Ester Úranía fæddist á Hellissandi 11. október 1933. Hún lést á Hrafnistu 28. mars 2022.
Foreldrar Esterar voru Friðþjófur Baldur Guðmundsson frá Rifi, f. 27.10. 1904, d. 3.9. 1987, og Halldóra Guðríður Kristleifsdóttir frá Hrísum, f. 26.11. 1912, d. 8.6. 1999. Þau bjuggu á Rifi á Snæfellsnesi.
Systkini Esterar eru Sævar, f. 30.10. 1936, Svanheiður Ólöf, f. 8.9. 1939, d. 30.10. 2020, og Kristinn Jón, f. 24.7. 1941. Uppeldisbræður eru Sæmundur Kristjánsson, f. 24.8. 1943, og Hafsteinn Þórarinn Björnsson, f. 19.5. 1949.
Ester Úranía giftist þ. 19.12. 1953 Kristni Elíasi Haraldssyni, f. 15.3. 1925, d. 15.1. 1987.
Ester og Kristinn eignuðust níu börn þau eru: 1) Baldur Freyr, f. 11.8. 1952, kvæntur Guðrúnu Elísabetu Jensdóttur og eiga þau 5 börn, 2) Elvar Guðvin, f 29.9. 1953, kvæntur Þórdísi Bergmundsdóttur og eiga þau tvo syni, 3) Dóra Sólrún, f. 28.4. 1955, gift Guðbrandi Jónssyni og eiga þau tvö börn, 4) Jóhann Rúnar, f. 11.10. 1957, kvæntur Katrínu Gísladóttur og eiga þau fjögur börn, 5) Helena Sólbrá, f. 24.2. 1960, gift Guðmundi Gunnarssyni og eiga þau sex börn, 6) Hafalda Elín, f. 18.7. 1963, d. 6.11. 2017, var gift Gústaf Geir Egilssyni og eiga þau þrjú börn, 7) Jófríður Soffía, f. 13.7. 1964, d. 13.9. 1991, eignaðist hún eina dóttur, 8) Snædís Elísa, f. 26.11. 1967, gift Andrési Helga Hallgrímssyni og eiga þau þrjú börn, 9) Guðbjörg Huldís, f. 18.1. 1975, gift Óskari Guðjónssyni og eiga þau tvö börn.
Magnús Guðmundsson, f. 30.7. 1926, d. 17.10. 2011, var sambýlismaður Esterar frá 1996.
Ester ólst upp á Rifi og bjó þar til 1991 en fluttist þá til Reykjavíkur. Hún vann ýmis störf í sjávarútvegi á meðan börnin uxu úr grasi, þar á meðal við fiskvinnslu og netagerð auk þess að bera út blöð og póst. Eftir að Ester flutti til Reykjavíkur vann hún hjá Pósti og síma og starfaði fyrst í afgreiðslu og síðar sem gjaldkeri.
Ester var mjög virk í félagsstarfi og naut þess mikið að syngja og dansa. Á Hellissandi starfaði hún í slysavarnafélaginu, kvenfélaginu og kirkjukórnum. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur var hún í kirkjukór Bústaðakirkju, Garðakórnum og kór eldri borgara auk þess að sinna ábyrgðarstarfi í félagsstarfinu, var s.s. gjaldkeri og sinnti öðrum stjórnarstörfum. Ester sat um nokkurt skeið í stjórn Félags eldri borgara. Hún hafði mikla ánægju af að ferðast og fór m.a. í nokkrar ferðir með Magnúsi bæði innanlands og erlendis.
Útförin fer fram frá Ingjaldshólskirkju í Snæfellsbæ í dag, 9. apríl 2022, klukkan 14.
Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.
Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla'á fold.
Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.
(Ómar Ragnarsson)
Þó að húsið væri fullt af börnum og ég sú fyrsta sem flutti að heiman. Alltaf að passa upp á hópinn þinn og að halda öllum saman og í öryggi. Alltaf sagðir þú þína skoðun á öllum málum og ef ég spurði ráða þá hafðir þú alltaf góð ráð og varst heiðarleg og hreinskilin með lausnirnar á hreinu. Heimili þitt í Rifi var alltaf opið fyrir gesti og skipti þá ekki máli hvað voru margir heima. Þú bættir þá bara við plássi í stofunni eða við krakkarnir vorum færð á milli rúma.
