Nú á þessum miklu hörmungatímum þegar það er tekið að glitta í vorið og það styttist í páskana sem fyllir okkur von um að sumarið sé á næsta leiti með sinni fögru birtu, yl og lífi þá er svo gott að minna sig á að frelsarinn okkar, Jesús Kristur, var krossfestur og lét sitt líf í okkar stað. Hann tók á sig syndir mannanna. En reis upp frá dauðum á þriðja degi. Hann sigraði dauðann og tileinkaði okkur sigur lífsins með sér. Endanlegan sigur og eilíft líf til handa öllum þeim sem þiggja vilja í auðmýkt og þakklæti.
Hættum að „krossfesta“ hvert annað
En hvað er það sem mannkynið hefur gjarnan tamið sér að gera? Hálf „krossfesta“ þau sem okkur líkar ekki við, eru fyrir okkur á einhvern hátt og okkur finnst við hálf þurfa að losa okkur við svo þau verði ekki fyrir okkur með sinni meintu óþægilegu nærveru.Við reynum allt of oft að koma okkar illindum yfir á aðra. En Jesús tók illindi mannfólksins á sig. Hann var hvorki loftslagsvársérfræðingur né sóttvarnalæknir, eins og slíkir eru nú nauðsynlegir og hafa reynst okkur vel í gegnum erfiða tíma, heldur var hann og er frelsari heimsins og okkar eilífi lífgjafi sem býðst til að vaka yfir okkur öllum stundum og leiða í gegnum ævinnar oft brösótta veg. Og gleymum því ekki að hann kallar oft til aðstoðar jarðneska engla, boðbera kærleikans sem fúsir eru að leggja lið og létta undir eins og hefur einmitt blasað við okkur á þeim hörmungatímum sem yfir heimsbyggðina nú ganga.
Ljós lífsins
Við erum kölluð til og okkur býðst að vera lítill en mikilvægur logi af ljósi lífsins. Margir litlir dýmætir logar sem lýsa upp hrjóstrugan veginn á lífsins leið.Hamingjan felst í því að sjá náungann með kærleiksríkum og frelsandi, frið- og lífgefandi augum Jesú Krists. Með því að umfaðma fólk í víðustu merkingu þess orðs.
Að kenna Guði um hið illa í heiminum er eins og að kenna ljósinu um myrkrið, sólinni um skýin, sumrinu um veturinn eða lífinu um dauðann.
Hin lítt spennandi en þó mikilvægu spor Jesú Krists upp að krossinum eru leiðin til lífsins. Pyntingartólinu sem varð að sigurtákni, kjarna og kórónu kærleiksfórnar allra tíma. Gleymum því aldrei.
Tökum upp nýtt verðmætamat með endurnýjun hugarfarsins og biðjum í auðmýkt og þakklæti að við fáum að vera farvegir kærleika Guðs, friðar, fyrirgefningar, réttlætis og fagnaðarerindis. Fordæmum allt ofbeldi og mismunun í hvað mynd sem það kann að birtast. Gætum að sjálfum okkur og elskum lífið.
Með samstöðu-, kærleiks- og friðarkveðju.
– Lifi lífið!
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.