Magnús G. Ólafsson fæddist á Mýrargötu 16 í Reykjavík 21. janúar 1942. Hann lést á heimili sínu 3. apríl 2022.

Foreldrar Magnúsar voru Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 17.11. 1903, d. 7.4. 1993, og Ólafur Kr. Jónsson, f. 11.6. 1897, d. 2.8. 1971. Magnús var yngstur systkina sinna, þeirra Þóru, d. 2001, Theódóru og Jóns Þórs.

Magnús giftist Margréti Þorvaldsdóttur 21. september 1962. Þorsteinn B. Gíslason gaf þau saman í Steinnesi, Austur-Húnavatnssýslu.

Börn Magnúsar og Margrétar eru: 1) Jónína, f. 1963, maki Ragnar Aðalsteinsson, f. 1963, synir þeirra a) Hjalti, f. 1988, b) Aðalsteinn, f. 1994, í sambúð með Júlíu Hafþórsdóttur, f. 1994, eiga þau Ragnar, f. 2018. 2) Ingibjörg Ólöf, f. 1971, börn hennar eru a) Guðjón Hilmarsson, f. 1993, b) Ólafur Baldur Ingvarsson, f. 1999, og c) Marta Magnea Ingvarsdóttir, f. 2001. 3) Ólafur Kristinn, f. 1973, maki Heiðdís Hermannsdóttir, f. 1966. Dætur Ólafs eru a) Sólveig Ósk, f. 1993, maki Emily Rose Óla Bridger, f. 1991, sonur þeirra Noah Brim Bridger, f. 2021, b) Margrét Ýr, f. 1997, sambýlismaður Sigurður K. Jónsson, f. 1996, og c) Anna Lilja, f. 1999.

Magnús ólst upp í Vesturbænum, gekk í Melaskólann, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og 16 ára hóf hann nám í húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík. Magnús útskrifaðist með sveinsbréf í húsasmíði í desember 1962 og meistarabréf 1968. Ævistarf Magnúsar var við trésmíðar. Síðustu æviárin naut hann sín við útskurð.

Útför Magnúsar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 12. apríl 2022, klukkan 13.

Í dag kveð ég þig, elsku pabbi, með trega en hlýhug. Við náðum að fagna saman stórafmæli þínu í janúar þegar þú varðst áttræður en síðan þá hefur heilsu þinni hrakað jafnt og þétt. Það var svo sárt að sjá hvernig lífið tók beygju og við tók bið eftir því óhjákvæmilega þar sem brekkan varð bara brattri allt til enda. En minning þín lifir með okkur sem eftir erum og munum við sakna þín mikið. Minningar mínar eru margar og spanna vítt og breitt. Sem lítill strákur í fanginu þínu í eldhúsinu í Gautlandi 5 og síðar í bílskúrnum í Heiðargerðinu þar sem brösuðum mikið saman. Það var fátt sem þú gast ekki smíðað eða útbúið á snilldarlegan hátt þannig að úr varð eitthvað nytsamlegt og fallegt. Leikföng, húsgögn, ýmsar gjafir og listaverk urðu til í bílskúrnum. Það er ekki hægt að telja það allt upp sem þú bjóst til svo listavel af natni, nákvæmni og endalausri þolinmæði. Það var alltaf hægt að sækja þekkingu og ráð til þín þegar til stóð að framkvæma eitthvað, þar kom ég aldrei að tómum kofanum. Síðustu árin fórstu meira út í það sem við kölluðum okkar á milli „dudd og fínt“. Þú tileinkaðir þér að skera út og tálga og gerðir af þinni einstöku lagni mörg listaverk, gestabækur og klukkur í fyrstu, en síðar, ýmiskonar veggplatta og lampa auk fugla sem þú tálgaðir og málaðir. Fallega útskornir íslenskir fuglar eftir þig eru víða, en eins og áður segir þá lék þetta allt í höndunum á þér.

Ég minnist líka ferðalaga. Þú hafðir gaman af því að ferðast. Keyrðir um Ísland vítt og breitt og varst víða vel kunnugur staðháttum, eða það fannst mér sem barni, enda landakortið ávallt með og mikið skoðað. Þórsmörk var þér kær. Ég man eftir svo mörgum ferðum þangað með ykkur mömmu og Inguló. Þið mamma fóruð líka víða, bæði innanlands og utan, og nutuð þess að skoða nýja staði, upplifa og njóta saman.

