Í safninu Youseum í Svíþjóð hanga engin listaverk á veggjum. Þess í stað eru litrík, skrautleg herbergi, sem gestir geta notað sem skemmtilegan bakgrunn til að taka sjálfur eða myndskeið.
„Þú getur tekið flottar myndir eða búið til flott efni fyrir Instragram... þetta er fullkominn staður til að búa til fyrir Tiktok,“ sagði Sofia Makiniem safnstjóri við AFP um leið og hún sýndi tilfinningatáknaherbergið, sem er fullt af bláum og gulum boltum með brosköllum og grettuköllum.
Í öðrum herbergjum er hægt að grafa sig í skræpóttum svampstautum, setja sig í stellingar í skini neonljósa eða setjast í risastóra bleika rólu fyrir næstu prófílmynd.
Makiniemi segir að Youseum, sem er í verslunarmiðstöð í Solna, bæjarfélagi rétt norður af miðbæ Stokkhólms, gefi gestum tækifæri til að fara í hlutverk listamannsins, þótt dæmigerðir áhrifavaldar líti kannski ekki á myndir sínar sem list.
„Þetta er gagnvirkt safn þar sem þú getur búið til þá list sem þú vilt sjá,“ sagði hún.
Hugmyndin að Youseum á rætur að rekja til Hollands. Safnið þar hóf göngu sína í Amsterdam í nóvember 2019 og komu 75 þúsund gestir á fyrsta árinu þrátt fyrir kórónuveiruna. Í júní í fyrra var annað safnið stofnað í Hollandi, nú í Leidschendam. Eigendur Youseum stefna að því að færa út kvíarnar um alla Evrópu og hefjast handa í Svíþjóð og Þýskalandi.
Fleiri hafa séð sér leik á borði á þessu sviði. Í Antigua í Gvatemala var fyrr á árinu opnað sjálfusafn þar sem gestir geta tekið af sér myndir undir ýmsum kringumstæðum, þar sem geimskip er að ræna þeim eða þeir fljóta svífandi yfir rúminu sínu.
Sjálfsmyndir eru síður en svo nýjar af nálinni. Menn hafa tekið af sér sjálfsmyndir allt frá upphafi ljósmyndatækninnar.
Enska orðið yfir sjálfu, selfie, virðist fyrst hafa verið notað árið 2002 þegar ungur Ástrali notaði það í ummælum við mynd af skrámum, sem hann hafði hlotið á skralli kvöldið áður. Orðið fór sem eldur í sinu um netheima. Orðið hefur verið íslenskað með orðinu sjálfa, þótt velta megi fyrir sér hvort orðið sjálfsmynd dugi ekki.
Merking sjálfu er þó þrengri. Með sjálfu er augljóst að átt er við myndir, sem teknar eru á síma. Málverk listamanns af sjálfum sér myndi til dæmis ekki kallast sjálfa, þótt halda megi fram að sömu hvatir búi að baki og hjá sjálfumyndasmiðunum; að ákveða og ráða því hvernig maður birtist umheiminum.
Sjálfan er líka iðulega notuð sem sönnungargagn, hvort sem það er til að sýna fram á að maður hafi staðið við Monu Lisu í Louvre eða komið að skakka turninum í Pisa. Til að auðvelda sjálfutökur hefur meira að segja verið búinn til ýmiss konar aukabúnaður og nægir þar að nefna sérstaka stöng, sem fengið hefur viðurnefnið kjánaprik. kbl@mbl.is