Stríðið heldur áfram í Úkraínu og mæður flýja land með börn sín en eiginmenn, feður og bræður berjast í heimalandinu. Blaðamaður hitti nokkrar úkraínskar konur sem allar segja mikilvægast að geta komið börnunum í öruggt skjól.
Myndir og texti: Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Er langt frá óvini mínum
Íslendingar eru gestrisnir og landið er öruggt. Það mikilvægasta fyrir mig var öryggi barnsins míns og því ákvað ég að fara svona langt í burtu. Ég er langt frá heimalandinu en á sama tíma langt frá óvini mínum,“ segir Olga og segist hafa vitað að Ísland væri fallegt land.„Eiginmaður minn varð eftir í Úkraínu en hann er fatlaður og hefði því mátt yfirgefa landið, en ákvað að verða eftir til að vernda Úkraínu. Hann getur notað hendurnar og getur því hjálpað þeim sem berjast,“ segir Olga en hún er frá litlu þorpi nálægt Lviv í vesturhluta Úkraínu.
„Þann þrettánda mars flugu sprengjur yfir þorpið og við vöknuðum við hávaðann. Herinn okkar reyndi að breyta stefnu eldflauganna og við heyrðum í sprengjum sem féllu nálægt okkur. Það tók mig aðeins fimm mínútur að ákveða að flýja land. Ég ákvað það þegar ég sá barnið mitt titra og skjálfa. Ég keypti þá flugmiða til Íslands. Þegar við flúðum heyrðum við líka í sprengjum í Lviv,“ segir Olga og segist ekki hafa flúið strax þegar stríðið hófst því hún bar þá von í brjósti að þorpið yrði ekki skotmark Rússa.
„Ég vonaði að heimili mitt myndi sleppa. Við erum bara lítið þorp nálægt landamærum Evrópulands og héldum ekki að þar yrði sprengt, en það lenti sprengja á fótboltavelli bæjarins þannig að þetta var orðið mjög raunverulegt. Rúður í húsum sprungu en enginn lét lífið þann dag,“ segir hún og segir marga hafa þá tekið ákvörðun um að flýja.
„Nánast allir með börn flúðu til Póllands, Þýskalands og nokkrir til Íslands.“
Ekki lengur þörf fyrir plómur
Olga er blaðamaður að mennt og vann lengi í útvarpi. Nýlega stofnuðu hún og eiginmaður hennar fyrirtæki sem selur þurrkaðar plómur sem eru afar vinsælar í Úkraínu. Túlkurinn minn, Lyubomyra Petruk, sem er í viðtali hér á næstu síðu, skýtur inn í að hún hafi einmitt nýlega pantað í gegnum netið plómur af þessu fyrirtæki og sent vinum sínum í Úkraínu, en hún þekkti Olgu ekki persónulega.„Allir segja að þær séu svo bragðgóðar,“ segir Lyubomyra og segir alla í Úkraínu versla við þetta fyrirtæki.
„Fyrirtækið okkar gekk vel og flestir viðskiptavinir okkar eru í Kænugarði. En núna eru engin heimili og ekki þörf fyrir neinar plómur. Viðskiptin hrundu,“ segir Olga.
Olga og Viktoría litla tóku rútu til Póllands og þaðan flugu þær hingað. Hún segir það hafa verið afar erfitt að yfirgefa eiginmanninn.
„Við grétum bæði. Hann er núna einn heima. Ég tala við hann daglega. Hann er svo glaður að barnið hans er öruggt og fái að sofa í rúmi og þurfi ekki að flýja niður í kjallara á nóttunni,“ segir Olga.
„Nánast á hverri nóttu þurftum við að flýja í kjallarann hjá nágrönnum okkar því við vorum ekki með kjallara,“ segir hún og Lyubomyra útskýrir að kjallarar í Úkraínu líkist ekkert kjöllurum á Íslandi. Þar eru þeir rakir og ískaldir og því ekki notalegt að þurfa að híma þar allar nætur.
