Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Destination Mars nefnist forvitnileg einkasýning Söru Riel sem nú stendur yfir í Ásmundarsal og er hún, eins og titillinn gefur til kynna, sett upp sem geimferð til hinnar fjarlægu plánetu Mars. Sara vinnur í ýmsa miðla og sýnir um allt safnið og utan á því líka. Má sjá málverk, teikningar, grafík, ljósmyndir, lágmyndir, innsetningu og veggverk sem tengjast efninu með ýmsum hætti.
Segir í sýningartexta að Sara fjalli um grundvallarspurningar á borð við uppruna, tilgang, siðferði og örlög og að mikilfengleiki vísindaafreka mannsins kallist á við smæð hans í geimnum, tæknihyggja og framfaratrú mæti dulspeki og fortíðarrómantík. „Geimferðir sýna okkur jörðina í nýju ljósi en þekja hana smám saman geimrusli, svo hætt er við að við lokumst inni,“ segir þar og vissulega er það hrollvekjandi tilhugsun.
Sara veltir m.a. fyrir sér afleiðingum þess að Rússar hafi skotið flugskeyti á eigið gervihnattatungl í fyrra með þeim afleiðingum að yfir 1.500 stærri brot og mörg hundruð smærri dreifðust um sporbaug jarðar. Þá spyr hún hvaða áhrif aðkoma milljarðamæringa, sem þróað hafa nýjar eldflaugagerðir sem gera ódýrara að ferðast út í geim og senda þangað gervihnetti í einkaeigu, muni hafa á afstöðu okkar til almennra ferðalaga og búflutninga út í geim. Í einu verki má sjá stjörnuna Síríus og mikilvægi hennar þegar kemur að trúarbrögðum og andlegri iðkun í aldanna rás. Og þannig mætti áfram telja.
Frægasta geimflaugin
Sara tekur á móti blaðamanni í dyrum Ásmundarsalar og ólíkt því sem blaðamaður hélt þá skiptir máli hvar er byrjað á sýningunni. Við byrjum því uppi, í aðalsalnum, á verki sem sýnir ógnarstærð sólarinnar í samanburði við stjörnur sólkerfisins. Strax í upphafi eru sýningargestir minntir á smæð sína í hinum mikla og óendanlega (eða hvað?) alheimi og hvar þeir eru staddir í honum. Við hlið verksins má sjá stórt málverk og myndar í því fjöldi geimflauga eina stóra. Blaðamaður þykist þekkja þessa stóru sem þá sem birtist í Tinna-bókinni Eldflaugastöðinni . Sara staðfestir að svo sé. „Hún er, held ég, frægasta geimflaugin,“ segir hún og að í verkum sínum vísi hún mikið í vísindaskáldskap frá sjöunda og áttunda áratugnum og teiknimyndahefðina. Lestur hafi alltaf skipt hana höfuðmáli í aðdraganda sýninga og þaðan komi viðfangsefni hennar alla jafna. Tinna-flaugin kallast líka skemmtilega á við hina geimflaugarlegu Hallgrímskirkju sem blasir við fyrir utan, tilbúin að hefja sig til flugs í átt að Mars.
Þegar Siríus rís þá flæðir Níl
Ef sýningunni er líkt við teiknimyndasögu, ramma fyrir ramma, er næsti rammi sem Sara sýnir blaðamanni Síríus fyrrnefnd, „bjartasta stjarna stjörnumerkisins Stórahunds og kallaðist Canicula á latnesku alþýðumáli sem hefur verið þýtt sem Hundastjarna“, eins og segir á Vísindavefnum. „Þegar Síríus rís á sumrin þá flæðir Níl þannig að þetta er alls staðar í menningarheimi Egyptalands og í Grikklandi eru hundadagar sveittustu dagarnir,“ fræðir Sara blaðamann og nefnir ýmsar aðrar kenningar tengdar stjörnunni björtu.Við skoðum fleiri verk og veltum fyrir okkur spurningunni sem menn hafa lengi velt fyrir sér – þeirra á meðal David Bowie heitinn – hvort líf sé á Mars. Eitt málverkið sýnir rauðu plánetuna frá sjónarhorni fjarstýrða geimjeppans Perseverance en Sara er að vísu búin að eiga við útsýnið, himinninn er til að mynda blár í verkinu sem hann sannarlega er ekki á Mars og steinmyndanir virðast vera verk manna frekar en Marsbúa. Í öðru verki má sjá sjónarhorn dróna sem býr sig til lendingar á rauðu plánetunni. Búið er að bora hringlaga gat í yfirborð hennar, ummerki eftir vélar manna og rautt X er yfir gatinu, líkt og um fjársjóðskort sé að ræða enda Marsferðir ákveðin gerð fjársjóðsleitar. Sara bendir á að draumur vísindamanna sé að sjá einhver ummerki á Mars, vísbendingar um líf á fjarlægri plánetu. Sólin sést uppi í einu horni salarins, skærgul og negld með stórum svörtum nagla við vegginn. Vísun í Söguna af bláa hnettinum , segir Sara um þá gulu.
Vísindi og listir
En hvernig datt Söru í hug þetta efni að myndlistarsýningu? „Af því ég geri myndlist,“ svarar hún kímin og bætir svo við að viðfangsefnin komi iðulega hægt og rólega til sín, oftast í gegnum bækur, kvikmyndir eða samfélagið sjálft. „Svo fer ég að spá og spekúlera í því eins og fólk gerir og minn miðill er myndir. Þetta er bara eins og glósur,“ segir Sara. Viðfangsefnin þurfi að vera djúpur brunnur að sækja í.„Ég hef bara áhuga á því að vera til,“ segir Sara um listsköpun sína og að sér hafi alltaf fundist vísindi og listir haldast í hendur, líkt og hún gerði með hvað greinilegustum hætti á tímum endurreisnarinnar.
Við höldum í Gryfjuna, neðsta sýningarrými safnsins. Þar má sjá dáleiðandi verk sem varpað er með ljósi af hringlaga glerplötum á veggina og snýst í hringi. Sara horfir hugfangin á eigin sköpun og skal engan undra því þetta er afskaplega fallegt verk sem sýnir geimrusl og gervihnetti, frá árinu 1957 til 2037 og því að hluta til framtíðarspá. Fallegt en um leið svo ógnvekjandi, eins og svo mörg verka Söru.
Sýningin Destination Mars stendur yfir til 24. apríl.