Kramatorsk Lögreglumaður stendur hjá líkum, sem búið var að safna saman eftir eldflaugaárásina á lestarstöðina.
Kramatorsk Lögreglumaður stendur hjá líkum, sem búið var að safna saman eftir eldflaugaárásina á lestarstöðina. — AFP/Fadel Senna
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Joe Biden Bandaríkjaforseti sakaði í gær Rússa um að hafa framið „skelfilegt grimmdarverk“ eftir að þeir gerðu eldflaugaárás á lestarstöð í borginni Kramatorsk í austurhluta Úkraínu, en stöðin var full af fólki sem var að reyna að flýja stríðsátökin vestur á bóginn.

Að minnsta kosti fimmtíu manns létust í árásinni, þar af fimm börn. Var óttast að tala látinna yrði enn hærri eftir því sem liði frá, þar sem flytja þurfti fjölda manns með lífshættuleg sár á nærliggjandi sjúkrahús. Áætlaði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, að fjöldi særðra væri um 300 manns.

Selenskí sagði að árásin á lestarstöðina sýndi „takmarkalausa illsku“, en hún var gerð að morgni til, þeim tíma dags sem hvað mest fjölmenni flóttamanna hefur verið á stöðinni síðustu daga.

Biden lýsti því einnig yfir að hann hefði gefið ríkisstjórn sinni fyrirmæli um að gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að veita Úkraínuher þau vopn sem hann þyrfti til þess að verjast árásum Rússa. Fagnaði Biden jafnframt ákvörðun Slóvakíu um að veita Úkraínumönnum S-300-loftvarnarkerfi.

Reyndu að vísa frá sér ábyrgð

Áætlað er að um 4.000 manns hafi verið á lestarstöðinni þegar tvær eldflaugar lentu á henni, og voru konur og börn þar í meirihluta. Stjórnvöld í Úkraínu hafa hvatt íbúa í austurhluta landsins til þess að leggja á flótta sem fyrst, þar sem eiga megi von á sókn rússneska hersins þar á næstu dögum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagðist í gær ekki bera ábyrgð á árásinni og sagði að Úkraínumenn hefðu sjálfir ráðist á stöðina. Leifar annarrar flaugarinnar sýndu þó að þar var um að ræða eldflaug af Totsjka-gerð, sem ber sprengjuodd sem sendi sprengjubrot um svæði á stærð við fótboltavöll.

Þá var búið að skrifa á flaugina „Fyrir börnin okkar“ með hvítri málningu, en það er slagorð rússneskumælandi aðskilnaðarsinna í Donbass-héruðunum tveimur.

Bretar senda fleiri vopn

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi árásina í gær og sagði hana sýna hversu lágt rússneski herinn, sem eitt sinn hefði notið virðingar, væri sokkinn. Sagði hann að stríðsglæpir Rússa myndu ekki gleymast og að stríðsglæpamenn yrðu dregnir til ábyrgðar.

Johnson hét í gær að Bretar myndu senda háþróuð vopnakerfi að verðmæti 100 milljónir sterlingspunda til Úkraínu, eða sem nemur rúmum 16,7 milljörðum íslenskra króna.

Sagði Johnson að á meðal þeirra vopna væru fleiri Starstreak-eldflaugar, sem eru hannaðar til að granda flugvélum og ferðast á þreföldum hljóðhraða, 800 eldflaugar sem geta grandað skriðdrekum og sprengjur sem geti „beðið í loftinu þar til þeim er beint að skotmarki sínu“.

Johnson fundaði í gær með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, sem fordæmdi árás Rússa. Scholz varði einnig stefnu Þýskalands, en Þjóðverjar hafa verið gagnrýndir fyrir að standa í vegi fyrir því að algjört innflutningsbann sé sett á rússneska orkugjafa, en Þýskaland treystir mjög á jarðgas frá Rússlandi.

„Við erum að gera allt sem við getum og við erum að gera mikið,“ sagði Scholz, og benti á að Þjóðverjar væru nú að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Johnson sagði að Bretar og Þjóðverjar ætluðu sér að vinna saman að því að þróa nýja tækni í endurnýtanlegri orku. „Við getum ekki breytt orkukerfum okkar á einni nóttu, en við vitum líka að stríð Pútíns mun ekki enda á einni nóttu,“ sagði Johnson.

Finnar ákveði sig í sumar

Sanna Marín, forsætisráðherra Finnlands, lýsti því yfir í gær að Finnar myndu ákveða sig fyrir lok júnímánaðar hvort þeir myndu sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu, en stuðningur við aðild hefur vaxið mjög eftir innrás Rússa. Eru nú um 60% Finna hlynnt aðild. Þá hefur stuðningur við aðild einnig aukist í Svíþjóð.

„Við munum ræða málið vandlega, án þess að eyða meiri tíma en við þurfum,“ sagði hún, en von er á skýrslu til finnska þingsins í næstu viku um hina nýju stöðu sem komin er upp í varnar- og öryggismálum. Mun þingheimur meta kosti og galla NATO-aðildar í kjölfarið.