„Á meðan við vorum í Úkraínu gerðum við það sem við gátum. Við bökuðum smákökur fyrir hermenn og bjuggum til net í felulitum til að hylja skriðdreka fyrir rússneskum drónum. Það eru allir í Úkraínu að búa til þessi net,“ segir Olga og þær sýna mér símamyndir af þessum heimagerðum netum.
Börnin fóru undir rúm
„Stríðið hefur staðið yfir í átta ár nú þegar,“ segir Olga þegar hún er spurð hvort hún hafi átt von á því að stríð skylli á.„Þar sem eiginmaður minn er hermaður fór hann sjálfviljugur austur og varði Úkraínu frá árinu 2014,“ segir hún og sýnir blaðamanni símamynd þar sem eiginmaðurinn fær að hitta dóttur sína í fyrsta skipti, þá orðna nokkura mánaða gamla. Þær mæðgur tóku á móti honum úr stríði á brautarpalli fyrir einum sjö árum.
„En samt hefði ég aldrei trúað því að sprengjum myndi rigna yfir Kænugarð og litla þorpið mitt. Þegar við komum hingað fengum við húsnæði nálægt Keflavík og alltaf þegar heyrðist í þotum fljúga yfir fóru börnin okkar undir rúm. Þau héldu að rússneskar sprengjur væru að falla. Hljóðið er líkt en rússneskar vélar fljúga mjög lágt yfir,“ segir Olga og segir dóttur sína enn ekki gera sér grein fyrir því hversu langt hún sé að heiman.
„Ég hef séð á henni breytingar í hegðun; hún hefur grátið mikið og sýnt merki um áföll. Á Íslandi hefur hún fengið athygli og er að leika sér við önnur börn og því getur hún hugsað um aðra hluti en stríðið,“ segir Olga og segir um 30-40 börn búa nú á Hótel Sögu.
„Við erum með eitt herbergi hér og erum afar þakklátar Íslendingum. Hingað koma sjálfboðaliðar með heitan mat, leikföng, föt og skó. Fyrsta daginn kom hingað fólk úr hverfinu án afláts með alls kyns nauðsynjar en einnig komu þau með börn sín til að leika við okkar börn. Það kom okkur skemmtilega á óvart og við höfum engin orð til að þakka þeim. Við áttum ekki von á því. Ég vona bara að við getum þakkað Íslendingum fyrir hlýjar móttökur og verndina.“
Með tvær litlar töskur
Mæðgurnar láta dagana líða með ýmsu móti. Viktoría er í fjarnámi í skólanum sínum og stundar því námið með tilheyrandi heimalærdómi.„Við höfum bara verið í nokkra daga en höfum farið í göngutúra um Reykjavík, þó við vitum varla hvert við eigum að fara án þess að villast,“ segir hún.
„Hingað komum við með tvær litlar töskur en höfum fengið alls kyns föt og hluti. Fyrsta daginn í Keflavík fórum við í Bónus og keyptum núðlur en síðan við komum hingað hefur fólk komið með mat. Í dag ætlar fólk að koma með örbylgjuofna því það vantar að geta hitað matinn. Við ætlum síðar að fara í sund en Viktoríu langar mikið til þess. En hún þarf fyrst að læra,“ segir hún og brosir.
„Einn daginn fórum við Gullna hringinn,“ segir Olga en það er einmitt Lyubomyra sem er leiðsögumaður og fékk leyfi til að bjóða flóttamönnum að koma með því það voru nokkur laus pláss í rútunni.
„Við höfðum aðeins þekkst í gegnum Facebook vegna þess að við höfum verið í sambandi við fólk sem hefur starfað um árabil gegn stríðinu þar,“ segir Lyubomyra og Olga segir það hafa verið eina af ástæðum þess að hún valdi Ísland.
