Ný tækni sem mun stuðla að orkuskiptum flugvéla er enn á þróunarstigi. Þó er ljóst að innanlandsflug verður raunhæfur kostur fyrr en alþjóðaflug þar sem um styttri vegalengdir er að ræða.

Ný tækni sem mun stuðla að orkuskiptum flugvéla er enn á þróunarstigi. Þó er ljóst að innanlandsflug verður raunhæfur kostur fyrr en alþjóðaflug þar sem um styttri vegalengdir er að ræða. Icelandair hefur skrifað undir viljayfirlýsingar við tvö félög sem snúa að því að nýta annars vegar rafmagnsvélar og hins vegar flugvélar sem eru knúnar með vetni fyrir innanlandsflug á Íslandi. Býst fyrirtækið við því að kolefnislaust innanlandsflug geti orðið raunhæfur möguleiki á þessum áratug með innleiðingu þessarar nýju tækni.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, ræddi um skref félagsins í átt að orkuskiptum á ársfundi Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál.

„Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið fyrir árið 2030, við ætlum að minnka kolefnisútblástur í okkar rekstri um 50% á hvert rekstrartonn miðað við 2019,“ sagði Bogi Nils á fundinum.

Orkuskiptum má skipta í þrjá hluta, samgöngur á landi, hafi og í lofti. Tæknin er nú þegar til staðar fyrir einkabíla og Íslendingar hafa þar tekið stór skref í átt að rafbílavæðingu, það sem af er ári voru 30% allra nýskráðra bíla á Íslandi rafmagnsbílar. Aðeins lengra er í orkuskipti fyrir vörubíla og vinnuvélar, skip og flugvélar en á því sviði á mikil tækniþróun sér stað. Þar hefur Icelandair sett sér metnaðarfull markmið eftir því sem Bogi Nils nefndi á fundinum.

Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) hefur sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2050. Þar þarf að koma til sambland aðgerða, svo sem ný tækni, umbætur í rekstri, sjálfbært eldsneyti og að lokum kolefnisjöfnun. „Lykilatriði til þess að flugheimurinn nái þessu markmiði sínu í millilandaflugi er innleiðing á sjálfbæru flugvélaeldsneyti. Það er það sem mun hreyfa nálina áður en ný tækni verður komin fram á sjónarsviðið í millilandaflugi – og þar getur Ísland verið í fararbroddi og ákveðin fyrirmynd með græna orku,“ sagði Bogi Nils.

Icelandair og Landsvirkjun skrifuðu undir samning í upphafi árs sem snýr að því að þróa lausnir fyrir orkuskipti í flugi.