Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir fór með sigur af hólmi í söngkeppninni Vox Domini, sem Félag íslenskra söngkennara hélt í fyrsta sinn 2017. Hún sigraði í opnum flokki, sem er fyrir keppendur sem lokið hafa bakkalárprófi, og hlaut jafnframt viðurkenninguna Rödd ársins.
„Sigurinn er mikill heiður og ég átti ekki von á þessu en hann hefur ótrúlega mikla þýðingu fyrir mig,“ segir Ragnheiður um keppnina í liðinni viku. Hún fái til dæmis að halda tónleika í tónleikaröðinni „Á ljúfum nótum“ í Fríkirkjunni, og komi fram á sönghátíð í Hafnarborg í sumar. „Ég vona líka að keppnin veki athygli á ungum söngvurum á Íslandi. Hún er eina keppnin í klassískum söng hérlendis og því ótrúlega gott tækifæri fyrir söngnemendur til að koma fram fyrir framan fullan sal af fólki í jákvæðu og hvetjandi andrúmslofti.“
Áhugavert mastersverkefni
Ragnheiður hóf söngnám hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur eða Diddú í Tónlistarskólanum í Reykjavík, nú Menntaskóli í tónlist, 2015 eftir að hafa verið í fiðlunámi frá 2006. Hún brautskráðist frá Listaháskóla Íslands í fyrravor með tvöfalda bakkalárgráðu í fiðluleik og söng með hljómsveitarstjórn sem aukafag, er nú í meistaranámi við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og útskrifast vorið 2023.„Ég vil reyna að halda öllum dyrum opnum og sjá hvaða tækifæri bjóðast,“ segir Ragnheiður um framhaldið. Nú vinni hún að mastersverkefni þar sem hún skoði hvernig syngja megi einsöng með hljómsveit og stjórna henni um leið. „Þetta er einstaklega spennandi verkefni enda sérstakt, en ólíkt hljóðfæraleikurum er söngvari svo heppinn að hafa tvær lausar hendur til að stjórna á meðan hann syngur. Það er mjög áhugavert að hafa sömu manneskju sem einsöngvara og stjórnanda í stað þess að tveir skipti hlutverkunum á milli sín, persónur sem eru kannski ekki fullkomlega sammála um túlkun tónlistarinnar. Spennandi verður að sjá hvernig hljómsveitin bregst við þessari stöðu.“
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ragnheiður öðlast mikla reynslu í leiklist, söng og hljómsveitarstjórn og komið fram sem fiðluleikari á tónleikum og hátíðum hérlendis og erlendis, síðast á tónleikum Sinfó í Hörpu í fyrrakvöld. Hún hefur meðal annars gegnt stöðu konsertmeistara Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og Sinfóníuhljómsveitar MÍT og var valin í hljómsveitarstjóraakademíu Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir handleiðslu Evu Ollikainen haustið 2020.
„Á mastersprófstónleikum mínum í Stokkhólmi eftir rúmt ár kem ég fram og stjórna og syng einsöng með hljómsveit,“ upplýsir Ragnheiður og segir að fyrirkomulagið sé fátítt. Barbara Hannigan, sópran og hljómsveitarstjóri frá Kanada, sé þekktust á þessu sviði og mikill hvalreki sé að fá hana til landsins, en hún stjórni Sinfóníuhljómsveit Íslands á Listahátíð í júní og verði einsöngvari á sama tíma. „Örfáir söngvarar hafa gert þetta og ég er spennt að fylgjast með henni, því hún er mögnuð og ákveðin fyrirmynd.“