„Svo vissi ég líka að hér væru fáir flóttamenn miðað við til dæmis Pólland.“
Stressandi að vita ekkert
Hvernig sérðu fyrir þér nánustu framtíð?„Ég fer aftur til Úkraínu um leið og stríðinu lýkur því þar er eiginmaður minn og foreldrar. En ég fer ekki fyrr en það er orðið öruggt fyrir barnið mitt. Mamma og pabbi sögðu að þau myndu aldrei yfirgefa Úkraínu og aldrei yfirgefa heimili sitt, sama hvað gengur á. Í hvert skipti sem sírenur fara af stað veit ég að þau fara niður í kjallara,“ segir Olga en hún og aðrir flóttamenn fylgjast grannt með í snjallsímum sínum sem pípa í hvert skipti sem sírenur fara í gang í heimabæjum þeirra. Þær taka upp símann, sem er nú stilltur án hljóðs, og sýna blaðamanni tilkynningar um sírenuvæl.
„Þær eru í gangi núna,“ segir Olga.
Er ekki stressandi að fylgjast stanslaust með þessum sírenum?
Endar aðeins með sigri
Hefurðu einhverja hugmynd um hvernig þetta muni enda?„Stríðið getur aðeins endað með sigri okkar. Hvenær? Það vitum við ekki. En eiginmenn okkar og feður munu berjast til enda. Við höfum sannleikann og guð,“ segir hún og segist munu dvelja hér eins lengi og hún þurfi.
„Mamma grét þegar ég fór því enginn veit hvenær ég sný aftur. Hún hefur áhyggjur af því hver eigi að jarða sig ef hún deyr á meðan ég er hér. Ég er einkabarn foreldra minna og dóttir mín eina barnabarnið. Eiginmaður minn er líka eina barn foreldra sinna þannig að fjölskyldan er ekki stór. Hann hefur líka áhyggjur af sínum foreldrum,“ segir hún.
„Vinkonur mínar flúðu líka, alla vega þær sem gátu það. Sumar flúðu en sneru aftur til baka vegna þess að þær áttu eldri börn sem voru að berjast,“ segir hún og segist afar sátt við að vera komin í skjól með Viktoríu litlu.
„Ég er mjög glöð að barnið mitt er öruggt.“
Hefur þú enn von fyrir heimaland þitt?
Olga Keptanar kom hingað ásamt dóttur sinni Viktoríu sem er á sjöunda ári. Olga ákvað að yfirgefa Úkraínu þegar hún horfði á barn sitt skelfingu lostið vegna sprengjuregns sem dundi á þorpinu þeirra.
Sakna mömmu og pabba
Anna kom hingað frá Úkraínu með flugi í gegnum Pólland. Hún hafði verið hér í fjóra daga þegar viðtalið var tekið en fjölskyldumeðlimir búa nú í þremur herbergjum á Hótel Sögu.„Við þurftum oft að flýja á nóttunni í kjallara. Ég hélt að ég væri óhult í heimabæ mínum Lviv en þar var síðar látið sprengjum rigna,“ segir Anna og segir suma vini sína ekki hafa getað flúið.
„Karlmenn yfir átján ára mega ekki yfirgefa landið og aðrir hafa ekki efni á því,“ segir hún og segist þekkja marga sem urðu eftir til að berjast.
Anna er nú á flótta og líf hennar hefur snúist á hvolf.
„Heima í Úkraínu var ég mjög upptekin í skólanum og fór stundum í göngutúra með vinum mínum. Mér finnst gaman að teikna og lesa.“
Í sjokki yfir verðlaginu
Báðir foreldrar Önnu eru enn í Úkraínu.„Faðir minn er lögregluþjónn og hann verður að vera í Úkraínu,“ segir hún og segir mikla þörf á lögreglu núna í stríðinu.
„Það er mikið hringt í lögreglu því Rússar eru að ræna og rupla en pabbi má auðvitað ekki segja mér allt,“ segir hún.
„Mamma varð líka eftir í Úkraínu því hún vildi ekki yfirgefa pabba. Það er erfitt en ég hringi í þau þegar ég get. Ég sakna þeirra og langar að hitta þau sem fyrst og þau segja það sama. Ég held að þau séu ekki örugg af því að Rússarnir eru í Úkraínu. Ég er einkabarn og foreldrar mínir voru hræddir um mig og vildu að ég færi,“ segir Anna og segist hafa miklar áhyggjur af þeim.
„Þetta eru jú mamma mín og pabbi.
