Jón Sigfússon fæddist í Keflavík 9.ágúst 1943. Hann lést á Hrafnistu Nesvöllum 4. apríl 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Sigfús Guðmundsson, f. 26. mars 1909, d. 5. ágúst 1969, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 13. desember 1912, d. 10. október 2002.

Jón var næstyngstur í systkinahópnum, systkinin eru Sólveig Guðmunda Sigfúsdóttir, f. 20. ágúst 1939, Eygló Sigfúsdóttir, f. 17. apríl 1942, og Helgi Sigfússon, f. 16. apríl 1949.

Jón kvæntist Ernu Sigríði Einarsdóttur, hún er fædd í Njarðvík 24. maí 1944. Þau ganga í hjónaband 20. júní 1965 en þá voru þau þegar byrjuð að búa og orðin tveggja barna foreldrar.

Jón og Erna eignuðust þrjú börn, barnabörnin eru orðin tíu og eitt barnabarnabarn.

Börn þeirra eru:

1) Tryggvi Daníel, f. 10. október 1962, börn hans eru: Thelma Rut, f. 25. september 1985, Helena Ýr, f. 22. nóvember 1987, Jón Þór, f. 28.desember 1991, Gabríel Ari, f. 7. apríl 2003, og Viktoría Sól, f. 27. apríl 2004.

2) Ingibjörg, f. 25. desember 1964, maki Ásgeir Eyþórsson, f. 28. ágúst 1969, og börn þeirra eru: Ágúst Elí, f. 6. október 1997, og Arnar Þór, f. 25. febrúar 2003.

3) Anna María, f. 4. júní 1980, maki Emil Hjálmtýr Hafsteinsson, f. 1. júní 1976, og börn þeirra: Hafsteinn, f. 5. september 2006, Arna Dís, f. 26. desember 2010, og Harpa Lind, f. 2016.

Jón er fæddur og uppalinn á Tjarnargötunni í Keflavík, flytur svo yfir til Njarðvíkur til að hefja búskap og eignast heimili með sinni konu.

Jón var með barnaskólapróf. Jón starfaði við hin ýmsu störf allt fá því að vera í sveit, vinna sem sendill í Kaupfélaginu, fór ungur á sjó, vann mörg ár hjá varnarliðinu og seinna hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, hann vann hin ýmsu verkamanna- og tæknistörf.

Jón var þúsundþjalasmiður og lék allt í höndum hans sem hann fékkst við, hann rak bílaverkstæði, átti trillu og seinna pizzufyrirtæki, hann var í nefndum og stundaði stang- og skotveiði. Jón var lengi virkur meðlimur í Hjálparsveit skáta, meðal annar sem kafari.

Útför Jóns fer fram í Ytri Njarðvíkurkirkju í dag, 12. apríl 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag er til moldar borinn mágur minn Jón Sigurðsson Sigfússon, en hann var giftur systur minni Ernu Sigríði Einarsdóttur. Þau eignuðust einn son, tvær dætur og tíu barnabörn. Jón og Erna áttu frábært heimili, sem margir heimsóttu, og var vel tekið á móti þeim, sem þangað komu.

Jón var verulega fær í hvers konar störfum eins og smíðum, viðgerðum á bílum og hverju því sem hann fékkst við, enda eftirsóttur sem slíkur.

Þegar litið er yfir farinn veg er margs að minnast og margar góðar minningar koma fram þegar aldurinn eykst.

Spámaðurinn Kahlil Gibran segir: „Þú skalt ekki hryggjast þegar þú skilur við vin þinn, því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið af sléttunni.“

Kæru börn Jóns og Ernu, nánir ættingjar og vinir. Við sendum ykkur innilegustu samúðarkveðjur vegna andláts Jóns. Blessuð sé minning hans.

Sólmundur Tryggvi

Einarsson og Astrid

Einarsson.