Þú og ég erum mjög líkar og oft fæ ég að heyra frá systrum mínum „þú ert alveg eins og mamma“. Þú hafðir ótrúlega mikinn styrk þegar sorg og erfiðleikar steðjuðu að og oft barst þú harm þinn ein og í hljóði. Það sem þú hefur gefið mér í arf er styrkur og seigla sem mun fylgja mér út lífið. Takk fyrir allt sem þú gafst mér elsku mamma.
Núna þegar við kveðjumst fyrir fullt og allt get ég sagt að lokum að þú varst mamma mín og veittir mér ást og umhyggju allt lífið. Megi guð blessa þig og gefa þér alla þá hvíld sem þú þarfnast á nýjum stað.
Takk fyrir allt, ég mun sakna þín mikið elsku mamma.
Dóra Sólrún.
Við Baldi byrjuðum okkar búskap í Rifi og þar höfum við alið upp okkar börn. Þau minnast ömmu sinnar með hlýju og alls þess sem hún var þeim ætíð. Alltaf með hlaðið borð af kræsingum eftir vali hvers og eins þegar þau komu við hjá henni beint úr skólarútunni. Allskonar grautar, ástarpungar og bræddur mysuostur í rjóma á brauði voru í uppáhaldi. Þau sögðu gjarnan: „Ég kom við hjá ömmu.“ Ef hægt er að tala um matarást þá var hún svo sannarlega til staðar hjá þeim. Ester var kona sem hafði sterkar skoðanir og framkvæmdi yfirleitt það sem henni datt í hug. Dæmi um það er þegar ég var að koma heim í Rif með okkar fyrsta barn, þá datt henni í hug af hugulsemi og kærleika að það þyrfti að mála hjónaherbergið áður en ég kæmi heim og án þess að ræða það við neinn þá málaði hún fallegasta litinn að hennar mati og málaði það dökkgrænt. Þess ber að geta að ég hef aldrei verið hrifin af grænum lit en ég skildi kærleiksgjörninginn og var þakklát fyrir væntumþykjuna. Græna herbergið fékk að njóta sín hjá okkur í mörg ár.
Við tvær brölluðum margt saman. Ester hvatti mig til að ganga í SVF Helgu Bárðardóttur eftir að hún gat fengið mig á fund. Kirkjukórinn var henni líka hjartans mál og nauðsynlegt að ég færi í hann. Einnig unnum við saman um árabil í netavinnu ásamt góðri vinkonu okkar, Auði Gríms. Eftir stendur að það voru mikil forréttindi að hafa Ester í nágrenni við okkur fjölskylduna. Aldrei lét hún hugfallast þó að á henni dyndi hvert áfallið af öðru. Hún hélt ótrauð áfram af styrk og æðruleysi. Minning hennar mun lifa í hjarta okkar sem elskuðum þessa glæsilegu konu sem var 88 ára þegar hún var kölluð til ástvina sinna sem farnir eru.
Hinsta kveðja til þín, elsku tengdamamma, mamma, amma og langamma.
G. Elísabet, Baldur Freyr
og fjölskylda.
Þú varst lífsreyndasta konan, fékkst erfiðustu verkefnin að mörgu leyti. Þurftir að upplifa svo margt á lífsleiðinni. Að sjá styrk þinn í gegnum allt sem á hefur dunið mun styrkja mig um ókomna tíð. Það var mikil reisn yfir þér.
Þú eignaðist níu börn, 24 barnabörn og enn fleiri langömmubörn. Ég man ég hugsaði þegar ég var yngri hvað það hlyti að vera mikið vesen að kaupa jólagjafir fyrir allt þetta fólk en þú leystir það með því að gefa öllum eina happaþrennu í umslagi og margt fleira auðvitað.
Stemningin í Rifsættinni er einstök og er ég endalaust þakklát fyrir að vera af henni, þar býr svo mikill kraftur og styrkur sem við erfum eftir þig. Takk fyrir það elsku amma. Ég á þér svo margt að þakka og mun horfa upp til þín áfram. Elska þig elsku amma mín.
Þín
Edda Sif.