Eftir komuna hingað þurftum við að ganga frá pappírum og síðan er ég búin að fara að sjá Geysi. Fyrstu dagana fór ég ásamt ættingjum mínum að kaupa í matinn og við vorum alveg í sjokki yfir verðlaginu,“ segir hún og segir mikinn mun á verðlagi hér og í Úkraínu.
Anna er ánægð að þurfa ekki að búa við hörmungar stríðsins.
„Ég er glöð að ég er hér í örygginu en ég sakna heimalandsins og mig langar aftur heim eins fljótt og mögulegt er.“
Hin sautján ára Anna Stefak kom hingað ásamt tveimur frændsystkinum, ömmu og móðursystur.
Við óttuðumst um börnin okkar
Tatiana kom til Íslands 21. mars og Diana þann átjánda, en báðar eru þær með tvö börn með sér og eru yngri börn þeirra orðin vinir.„Við komum hingað af því að hér er mikið öryggi, landið er hreint og hér er gott að vera með börn. Hér virka lög landsins og því var þetta besta landið til að velja svo börnin okkar fái að dafna,“ segir Tatiana.
„Ég kom með tvö börn, það eldra fimmtán ára sonur sem er mjög góður í tölvum en hann segir að Ísland sé gott land til að læra meira á tölvur,“ segir Diana.
„Sonur minn er nýorðinn fjórtán ára og hann er Úkraínumeistari í blönduðum bardagalistum en þann 20. febrúar fórum við til Kænugarðs þar sem hann keppti til sigurs. Hann er nú þegar farinn að æfa hjá klúbbnum Tý og þjálfarinn hér segir að hann sé mjög góður. Mjölnir bauð honum líka að koma í sinn klúbb en hann valdi Tý því þeir urðu fyrri til,“ segir Tatiana og brosir.
Eiginmaður Tatiönu og faðir barnanna er eins og fleiri karlmenn enn í Úkraínu.
„Hann er ekki í hernum en bíður átekta eftir kallinu,“ segir hún.
Eiginmaður Diönu er í hernum að berjast. Þær segjast heyra í eiginmönnum sínum nánast daglega.
„Við fylgjumst vel með fréttum alla daga og höfum líka okkar eigin spjallhópa þar sem við tölum saman. Þá getum við séð hvað er raunverulega að gerast í heimalandinu. Auk þess fáum við alltaf skilaboð þegar almannavarnasírenur fara í gang,“ segir Tatiana.
Skipulögðum matarbox
Tatiana segir að því fylgi mikil streita að þurfa að yfirgefa stríðshrjáð heimaland sitt.„Í Úkraínu áttum við gott líf, vorum í vinnu og höfðum allt til alls. En við óttuðumst um börnin okkar. Dóttir mín var orðin hrædd við að heyra í hraðsuðukatlinum í eldhúsinu því hún var svo hrædd við sprengjur,“ segir hún.
„Mín borg var aðeins friðsælli en hennar en börnin þurftu að vera ein heima því ég þurfti að fara til vinnu og það var ekki öruggt fyrir þau. Við sinntum sjálfboðaliðastörfum og vorum að hjálpa þeim sem voru að berjast í Bútsja,“ segir Tatiana en hún var framkvæmdastjóri á stórum veitingastað. Hún segir að eftir að stríðið braust út hafi veitingastaðnum verið lokað og hann notaður til að búa til mat fyrir hermenn.
„Við sameinuðumst öðrum veitingastöðum og allir unnu í sjálfboðavinnu. Við skipulögðum matarbox fyrir hermennina,“ segir hún.
„Margir vinir mínir sögðu mér að fara úr landi til þess að tryggja öryggi barna minna; þeir sögðust myndu sjá um vinnuna,“ segir Tatiana.
Geta átt góða æsku
Diana tekur í sama streng og segist hafa viljað koma börnum sínum í öruggt skjól.„Það tók langan tíma fyrir mig að ákveða að fara en við höfðum líka breytt vinnunni minni eftir að stríðið braust út. Ég vann áður við að sauma brúðarkjóla en svo fórum við að sauma fyrir hermenn,“ segir Diana.
