Ingvar Júlíus Viktorsson fæddist á Vífilsstöðum, þá í Garðahreppi, 9. apríl 1942. „Ekkert húsnæði var þá laust á staðnum þannig að ég kom í þessa veröld í húsi yfirlæknisins, Helga Ingvarssonar, og tók hann á móti mér, en Helgi var ömmubróðir minn og hann hafði útvegað pabba vinnuna.
Varla var hægt að hugsa sér betri stað til að alast upp á, sveit við dyr höfuðborgarsvæðisins. En margir voru hræddir við Vífilsstaði vegna berklanna, en starfsfólkið og við börnin sem bjuggum þar vorum sprautuð með bakteríunni þannig að við máttum fara um allt, óhrædd við vistfólkið. Ekki er laust við að við höfum verið eins og prinsar og prinsessur, þar sem sjúklingarnir söknuðu að sjálfsögðu barna og barnabarna sinna. Enginn skóli var í Garðahreppi á þessum tíma svo við fórum í Barnaskóla Hafnarfjarðar og síðan í Flensborg. En við gengum ekki í skólann eins og sagt er, okkur var ekið þangað lengstum af Nýju Bílstöðinni í Hafnarfirði. Þannig að þegar Hafnfirðingar gengu í skólana í öllum veðrum komum við út úr leigubíl við skóladyrnar. Það voru al-gjör forréttindi að fá að alast upp á Vífilsstöðum innan um allt þetta góða fólk, þar sem margir hverjir vissu ekki hvað morgundagurinn bar í skauti sér.
Húsakostur á Vífilsstöðum var mjög þröngur í upphafi en lagaðist fljótlega. Fyrst vorum við þrjú systkini á þremur árum og þá bara í einu herbergi með aðgang að eldhúsi og baðherbergi. Við þrjú sváfum í innbyggðum fataskáp í hillunum og hafði pabbi sett merar á þær svo við yltum ekki fram úr. En síðan stækkuðu vistarverurnar og alltaf var nóg pláss hjá okkur fyrir gesti og gangandi.
Ég fór í sveit austur á Desjarmýri þar sem afi og amma bjuggu ásamt sonum sínum. Afi var þar prestur og voru þau með stórt bú. Það var gaman að vera fyrir austan enda einhver fallegasta sveit sem fyrirfinnst. Við vorum mörg frændsystkinin á bænum og mikið að gera. Þar kom oft einkennilegur maður og fór þá út í móana og hraunið og var að mála. Hann var einkennilegur í háttum og framkomu. Þessi maður hét Jóhannes Kjarval eða Jói geit eins og Borgfirðingar kölluðu hann enda frá Geitavík. Afi var mikill náttúrufræðingur, þekkti alla fugla, skordýr, steina og blóm og var alltaf að fræða okkur krakkana um þessa hluti og enn í dag lifir þessi áhugi í okkur. Hann átti t.d. mjög fallegt steinasafn.“
Starfsferillinn
Ungur fór Ingvar að vinna á sumrin á Vífilsstaðabúinu við heyskapinn, en 1958 vann hann suður á Velli og sumarið '59 á Gufuskálum við byggingu Lóranstöðvarinnar. Haustið '59 fór hann síðan norður á Akureyri í MA og lauk stúdentsprófi þaðan 1963. Árin sem hann var í MA var hann á síld á sumrin á Mána GK 36. „Eftir stúdentsprófið fór ég til Eyja en þar bjó fyrri kona mín og elsti sonur okkar Páll. Um haustið flytjum við til Hafnarfjarðar og þar hef ég búið síðan. Við leigðum fyrst í Fögrukinn, en eignuðumst fyrstu íbúð á Skúlaskeiði 36, fallegum stað fyrir ofan Hellisgerði.“Fyrsta starf Ingvars í Hafnarfirði var umboðsmaður Brunabótafélagsins, en allar fasteignir stórar og smáar voru þá tryggðar hjá Brunabót. Veturinn eftir kenndi hann svo einn tíma á dag kl. 8 áður en hann fór á skrifstofuna. Þessir fyrstu nemendur hans voru fæddir 1950. Árið 1967 færði hann sig alfarið yfir í Flensborg og kenndi þar ensku og síðar einnig í Víðistaðaskóla og síðast í Setbergsskóla þar sem starfsferli hans lauk 2009.
