Borgarstjórn vísaði á dögunum tillögu Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að Orkuveitunni, OR, verði falið að skoða virkjunarmöguleika á starfssvæði sínu til stjórnar OR. Inntur álits á þessu sagðist Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, „vara stórlega við virkjanagræðgi“ og sagði „enga ástæðu til að hlaupa núna“. Hann sagði þó að fylgt væri „fullnýtingarstefnu“, nema hvað, og að vilji væri til að nýta virkjanir betur.
Vissulega er jákvætt að forstjórinn sé ekki alfarið á móti orkuvinnslu, en í ljósi þess að skortur hefur verið á orku og að ekkert útlit er fyrir að það breytist, nema síður sé, þá gefa viðbrögðin ekki góðar vonir um að OR verði hluti af lausn orkumála landsins.
Fyrir þinginu liggur nú frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að breyta lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun á þann veg að hægt verði að stækka virkjanir með það að markmiði að hraða framkvæmdum við að auka afkastagetu.
Þetta er jákvæð lagfæring á lögunum, en dugar ekki til þegar fyrir liggur að lagaramminn um þessi mál hefur ítrekað verið misnotaður til að koma í veg fyrir framkvæmdir.
Augljóst er að þörf er á viðhorfsbreytingu í þessum málaflokki sé alvara á bak við þau orð að Ísland eigi að auka innlenda orkunotkun, og þó ekki væri nema til þess eins að tryggja nauðsynlega orku við núverandi skipan orkumála.