„Í Úkraínu gerðum við það sem við gátum til að hjálpa fólki en nú reyni ég að hugsa um hag barna minna hér,“ segir Tatiana.
„Börnin skipta mestu máli. Við verðum hér eins lengi og við þurfum. Vonandi verða krakkarnir ánægð hér í skóla,“ segir Diana og segist ekki vita hvort hún snúi til baka eftir stríðið.
„Þegar stríðið er búið tek ég þá ákvörðun,“ segir hún, en báðar eru þær þakklátar að vera á Íslandi, fjarri stríði.
„Við vissum ekki við hverju við ættum að búast við komuna hingað en við erum mjög ánægðar með móttökurnar. Það er alltaf verið að skipuleggja eitthvað skemmtilegt fyrir börnin. Þau eru á lífi, þau eru byrjuð að leika sér og hér geta þau átt góða æsku,“ segir Tatiana að lokum.
Tatiana Reptiy og Diana Mikuliak eru mæður sem flúðu til Íslands með börn sín. Þær þekktust ekki áður en hafa kynnst þar sem þær búa nú báðar á Hótel Sögu.
Við erum einum degi nær sigri
Lyubomyra hittir blaðamann í anddyri Hótel Sögu þar sem við hittum úkraínskt flóttafólk, konur og börn. Eftir að hafa rætt við nokkra með hjálp Lyubomyru sem túlkaði er kominn tími til að heyra í henni sjálfri. Hún hefur sterkar skoðanir á hvað megi betur fara, bæði hvað varðar pólitíkina og hjálparstarfið.
Gott land fyrir börn
„Ég kom hingað árið 2004 en hafði þá verið í Bretlandi í fimm ár að læra ensku. Þegar ég fór frá Úkraínu árið 1999 var efnahagslífið þar slæmt; ég hafði unnið sem enskukennari en launin mín voru greidd reglulega með miklum töfum. Ég fór því til Bretlands. En á leiðinni heim vildum við fjölskyldan koma við einhvers staðar og ákváðum að koma hingað því við erum ævintýragjarnt fólk og vissum að Ísland væri einstakt land. Við vissum mjög lítið um landið; bara að Reykjavík væri höfuðborgin. Ég hafði séð auglýsingu frá Iceland Express á strætisvagni í London og ákvað að kaupa miða hingað. Þannig að ég kom hingað sem ferðamaður en komst svo að því að ég gæti lært íslensku í háskólanum og ákvað að vera lengur. Mér líkaði vel að geta lært hér, unnið og kynnst landinu,“ segir hún en hingað komu þau með tvö börn en þrjú til viðbótar hafa bæst í hópinn.„Ísland er gott land fyrir börn.“
Í dag starfa bæði hjónin sem bílstjórar hjá Reykjavík Sightseeing og Hópbílum, en Lyubomyra lauk leiðsögumannanámi í Menntaskólanum í Kópavogi og starfar nú einnig sem leiðsögumaður.
Setti fánann út í glugga
Hjónin eru nú sest að hér með börn sín fimm og segist Lyubomyra ekki viss hvenær þau flytji aftur heim til Úkraínu.„Mér finnst að ég ætti núna að fara þangað til að hjálpa en ég get kannski gert eitthvað hér. Ef ég væri ekki með börn hér hefði ég farið út,“ segir hún.
Hér á landi bjuggu fyrir um 175 Úkraínumenn en nú eru hingað komnir um sex hundruð flóttamenn og gerir Lyubomyra allt sem hún getur til að aðstoða landa sína.
„Það vantar samt skipulag. Ég hef verið í sambandi við félagsmálaráðherra og hef sent tölvupósta hingað og þangað að láta vita að við hjá Félagi Úkraínumanna getum hjálpað. Það er mikilvægt að skipuleggja betur hjálparstarfið,“ segir hún en hún er einmitt stjórnarformaður Félags Úkraínumanna á Íslandi.
Þegar stríðið skall á 24. febrúar var Lyubomyra í vinnunni að leiðsegja í Vík í Mýrdal.
„Í átta ár hef ég verið með úkraínska fánann í töskunni minni og þennan dag tók ég hann upp úr töskunni og setti út í glugga á hótelinu,“ segir hún og segist hafa liðið eins og hún gæti ekki bara haldið áfram að vinna eins og ekkert hefði í skorist.
