Alls skiluðu ellefu framboð inn listum fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í maí, en skilafrestur rann út á hádegi í gær.
Flokkarnir sem skiluðu inn listum eru Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn, Framsóknarflokkurinn, Vinstri-græn, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Píratar, Sósíalistaflokkurinn, Reykjavík – besta borgin og Ábyrg framtíð.
Framboðin í ár eru nokkru færri en fyrir síðustu kosningar þegar 16 listum var skilað inn.
Úrskurðað verður um lögmæti framboðanna í dag þegar búið er að fara yfir listana; meðmælendur og undirskriftir. Ef eitthvað stenst ekki kröfur verður frestur veittur til að gera úrbætur, að sögn Evu B. Helgadóttur, formanns yfirkjörstjórnar.
„Við munum veita þeim svigrúm fram til úrskurðar. Það eru ekki gerðar of stífar tímakröfur og framboðin fá raunverulegt tækifæri til að bæta úr,“ segir Eva.
F-listinn ekki í framboði
Á Seltjarnarnesi verða framboðin til sveitarstjórnarkosninganna þrjú talsins; A-listi Framtíðarinnar, D- listi Sjálfstæðisflokks og S-listi Samfylkingarinnar og óháðra.Ekkert varð úr framboði F-listans undir forystu Skafta Harðarsonar, formanns Samtaka skattgreiðenda, eins og til stóð.
Að sögn Skafta má meðal annars rekja ákvörðunina til persónulegra ástæðna en þá hafi endurnýjun á listum flokkanna í sveitarstjórn einnig haft áhrif.
„Það er mikil endurnýjun í meirihlutanum og við töldum einfaldlega að grunnurinn væri ekki sambærilegur við það sem var fyrir fjórum árum. Þannig að það var í rauninni ákveðið að kljúfa ekki þá borgaralegu hreyfingu á Nesinu meira en þörf væri á og bjóða ekki fram að þessu sinni.“
Skiptar skoðanir voru um ákvörðunina en á endanum varð þetta niðurstaðan, segir Skafti. hmr@mbl.is