Vorhreinsun Verktakar annast hreinsun gatna og stíga í Reykjavíkurborg.
Vorhreinsun Verktakar annast hreinsun gatna og stíga í Reykjavíkurborg. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hreinsun gatna og stíga hjá Reykjavíkurborg hófst upp úr 20. mars, að sögn Hjalta J. Guðmundssonar, skrifstofustjóra reksturs og umhirðu borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hreinsun gatna og stíga hjá Reykjavíkurborg hófst upp úr 20. mars, að sögn Hjalta J. Guðmundssonar, skrifstofustjóra reksturs og umhirðu borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg. „Við vinnum eftir verkáætlun sem hægt er að sjá á reykjavik.is/hreinsun . Ég held að þetta hafi gengið alveg bærilega,“ sagði Hjalti. „Við tökum stofnbrautir fyrst og helstu göngu- og hjólastíga. Það er gert til að hreinsa fyrst þá stíga sem eru mest notaðir svo hjólafólk og gangandi verði fyrir sem minnstum vandræðum.“ Hægt er að fylgjast með framvindu hreinsunarinnar í Borgarvefsjá á vef Reykjavíkurborgar.

Hreinsunin er öll boðin út og sjá því verktakar um sópun, hreinsun og þvott gatna, stétta og stíga. Hjalti sagði að verkið sé mjög umfangsmikið og taki því margar vikur. Reiknað er með að hreinsuninni ljúki að fullu í byrjun júní.

„Stígarnir eru samtals 820 kílómetra langir. Við vetrarþjónustum götur sem jafnast á við allan hringveginn og eru samtals 1.200 til 1.300 kílómetra langar. Þessar götur eru einnig hreinsaðar á vorin,“ sagði Hjalti. Íbúar fá sent SMS áður en hreinsun þeirra gatna hefst.

Uppsópið af götunum fer í svonefnda sópþró sem uppfyllir öll mengunarskilyrði, enda getur efnið af götunum verið mengað. Öðru máli gegnir um sandinn af stígunum og er mögulega hægt að endurnýta hann á einhvern hátt. Verið er að skoða möguleika til þess, að sögn Hjalta.

Þjóðvegir í þéttbýli þrifnir

Vegagerðin er að hefja vorhreinsun þjóðvega í þéttbýli, að sögn G. Péturs Matthíassonar upplýsingafulltrúa. Hann sagði að jarðgöng landsins væru hreinsuð reglulega og ekki bara á vorin.