[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjartur hefur endurútgefið bókina Dauðinn og mörgæsin eftir Andrej Kúrkov. Kúrkov er einn frægasti höfundur Úkraínu. Dauðinn og mörgæsin skaut honum upp á stjörnuhimin heimsbókmenntanna og hefur verið þýdd á hátt í fjörutíu tungumál.

Bjartur hefur endurútgefið bókina Dauðinn og mörgæsin eftir Andrej Kúrkov. Kúrkov er einn frægasti höfundur Úkraínu. Dauðinn og mörgæsin skaut honum upp á stjörnuhimin heimsbókmenntanna og hefur verið þýdd á hátt í fjörutíu tungumál. Hún kom fyrst út á íslensku árið 2005 en er nú endurútgefin.

Sögusviðið er Úkraína eftir að Sovétríkin hafa liðast í sundur. Viktor, lánlaus og hæglátur rithöffundur, býr í lítilli blokkaríbúð ásamt þunglyndri mörgæs sem hann hefur tekið í fóstur af fjárvana dýragarði Kíev. Dag nokkurn er hann ráðinn í lausamennsku við dagblað til að skrifa minningargreinar um mikilsháttar menn í samfélaginu sem blaðið vill hafa til taks þegar viðkomandi hrekkur upp af. Skyndilega virðist veröldin brosa við Viktori. En eftir því sem dagarnir líða flækist heimilislíf hans meira og meira, auk þess sem starf hans á blaðinu hefur ýmislegt miður heppilegt í för með sér.

Áslaug Agnarsdóttir þýddi úr rússnesku.

Rauð rúlletta eftir Desmond Shum er komin út hjá Uglu.

Um er að ræða frásögn innanbúðarmanns af auðæfum, völdum, spillingu og hefnd í Kína okkar daga. „Bókin sem yfirvöld í Kína vilja alls ekki að þú lesir,“ segir CNN.

Desmond Shum ólst upp í fátækt í Kína. Hann hét sjálfum sér því að brjótast til mennta og auðlegðar. Með mikilli vinnu og þrautseigju tókst honum að ljúka háskólaprófum í Bandaríkjunum. Hann sneri síðan heimleiðis, staðráðinn í að láta að sér kveða í ört vaxandi viðskiptalífi. Þar kynntist hann tilvonandi eiginkonu sinni, hinni gáfuðu og metnaðarfullu Whitney Duan sem var ákveðin í að hasla sér völl í karlasamfélaginu í Kína.

Þau voru sannkallað draumteymi og létu fljótt að sér kveða. Með því að mynda tengsl við æðstu meðlimi Kommúnistaflokksins, hina svokölluðu Rauðu aðalsstétt, komust þau brátt í hóp kínverskra milljarðarmæringa. Þau reistu meðal annars eitt fínasta hótelið í Bejing, gríðarstóra flugfraktaðstöðu á alþjóðaflugvellinum og fjármögnuðu ýmsar risaframkvæmdir.

Desmond og Whitney voru áberandi, ferðuðust i einkaþotum og keyptu dýr híbýli, farartæki og listaverk. En árið 2017 urðu straumhvörf í lífi þeirra. Desmond var þá erlendis með ungum syni þeirra þegar hann frétti að Whitney væri horfin ásamt þremur vinnufélögum.

„Í þessari einstöku og upplýsandi bók sviptir höfundur hulunni af ráðandi elítu í Kína og afhjúpar hvað raunverulega gerist á bak við luktar dyr í fjármálaheiminum í þessu fjölmennasta ríki heims þar sem leynd og ógn hefur löngum verið ráðandi,“ segir í kynningu útgefanda.

Jón Þ. Þór þýddi.