O pinberandi endurskoðun á stjórn Bandaríkjanna frá sjónarhóli forsetafrúnna. Þessi sería stingur sér á kaf í persónulegt og pólitískt líf þessara kvenna; fer m.a. yfir ferðalag þeirra til Washington, fjölskyldulífið og pólitískt framlag þeirra til að breyta heimssögunni. Áhrif kvennanna í Hvíta húsinu eru ekki lengur hulin augum.“
Þeir Showtime-menn taka ekki smátt upp í sig þegar þeir kynna sína nýjustu afurð, sjónvarpsþættina The First Lady, sem frumsýndir verða eftir rétta viku. Höfundur er Aaron Cooley og Susanne Bier leikstýrir en konurnar sem um ræðir eru Eleanor Roosevelt, Betty Ford og Michelle Obama. Þættirnir eru tíu talsins, hver um klukkustund að lengd. Talað er um fyrstu seríu, þannig að ganga má út frá því að fleiri forsetafrúr fái að láta ljós sitt skína síðar.
Stórskotalið leikkvenna ríður á vaðið; Gillian Anderson leikur Eleanor Roosevelt, Michelle Pfeiffer fer í föt Betty Ford og Viola Davis túlkar Michelle Obama. Eiginmenn þeirra leika O.T. Fagbenle (Barack Obama), Aaron Eckhart (Gerald Ford) og Kiefer Sutherland (Franklin D. Roosevelt). Aðrir leikarar túlka allt þetta fólk meðan það var ungt. Einnig koma við sögu Lily Rabe, sem leikur blaðakonuna Lorenu Hickok sem hafði djúpstæð áhrif á Eleanor Roosevelt, og Dakota Fanning sem fer með hlutverk Susan Ford, dóttur forsetahjónanna. Þá gerir Rhys Wakefield Dick Cheney skil.
Upphafsatriði fyrsta þáttarins gefur strax til kynna að fara eigi undir yfirborðið en þar útskýrir listamaðurinn Amy Sherald (Tiffany Denise Hobbs) fyrir Michelle Obama hvers vegna hún vill mála portrett af henni en ekki bónda hennar, sem þó varfyrsti þeldökki forsetinn í sögunni. „Það er nú þannig að forsetinn, jafnvel svarti forsetinn, er stofnunin. Ég vil ekki bara mála það sem blasir við, heldur hef ég áhuga á því sanna.“
Svo við rifjum þetta upp þá þjónaði Roosevelt 1933-45, Ford 1974-77 og Obama 2009-17. Sumsé ólíkir tímar og ekki síður ólíkar konur.
Eleanor Roosevelt glímdi við ólík verkefni, svo sem veikindi eiginmanns síns, kreppuna miklu og seinni heimsstyrjöldina um leið og hún barðist fyrir réttindum kvenna og mannréttindum almennt. Í stiklunni fyrir þættina segir hún við forsetann: „Ýttu mér ekki frá þér. Ég er eiginkona þín en ekki ein af vinkonunum.“
Eftir að kunngjört var að Gillian Anderson myndi leika Roosevelt var hún snögg að hlaða í ein frægustu ummæli hennar á samfélagsmiðlum sem ná ef til vill ágætlega utan um andann sem þættirnir eiga að skapa: „Kona er eins og tepoki. Þú veist aldrei hversu sterk hún er fyrr en komið er í heitt vatnið.“
Anderson sérhæfir sig í sögulegum persónum þessi misserin en hún hlaut mikið lof fyrir túlkun sína á Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum The Crown. Ætli hún geri betur hér?
Betty Ford bæði hneykslaði og vakti aðdáun með hispurslausri framkomu sinni og opinskáu tali um eigin raunir en hún greindist með brjóstakrabbamein og undirgekkst brjóstnám fljótlega eftir komuna í Hvíta húsið. Allt slíkt hafði verið feimnismál fram að því. Í stiklunni fyrir þættina segir hún við bónda sinn: „Ég mun standa með þér en ég ætla eigi að síður að vera ég sjálf!“
Það var hins vegar ekki fyrr en eftir að valdatíð eiginmanns hennar lauk sem Ford var knúin til að horfast í augu við alkóhólisma sinn og vanda í tengslum við lyfseðilsskyld lyf. Eftir að þeirri rimmu lauk kom hún sem frægt er á fót meðferðarmiðstöðinni sem kennd er við hana. Betty Ford tók líka óhrædd málstað femínista, sem ekki féll öllum í geð á þeim tíma.
Margir bíða spenntir eftir að sjá Michelle Pfeiffer í hlutverkinu en hún mun hafa skrifað undir áður en hún las handritið. Vildi ekki fyrir nokkurn mun kasta þessu tækifæri frá sér.
Ekki úr aftursætinu
Loks skila þættirnir sér inn á 21. öldina, þegar fyrsta svarta fjölskyldan hefur komið sér fyrir í Hvíta húsinu. Michelle Obama lét snemma til sín taka og hafði til að mynda brennandi áhuga á heilbrigðismálum. Í stiklunni fyrir þættina heyrist Barack segja beint út við hana: „Ég get ekki látið þig stýra úr aftursætinu?“ Sjálf segir hún, á öðrum stað: „Ég vil ekki þurfa að hugsa eftir fjögur ár: Hvað varð úr mér í þessu húsi?“Viola Davis er í annarri stöðu en stöllur hennar fyrir þær sakir að Michelle Obama er enn á lífi. Hún hefur viðurkennt að hún sé „dauðskelkuð“ og tilhugsunin um viðbrögð forsetafrúarinnar fyrrverandi hafi haldið vöku fyrir henni.
Flakkað er fram og til baka í tíma og stuðst við gamlar fréttamyndir inn á milli til að tengja okkur betur við tíðarandann hverju sinni. Fyrir kemur að sögurnar skarast, eins og þegar Obama-fjölskyldan kemur saman við fartölvuna til að horfa á Marian Anderson koma fram á National Mall árið 1939 en skömmu áður höfum við fylgst með Eleanor Roosevelt skipuleggja viðburðinn. Hún þurfti þá að taka fram fyrir hendurnar á öðrum en þar til bært ráð hafði meinað Anderson að koma fram en hún var af afrískum uppruna. Tilgangurinn er væntanlega að minna okkur á framsýni og varanleg áhrif sem afstaða forstefrúanna getur haft.