„Hvernig gat ég bara haldið áfram að vinna þegar það var komið stríð í Úkraínu? Ég byrjaði á að setja af stað söfnun á Facebook-síðu Úkraínumanna hér á landi og bað svo hótelið að prenta út þessar upplýsingar svo ég gæti dreift blöðum til þeirra sem myndu vilja hjálpa.“
Ég er með sektarkennd
Lyubomyra á ættingja í Úkraínu, meðal annars einn bróður sem er læknir, en hann býr nálægt landamærunum við Hvíta-Rússland.„Við höfum alltaf verið í góðu sambandi og erum það líka núna en það er samt eitthvað svo tilgangslaust að biðja hann að yfirgefa landið. Hann segir það ekki koma til mála; hann ætli að berjast fyrir Úkraínu. Hann spyr mig hvort ég sjái ekki fréttirnar en ég svara: „Jú, en ég er að tala við þig, bróður minn.“ Þannig að ég get bara beðið hann um að skrifa mér að minnsta kosti einu sinni á dag að láta mig vita að hann sé á lífi,“ segir hún.
„Ég er með sektarkennd að spyrja fólk þarna: „Hvernig hafið þið það?“ Hverju á það að svara? Auðvitað er það ekki óhult og því finnst mér þetta svo heimskuleg spurning. Þannig að í staðinn fyrir að spyrja að þessu segi ég bara: „Við erum einum degi nær sigri.“ Fólk spyr mig hvort ég sé viss og ég segist auðvitað vera viss um það, við erum einum degi nær sigri,“ segir hún. Eiginmaður Lyubomyru, Mykhaylo Melnyk, sem situr hjá okkur í viðtalinu, tekur undir að sektarkenndin sé mikil og skýtur inn í: „Fólk er að spyrja mig: „Af hverju þurfa synir mínir að deyja í Úkraínu en þínir fá að vera á Íslandi? Af hverju er minn sonur að berjast en ekki þinn?“ Við spyrjum okkur líka að þessu,“ segir hann, en elstu synir hjónanna eru átján og tuttugu ára.
„Ef við byggjum í Úkraínu væru þeir núna að berjast. Ég spurði þá einhvern tímann fyrir nokkrum árum hvort þeir myndu vilja berjast ef til þess kæmi og þeir svöruðu því játandi,“ segir Lyubomyra.
Södd, klædd og dauð
Í stríðinu getur oft hver mínúta skipt sköpum og skilið milli lífs og dauða. Lyubomyra segir nú vanta sérstök sárabindi, svokallaða snarvöndla, sem stöðva blæðingu á skjótan máta.„Ég er að vinna í því að senda slíka snarvöndla til Úkraínu en það eru ýmis ljón á veginum. Flutningskostnaður er mikill og auk þess er ég spurð hvers vegna ég vilji kaupa þetta, því sagt er að NATO sjái um að útvega þessi snarvöndla, en það er ekki alveg satt. NATO skaffar ýmislegt en það er ekki alltaf hægt að bregðast fljótt við staðbundnum þörfum og það er ekki skilningur á því hér,“ segir hún.
„Hér hef ég fengið þau svör að ekki sé leyfi til að selja slík hjálpargögn frá NATO-herstöðvum og að þau hafi ekki áður fengið svona beiðnir. Ég hef sagt að við gætum keypt þetta og látið senda út, en mér er sagt að ekki sé vitað hvernig ætti að senda þetta út,“ segir hún og segir að nóg sé sent út af mat og fötum en það dugi skammt ef fólk lætur lífið vegna þess að ekki sé nógu fljótt brugðist við sárum, sem eru oft víða um líkama fólks eftir sprengjuregn.
„Vill fólk sjá okkur södd, klædd og dauð?“ segir hún svekkt. Hún hefur ekki gefist upp en nú í vikunni fann hún leið til að kaupa snarvöndla af íslenska fyrirtækinu Hiss ehf. Hún hyggst nú standa fyrir söfnun og getur fólk lagt inn á 0189-26-004211, kennitala 421112-0100 sem er reikingur Félags Úkraínumanna á Íslandi.