Ingvar var kjörinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Alþýðuflokkinn 1986 og sat í bæjarstjórn til 2002. Hann gegndi þar hinum ýmsu embættum, var formaður bæjarráðs, í stjórn Hafnarborgar, Eftirlaunasjóðs og síðan bæjarstjóri 1992-1998. Þá var hann átta ár í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og varaformaður í nokkur ár, í stjórn Hafnasambands sveitarfélaga og stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga og í 10 ár fulltrúi Íslands í Sambandi evrópskra sveitarfélaga í Strassborg. Þá hefur hann setið í stjórn Ísal, í stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar og situr í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og nú í mörg ár í stjórn Flensborgarskólans. Þá eru ótalin störf hans innan Fimleika-félags Hafnarfjarðar en FH hefur hann helgað krafta sína, verið for-maður knattspyrnudeildar, handknattleiksdeildar, einn af stofnendum Muggs og formaður félagsins 2002-2008 og útnefndur heiðursfélagi 2009. Þá lék hann tæplega 100 leiki fyrir FH og Hafnarfjörð í knattspyrnu. Á yngri árum fékkst hann einnig við þjálfun.
Ingvar hefur fengið heiðurskross Ólympíu- og íþróttasambands Íslands. Gullmerki KSÍ, HSÍ, ÍBH og Keilis og er heiðursfélagi FH og Chelsea-klúbbsins á Íslandi. „Árið 1967 vaknaði áhugi minn fyrir Chelsea og hefur ekki slokknað síðan þó á ýmsu hafi gengið hjá þeim.“ Ingvar hefur svo fengið öll starfsmerki FH.
Áhugamál Ingvars í dag eru t.d. golf, en hann er félagi í Golfklúbbnum Keili og er þar félagi í Brynjugenginu. „Það er orðinn 18 ára félagsskapur hressra drengja sem leika golf vikulega og auk þess leik ég golf með öðrum hópi vinaminna. Stangveiði er stunduð í veiðiklúbbnum Nafnar og hefur svo verið í 25 ár. FH karlar er félagsskapur eldri FH-inga sem stofnaður var 1982 og hittist enn þó við séum hættir að spila fótbolta. Ég er mikill Lionsmaður, var fyrst í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar 1966-1978 og svo aftur frá 2014 og líður vel þar.“
Fjölskylda
Kona Ingvars er Birna Blomsterberg, f. 31.7. 1949, hjúkrunarfræðingur. Foreldrar Birnu voru hjónin Bjarni Blomsterberg, f. 17.2. 1917, d. 28.2. 2014, og Valgerður Jónsdóttir, f. 6.9. 1925, d. 26.5. 2020. Fyrri kona Ingvars er Margrét Scheving Pálsdóttir, f. 27.9. 1944.Börn Ingvars og Margrétar eru 1) Páll Scheving Ingvarsson, f. 24.1. 1963, verksmiðjustjóri í Vestmannaeyjum. Maki: Hafdís Kristjánsdóttir; 2) Viktor Scheving Ingv-arsson, f. 20.12. 1964, skipstjóri, býr á Spáni. Maki: Eydna Fossádal; 3) Heiðrún Scheving Ingvarsdóttir, f. 30.12. 1966, verkefnastjóri, býr í Ytri-Njarðvík. Maki: Erling R. Erlingsson. Synir Birnu eru Bjarni Birkir Hákonarson, f. 31.10. 1970, býr í Hafnarfirði, og Freyr Hákonarson, f. 8.11. 1973, verkefnastjóri, býr í Hafnarfirði. Maki: Ragnheiður Gunnarsdóttir. Barnabörnin eru 16 og barnabarnabörnin eru sjö og það áttunda á leiðinni.
Systkini Ingvars: Guðmunda Inga Viktorsdóttir, f. 6.11. 1943, býr í Hafnarfirði; Ingunn Elísabet Viktorsdóttir, f. 13.11. 1944, fv. sjúkraliði, býr í Hafnarfirði; Matthías Viktorsson, f. 9.10. 1948, fv. félagsmálastjóri, býr í Reykjavík, Þorvaldur Jón Viktorsson, f. 9.7. 1953, fv. skólastjóri, býr í Kópavogi; Gunnar Viktorsson, f. 29.3. 1963, sjúkraþjálfari, býr í Hafnarfirði.
Foreldrar Ingvars voru hjónin Viktor Þorvaldsson, f. 1.11. 1911, d. 20.10. 1997, kyndari og vélgæslumaður á Vífilsstöðum, og Guðrún Ingvarsdóttir, f. 19.5. 1922, d. 1.9. 2010, húsmóðir.