Steinn Ágúst Baldvinsson fæddist 16. mars 1946 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu 15. mars 2022.

Foreldrar hans voru Baldvin Helgi Einarsson, f. 1915, d. 2002 og Gyða Steinsdóttir, f. 1914, d. 2005. Þau bjuggu í Reykjavík.

Systkini Steins eru: Haraldur, f. 1938, samfeðra, Hanna María, f. 1947, og Katrín, f. 1950.

Árið 1967 kvæntist Steinn Bryndísi Guðrúnu Guðmundsdóttur, f. 1946. Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson og Júlíana Sveinsdóttir, Skáleyjum Breiðafirði. Steinn og Bryndís eignuðust tvö börn, þau eru: 1) Einar Helgi, f. 1965, giftur Sigríði Sigurðardóttur. Börn þeirra eru Axel Ingi, f. 1999 og Fanney Ósk, f. 2001. 2) Gyða, f. 1970, sambýlismaður Baldur Þorleifsson. Synir þeirra eru Steinn Ágúst, f. 1994, d. 1995, Tómas Helgi, f. 2000, Ísak Örn, f. 2003 og Gestur Alexander, f. 2005. Steinn og Bryndís slitu samvistum árið 2002.

Steinn hóf sambúð með Sigrúnu Sigurjónu Ívarsdóttur, f. 1948, árið 2006. Foreldrar hennar voru Ívar Antonsson og Kristín Sigþrúður Sigurjónsdóttir. Dætur Sigrúnar úr fyrra hjónabandi eru: 1) Kristín Sigþrúður, f. 1968, maki Skúli Skúlason, börn þeirra eru Kolbrún Sif, f. 1994, Sigurður Ívar, f. 1997, og Anna Kristín, f. 2003. 2) Aðalbjörg Jóna, f. 1969, maki Valur Júlíusson, börn þeirra eru Björn Emil, f. 1988, Birta Dröfn, f. 1996 og sonur hennar er Valur Örn Viktorsson, f. 2020, Rebekka Eva, f. 1999, Júlía Snædís, f. 2002, Jóel Pálmi, f. 2004. 3) Hafdís Hrönn, f. 1971, maki Valdimar Júlíusson, börn þeirra eru Sigrún Sandra, f. 2001 og Sunneva Björk, f. 2004 4.) Sandra Dröfn, f. 1979, d. 1996.

Steinn Ágúst ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík. Hann gekk í Melaskólann og Gaggó Vest og stundaði síðar nám í Vélskólanum. Hann starfaði sem vélstjóri nær alla sína starfstíð, bæði til sjós og lands. Hann flutti með fjölskyldu sína til Stykkishólms 1974 og bjó þar til 1990 er hann flutti aftur til Reykjavíkur. Síðustu 21 ár starfaði hann sem vélstjóri hjá þvottahúsi Landspítalans eða þar til hann komst á eftirlaun.

Jarðarförin fór fram frá Grafarvogskirkju 25. mars 2022.

Elsku langafi, takk fyrir allar góðu stundirnar okkar saman. Það var alltaf svo skemmtilegt hjá okkur þegar við hittumst, þú ljómaðir eins og sólin og ég gerði það sama, við báðir brostum allan hringinn. Þegar við eyddum tíma saman var alltaf gaman, við vorum svo góðir vinir og mér þykir svo vænt um þig. Mamma ætlar að hjálpa mér að muna allar góðu stundirnar okkar saman og við hjálpumst að við að passa upp á langömmu.

Ég sakna þín elsku langafi.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

Þú varst ljós á villuvegi,

viti á minni leið,

þú varst skin á dökkum degi,

dagleið þín var greið.

Þú barst tryggð í traustri hendi,

tárin straukst af kinn.

Þér ég mínar þakkir sendi,

þú varst afi minn.

(Hákon Aðalsteinsson)

Valur Örn Viktorsson, langafastrákur.