„Þetta er dæmi um veikleika okkar og styrk Pútíns. Af því að við förum eftir reglum en það gerir ekki óvinurinn. Þetta var fyrsta spurning sem ég spurði sjálfa mig þegar stríðið byrjaði árið 2014: „Hvernig er hægt að berjast við illskuna, þar sem engar reglur eru við lýði, á lýðræðislegan og löglegan hátt.“ Það er ekki hægt,“ segir hún.
„Í siðmenntuðum heimi á manni að finnast maður öruggur en mér finnst ég ekki örugg. Stríðinu mun einn daginn ljúka en spurningin er hvenær og hver verður fórnarkostnaðurinn.“
Afstaða gegn Rússum
„Við í Úkraínu erum Evrópubúar. Við erum kannski fátækari en aðrir en það var allt á réttri leið. Rússland hefur alltaf viljað vera stóri bróðir okkar og þetta snýst ekkert um hvort við hötum Rússa eða ekki, við viljum bara að þeir láti okkur í friði. Það er ekki bara við Pútín að sakast þótt hann stjórni; hver er að skjóta, hver er að nauðga, hver er að rupla og ræna? Það er verið að ræna af líkum á götum úti. Þetta er fasismi,“ segir hún og segist ekki sátt við að rússneski sendiherrann hér á landi fái að tjá sig í fjölmiðlum.„Mér finnst ég svo hjálparlaus og skil ekki af hverju þessi maður fær pláss til að tjá sig. Hann er beinn fulltrúi Pútíns,“ segir Lyubomyra og segir að Íslendingar ættu nú að taka á honum stóra sínum og hætta öllum samskiptum við Rússa, það væri mesti sýnilegi stuðningur við Úkraínu.
„Íslendingar stæra sig af því að vera lítið land en samt sterk þjóð. Þeir voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Litháens. Þeir tóku vel á móti Fischer. Af hverju vilja þeir núna ekki vera þjóðin til að taka afgerandi afstöðu gegn Rússum? Það er kannski slæmt fyrir viðskipti og pólitíkina. En við erum að tala um að standa vörð um mannréttindi. Ég vil að óvinurinn minn verði veikari,“ segir hún.
„Þið eruð í samskiptum við óvininn og með því eruð þið að styðja stríðið. En enginn vill heyra þetta. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum og upplifi mig hjálparvana.“
Flóttamenn í skoðanaferðir
Lyubomyra vill að sjálfsögðu gera allt sem í hennar valdi stendur til að aðstoða landa sína sem eru nú hér allslausir og langt frá heimahögum.„Ég hef verið að bjóða þeim með í skoðunarferðir því það er eitthvað sem ég get gert. Það eru stundum laus pláss og ég spurði yfirmann minn hvort við mættum bjóða flóttamönnum í ferðir með stuttum fyrirvara og það var sjálfsagt,“ segir hún og segir fólkið ánægt að fá að ferðast um Ísland.
„Mér fannst gott að finna þennan stuðning frá mínum yfirmanni. Lava Centre á Hvolsvelli býður líka öllum flóttamönnum frítt inn. Svo eru páskar að nálgast, en úkraínskir páskar eru viku á eftir páskunum hér. Okkur langar að halda hátíð, baka og koma saman að fagna páskum, en við erum að leita að húsnæði þar sem við gætum öll hist. Kannski gætum við fundið félagsheimili úti á landi, annaðhvort frítt eða ódýrt,“ segir hún og segir að þau sem bílstjórar geti ferjað fólkið á staðinn.
„Ég er alltaf að leita að leiðum til að hjálpa Úkraínumönnum og hef í raun gert það frá 2014 þegar stríðið hófst. Við eigum svo gott líf hér á landi og ég vil hjálpa.“
Trúir þú að Úkraína sigri að lokum?
Lyubomyra Petruk hefur búið hér á landi í sextán ár. Hún er nú stjórnarformaður Félags Úkraínumanna hér á landi og gerir allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa löndum sínum.