Tímamót Hans Christian Dahl er fyrsti Grænlendingurinn sem teflir á Reykjavíkurskákmóti.
Tímamót Hans Christian Dahl er fyrsti Grænlendingurinn sem teflir á Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið hefur verið haldið síðan 1964 og fagnar því brátt 60 ára afmæli sínu. Mótið í ár ber nafn aðalstyrktaraðilans og heitir nú Kvika Reykjavík Open. Keppendur eru 245 talsins og verða tefldar níu umferðir.

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið hefur verið haldið síðan 1964 og fagnar því brátt 60 ára afmæli sínu. Mótið í ár ber nafn aðalstyrktaraðilans og heitir nú Kvika Reykjavík Open. Keppendur eru 245 talsins og verða tefldar níu umferðir.

Eftir þriðju umferð sem fram fór á fimmtudaginn voru tveir skákmenn efstir með fullt hús, Bandaríkjamaðurinn Hans Moke Niemann og Pólverjinn Lukasz Jarmula. Síðan kom 31 skákmaður með 2½ vinning, þar af níu Íslendingar: Jóhann Hjartarson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Héðinn Steingrímsson, Vignir Vatnar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson, Haraldur Haraldsson, Gunnar Erik Guðmundsson, Jóhann Arnar Finnsson og Hrund Hauksdóttir.

Við ættum að geta búist við að okkar bestu menn geti blandað sér í baráttuna um sigurinn og frammistaða ungu mannanna, Gunnars Eriks og Jóhanns Arnar, ásamt árangri Hrundar, er einfaldlega vísbending um góðan efnivið meðal yngri þátttakenda okkar.

Enn skal á það minnt að Reykjavíkurskákmótin eru fyrsti alþjóðlegi viðburðurinn sem ber nafn höfuðborgarinnar. Fram til 1980 var mótið lokað, þ.e. allir tefldu við alla en árið 1982 var mótið „opnað“. Það er áreiðanlega margt sem togar í; góð umgjörð og skipulagning, glæsileg húsakynni Hörpu og sérstakur andi þessa móts sem á sér langa og merka sögu.

Evrópumót einstaklinga sem lauk í Slóveníu á dögunum útilokaði þátttöku margra sterkra skákmanna, einnig okkar manna, Guðmundar Kjartanssonar og Hannesar Hlífars Stefánssonar. Það eru svo indverskir skákmenn sem tylla sér í flest efstu sætin hvað skákstig varðar. Rameshbabu Praggnanandhaa og Baskar Adhiban fara þar fremstir og eins og oft áður mætir indverska skákdrottningin Tania Sachdev til leiks. Svo eru þarna meistarar á borð við Simon Williams sem nýtur mikilla vinsælda fyrir myndbönd sem yngri menn okkar horfa mikið á. Frá stríðshrjáðri Úkraínu kemur Oleg Romanishin sem tefldi hér fyrst árið 2004 og aflaði sér mikilla vinsælda.

Það er ekki auðvelt að velja úr mörgum skemmtilegu viðureignum en hví ekki að gefa ungum manni sviðið, sem lagði mun stigahærri andstæðing snarlega að velli:

Kvika Reykjavíkurskákmót 2022; 3. umferð:

Gunnar Erik Guðmundsson – Jan-Louis Wchtrup

Tarrasch-vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 d5 4. cxd5 Rxd5 5. e4 Rxc3 6. bxc3 c5 7. Rf3 cxd4 8. cxd4 Bb4+ 9. Bd2 Bxd2+ 10. Dxd2 O-O 11. Be2 b6 12. O-O Bb7 13. Df4 Rd7 14. e5 Hc8 15. Hac1 Rb8 16. Hfd1 Hxc1 17. Hxc1 Rc6 18. Bd3 Rb4 19. Be4

Biskupsfórn á h7 væri glapræði, 19. Bxh7+?? Kxh7 20. Rg5+ Kg8! 21. Dh4 Be4! og svartur vinnur.

19. ... Bxe4 20. Dxe4 Dd7?

Gunnar vann ekki þessa skák vegna nákvæmrar byrjunartaflmennsku því svartur gat hirt peðið á a2 sér að meinalausu. Bæði hér og fyrr í skákinni hefði verið gott að skjóta inn leiknum h7-h6. Nú fær hvítur sóknarfæri.

21. Rg5! g6 22. Dh4 h5 23. Re4 Rd5 24. g4 Dd8 25. Dh3 hxg4?

Annar ónákvæmur leikur. Hann gat leikið 25. ... Kg7 til að svara 26. gxh5 með 26. ... Hh8.

26. Dh6!

Þessi leikur kom Þjóðverjanum í opna skjöldu. Hann er gjörsamlega varnarlaus.

26. ... f6 27. Dxg6+ Kh8 28. Dh5+ Kg7 29. Dxg4+ Kh6 30. Dh4+ Kg6 31. Dg4+ Kh6

32. Kh1!

Opnar g-línuna fyrir hrókinn.

32. ... Hg8 33. Dh4+ Kg6 34. Hg1+ Kf5 35. Rd6+

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Höf.: Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)