Kæri Steinn þakka þér fyrir samferðina.

Þú yfirgafst þessa tilveru skyndilega svo enginn hafði tækifæri til að kveðja.

Bernska okkar fléttaðist snemma saman með sameiginlegri veru okkar á sumrin í Flatey á Breiðafirði, þar sem þú dvaldir í Eyjólfshúsi hjá afa og ömmu þinni, en ég í Vesturbúðum hjá afa og ömmu minni. Eftir að bernskunni lauk skildi leiðir um tíma þar til við höfðum mótað okkar lífsleið í stórum dráttum til framtíðar. Fyrst fórstu í skiprúm til Jóns frænda míns Einarssonar á Fanneyju RE 4 í síldarleitina, svo með honum á önnur skip hjá Hafrannsókn og síðar, eftir að vélstjórnarnámi lauk, í vélstjórn á hin ýmsu skip.

Eftir að ég kom úr siglingum endurnýjuðum við kynnin og dvöldum meðal annars við veiðiskap í Flateyjar- og Hergilseyjalöndum. Margar voru ánægjustundirnar þegar dvalið var í Flatey við að huga að húsunum sem voru á okkar herðum og ýmislegt annað brallað þar. Kynnin urðu nánari eftir að fjölskyldan ykkar Bryndísar fluttist í Stykkishólm.

Það var mér sérstakur happafengur þegar þú komst sem vélstjóri til útgerðar Flóabátsins Baldurs á því breytingaskeiði sem var á þeim tíma í rekstri útgerðarinnar og vil ég þakka þér fyrir framlag þitt sem, ásamt öðrum starfsmönnum, varð til þess að reksturinn hélst á floti þar til sýnt var að bílaferjan var mótuð og kom svo í fyllingu tímans.

Félagsmál stéttar þinnar og sjómanna voru þér alla tíð hugleikin og stóðstu ævinlega framarlega í baráttunni. Slagurinn um framkvæmd og uppbyggingu kvótakerfisins í árdögum varð til þess að þú dróst þig til hlés þegar þú sást hvernig málum var stýrt innan stéttarfélagana og hvernig réttur sjómanna til fiskveiða myndi þróast.

Þú varst ráðagóður og ávallt það bóngóður að mér fannst stundum að þarfir annarra væru framar þínum. Eftir að þið hjónin fluttust aftur til Reykjavíkur varstu eins og „sendiherra“ margra vinanna í dreifbýlinu og naut ég þá margra snúninganna fyrir mig.

Ekki slitnaði þráðurinn á milli okkar eftir að þið hjónin fluttust til Reykjavíkur og þú varðst yfirvélstjóri á fiskiskipum sem gerð voru út víða á landinu, skipi á humarveiðum frá Hornafirði og rækjuskipum frá Siglufirði og Kópaskeri. Tveimur skipum, sem seld voru úr landi, fylgdir þú til nýrra eiganda. Annað var selt til Írlands en hitt til Perú þar sem þú dvaldir um tíma á meðan heimamenn kynntust skipinu.

Eftir að þú hættir endanlega sjómennsku og komst alfarið í land af sjónum kom ég á verkstæðið í Þvottahúsinu nokkuð reglulega þar sem ég þáði ráð við tæknilegum spursmálum sem uppi voru hjá mér í það og það skiptið eða yfir kaffibolla, fyrst í Blöndubakka og svo í Eyjabakka. Svo voru heimsóknir okkar Aðalheiðar til ykkar Sigrúnar á Hofsós þar sem er svo yndislegt að vera. Á síðari árum fórum við í skemmtilegar utanlandsferðir með litla ferðaklúbbnum okkar. Nú horfir illa fyrir honum við brottför þína því ekki verður fyllt svo auðveldlega í skarðið.

Við Aðalheiður og fjölskylda vottum Sigrúnu, Einari Helga, Gyðu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð við andlát góðs vinar.

Guðmundur Lárusson.