax frá fyrstu mínútu enda mikið í húfi fyrir þá en staðan í hálfleik var 14:9, Herði í vil.
Óli Björn Vilhjálmsson var markahæstur í liði Harðar með sex mörk og Suguru Hikawa skoraði fimm.
ÍR, sem endaði í öðru sæti deildarinnar, mætir Kórdrengjum í undanúrslitum umspils um sæti í efstu deild og í hinu einvíginu mætast Fjölnir, sem endaði í þriðja sæti, og Þór, sem endaði í fjórða sæti.