26 Valsarinn Callum Lawson fór mikinn fyrir Valsmenn í gær og skoraði 26 stig en hér reynir hann skot yfir Garðbæinginn Hlyn Bæringsson í leiknum.
26 Valsarinn Callum Lawson fór mikinn fyrir Valsmenn í gær og skoraði 26 stig en hér reynir hann skot yfir Garðbæinginn Hlyn Bæringsson í leiknum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Valur leiðir 2:0 í einvígi sínu gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir afar dramatískan sigur Valsmanna í öðrum leik liðanna í Mathúss Garðabæjar-höllinni í Garðabæ í gær.

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur leiðir 2:0 í einvígi sínu gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir afar dramatískan sigur Valsmanna í öðrum leik liðanna í Mathúss Garðabæjar-höllinni í Garðabæ í gær.

Leiknum lauk með 94:92-sigri Valsmanna eftir tvíframlengdan leik en Callum Lawson fór mikinn í liði Vals, skoraði 26 stig, tók átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Pablo Cesar fór mikinn fyrir Valsmenn, skoraði 19 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar en Hilmar Smári Henningsson skoraði 21 stig fyrir Stjörnuna, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

„Þrátt fyrir að Valur sé í góðri stöðu er einvígið langt frá því að vera búið. Liðin eru ákaflega jöfn en leikirnir til þessa dottið Valsmegin. Staðan 2:0 gefur ekki endilega rétta mynd af þróun leikjanna.

Stjörnumenn koma væntanlega dýrvitlausir í næsta leik, með bakið upp við vegg, og verður Valur væntanlega að eiga sinn besta leik til þessa til að vinna einvígið 3:0 og senda Stjörnuna í sumarfrí,“ skrifaði Jóhann Ingi Hafþórsson m.a í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is.

Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins en liðin mætast næst á mánudaginn kemur á Hlíðarenda og geta Valsmenn tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri.

*Darius Tarvydas var stigahæstur Keflvíkinga þegar liðið jafnaði metin í 1:1 í einvígi sínu gegn Tindastól í Blue-höllinni í Keflavík.

Tarvydas skoraði 25 stig og tók sautján fráköst, ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar en leiknum lauk með öruggum sigri Keflavíkur, 92:75.

Dominykas Milka skoraði 14 stig og tók fimmtán fráköst fyrir Keflavík en Taiwo Badmus var stigahæstur í liði Tindastóls með 22 stig og sjö fráköst.

„Segja má að leikurinn hafi verið akkúrat öfugur miðað við fyrsta leik liðanna. Vandamál Keflavíkur í fyrsta leik var að þeir fengu ekki nægilega mikið framlag frá lykilmönnum sínum en það háði Tindastóli í kvöld.

Baráttan og leikgleðin sem einkenndi leik Tindastóls í fyrsta leiknum var öll Keflavíkurmegin í kvöld. Valur Orri Valsson og Dominykas Milka voru fremstir í flokki í þeim efnum en vert er að nefna innkomu Arnórs Sveinssonar sem spilaði frábæra vörn og barðist eins og ljón allan tímann,“ skrifaði Aron Elvar Finnsson meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is.

Þriðji leikur liðanna fer fram í Síkinu á Sauðárkróki á mánudaginn.