Eftir að ég fór að búa og eignaðist börn var ég heppinn að eiga þig að. Þú varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa mér með mitt bras. Þú máttir alltaf vera að því að hjálpa mér og ráðleggja.

Ég var svo heppinn að fá að vinna með þér um tíma. Fyrst þegar ég var 12 eða 13 ára. Þá varstu að vinna sjálfstætt og vantaðir „handlangara“ þetta sumarið, við getum sagt að þá hafi formleg kennsla í að vinna hafist. Næst unnum við svo saman á sviði Þjóðleikhússins. Þá varstu hættur sem yfirsmiður á smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og varst kominn á sviðið sem sviðsmaður. Þar eins og annars staðar varst þú vel liðinn, naust þín í starfi og ég var heppinn að upplifa það með þér sem unglingur. Síðar unnum við svo saman þegar ég ákvað að feta í þín fótspor og læra húsasmíði. Þú varst búinn að kenna mér mikið fyrir þann tíma en þarna lágu leiðir okkar aftur saman og ég lærði mikið af þér og félögum okkar hjá Aðalvík. Þessi tími er mér kær.

Minningarnar eru svo margar og góðar.

Þú gerðir allt vel og ég er endalaust stoltur af þér.

Blessuð sé minning þín, elsku pabbi.

Ólafur Kristinn Magnússon.

Elsku besti afi okkar.

Við eigum erfitt með að trúa því að þessi dagur sé runninn upp – dagurinn sem við þurfum að kveðja þig.

Minningar okkar um þig eru óteljandi og hjartahlýrri mann er erfitt að finna, alltaf fyrstur til þess að stökkva til og hjálpa þegar á reyndi. Þú hefur verið svo stór partur af okkar uppvaxtarárum og höfum við alltaf litið upp til þín með aðdáunaraugum.

Það fyrsta sem okkur dettur í hug þegar við hugsum um afa er griðastaðurinn hans – bílskúrinn, vasahnífurinn sem fylgdi honum hvert sem hann fór, köflóttu skyrturnar hans og fréttir – því það mátti ekki missa af einum einasta fréttatíma. En mikilvægast af öllu – öll ævintýrin okkar saman, ferðirnar út á sjó á Flanka að veiða, bíltúrarnir á Flankastaði, allar milljón útilegurnar í tjaldvagninum og sumarbústaðaferðirnar.

Þú hefur kennt okkur margt í gegnum árin – allt frá því að tálga og veiða í það að keyra bíl, aðallega þá að taka af stað í brekku með hjálp handbremsunar. Það er því meðal annarra honum að þakka að við séum allar nokkurn veginn hæfir ökumenn í dag.

Þegar við áttum heima í Danmörku komu amma og afi í ófáar heimsóknirnar til okkar. Þá var lagt land undir fót og landið kannað eins og þeim einum er lagið. Farið í sumarbústaði, tívolí og lautarferðir í hina ýmsu skóga og ævintýragarða.

Í seinni tíð þegar við urðum eldri var alltaf hægt að leita til afa með hin ýmsu vandamál. Heimili ömmu og afa hefur verið og er alltaf opið upp á gátt fyrir okkur fjölskylduna og Heiðargerði hefur alltaf verið eins og okkar annað heimili. Afi sá til þess að öll barnabörnin fengju lykla að húsinu og komum við því og fórum eins og okkur hentaði. Það var því ekki spurning hvert ætti að snúa sér þegar við allar systurnar – á mismunandi tímum – vantaði tímabundið nýtt heimili og var okkur alltaf tekið opnum örmum. Við erum þeim ævinlega þakklátar fyrir það og fyrir tímann okkar saman sem gerði okkur enn nánari.

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið erfiðir. Það var erfitt að horfast í augu við veikindin þín og hvernig þau smátt og smátt tóku frá þér allt sem þér þótti gaman að gera. En við erum samt þakklátar fyrir þennan tíma okkar saman og hafa geta verið til staðar fyrir þig og ömmu. Við lofum að halda áfram að vera til staðar og hugsa vel um ömmu.

Minning okkar um þig lifir áfram í hjörtum okkar og öll fallegu listaverkin þín sem skreyta heimilin okkar minna okkur á þig á hverjum degi.

Við elskum þig.

Knús og kossar í sumarlandið,

Sólveig Ósk, Margrét Ýr og Anna Lilja.

Elsku afi minn, það sem ég á eftir að sakna þín. Núna skiljast leiðir okkar en vonandi eigum við eftir að sameinast aftur. Minning þín lifir því þú varst einstakur afi, alltaf gat maður hringt ef það var eitthvað og þú varst kominn áður en ég skellti á. Ferðin þín til Svíþjóðar ´69 verður hluti af minningunum um þig, því þér fannst ekki leiðinlegt að segja þá sögu.

Alltaf var gott að kíkja til ykkar ömmu í kaffi, þrátt fyrir að áhugamál okkur væru ekki í sama herbergi og þögnin næði okkur var nærveran betri en fjarveran.

Afi minn, vonandi hefur þú fundið þér nýjan skúr til að bardúsa í og sinna áhugamálum þínum. Dag einn mun ég banka upp á með kaffi til að sjá hvað þú hefur tekið þér fyrir hendur.

Afi, ég elska þig, sakna þín, hvíldu í friði.

Þinn

Guðjón.

Ég minnist tengdaföður míns Magnúsar Ólafssonar með miklu þakklæti. Ég var á unglingsaldri þegar við fyrst hittumst og hann sjálfur ungur maður, líklega aðeins 37 ára.

Hann tók mér vel og fljótlega varð ég heimagangur á heimili hans og Margrétar í Gautlandi 5 í Reykjavík.

Nokkrum árum síðar þegar þau stækka við sig og flytjast í Heiðargerði 19 fluttist ég inn til þeirra og bjó þar þangað til við Jónína fórum að búa að Mýrargötu 16 sem reyndar var æskuheimili Magnúsar.

Það má því segja að Magnús hafi verið partur af mínu lífi í langan tíma og hef ég og aðrir sem tengjast honum notið alúðar hans og hjálpsemi í gegnum árin.

Minningarnar eru margar og ein sem lýsir Magnúsi vel er frá því hann eignaðist hús með langþráðum bílskúr, þá fannst honum ekkert tiltökumál þó ég flytti inn í bílskúrinn með gamlan hálfuppgerðan jeppa og væri þar næstu árin og ekki nóg með það heldur lagði hann sitt til verksins og sprautaði bílinn og setti þar með endapunktinn á verkið.

Þetta er aðeins eitt dæmi um hans stuðning við mig en þau atriði áttu eftir að verða mörg og af ýmsum toga. Mér er minnisstæð verslunarmannhelgi þegar við unglingarnir fórum í Þjórsárdal og eitthvað fór úrskeiðis varðandi bílinn sem við vorum á, líklega vegna glannaaksturs. Þá hringir Jónína í pabba sinn og biður hann að sækja sig og félagana sem var auðsótt mál af hans hálfu. Mér fannst þetta frekar óþægilegt og var með kvíðahnút í maganum og óttaðist að fá skammir fyrir að vera með þetta vesen.

Sá kvíði reyndist algerlega óþarfur því þegar hann kom á staðinn stökk hann út úr bílnum og sagði „mikið var ég heppinn að þið fóruð ekki á Hornafjörð“. Svona var Maggi, tók hlutunum af æðruleysi og gerði sér ekki rellu út af smámunum.

Þegar barnabörnin komu og fóru að vaxa úr grasi tók hann virkan þátt í þeirra lífi en öll áttu þau öruggt skjól hjá afa og ömmu í Heiðargerði um lengri eða skemmri tíma enda alltaf pláss hjá þeim. Til varð frasinn „hjálparsveitin afi“ enda var nánast sama hvað upp á kom, alltaf var hægt að hringja í afa þegar þurfti að smíða eitthvað eða flytja eitthvað úr stað eða á milli húsa og svo var skúrinn hans afa fullur af allskyns verkfærum sem auðsótt var að fá lánuð þegar þurfti.

Maggi var mikill hagleiksmaður og bar heimili hans þess glögg merki enda smíðaði hann nánast það sem hann vantaði hverju sinni, hvort sem um var að ræða innréttingar, tjaldvagn eða bát til að sækja sér í soðið. Það var bara farið út í skúr og hluturinn smíðaður og svo þegar starfsævinni lauk tók útskurður við af miklu listfengi. Mörg af þessum listaverkum hans Magga prýða heimilið að Heiðargerði en einnig heimili barna og barnabarna hans.

Nú þegar komið er að leiðarlokum hjá þér, kæri tengdapabbi minn, vil ég þakka þér fyrir samfylgdina í gegnum árin og allan þann stuðning sem ég fékk notið frá þér. Vinátta þín í minn garð er mér ómetanleg og óska ég þér góðs gengis á þeim leiðum sem nú taka við hjá þér.

Hvíldu í Guðs friði.

Þinn tengdasonur,

Ragnar Aðalsteinsson.