Guðrún Sigríður Kristjánsdóttir fæddist 3. janúar 1956. Hún lést 23. mars 2022.

Útför hennar fór fram 9. apríl 2022.

Ég stóð inni í Húsasmiðjunni með garðúðara í hendi þegar síminn hringdi. Ég sá að það var Kolbeinn bróðir minn. Það þyrmdi yfir mig því fyrr um morguninn var ákveðið að mín kæra systir færi á lífslokameðferð eftir hetjulega baráttu við Covid og aðra undirliggjandi sjúkdóma. Hann var að segja mér að Guðrún færi farin. Ég stóð lengi með garðúðarann í hendi og starði út í loftið en flýtti mér svo út áður en tárin færu að streyma.

Guðrún var einstök systir og átti stórt hólf í hjarta mínu. Æskuár okkar systkina voru ekki auðveld. Hún var elst okkar og tók á sig mikla ábyrgð, miklu meiri ábyrgð en nokkurt barn á að takast á við. Hún var sú sem ég lagði traust mitt á sem barn og unglingur. Hún var það akkeri sem ég gat alltaf lagt bát mínum við þegar stormar blésu. Hún var sú sem á sinn blíða hátt leiðrétti kúrsinn þegar stefnan var tekin upp í kletta og brotlending blasti við á mínum unglingsárum. Hún var sú sem ég gat alltaf leitað til. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Ég veit að margir aðrir eiga Guðrúnu mikið að þakka. Hún hafði þann einstaka eiginleika að laða til sín þá sem áttu um sárt að binda eða voru villtir á lífsins vegi og það var margt ungt fólk sem leitaði til hennar, bæði sem kennara og svo sem skólastjóra. Fundu hjá henni þá hlýju og skilning sem þau þurftu.

Guðrún flutti norður á Daðastaði, þvert yfir landið, og gerðist bóndi fyrir um það bil 40 árum ásamt Gunnari Einarssyni. Þá varð erfiðara að leita í öryggi og visku systur minnar þegar ungur maður þurfti á að halda. Stundum tók maður sig þó til og keyrði norður. Ég man vel þær stundir er við sátum úti í haga, ræddum æskuár okkar og ýmis önnur mál, og já, mörg voru símtölin. Alltaf fór maður betri maður frá slíku spjalli.

Guðrún mátti ekkert aumt sjá og hún var alltaf tilbúin til að rétta öðrum hjálparhönd og oft held ég að hún hafi gleymt að hlúa að sjálfri sér og hennar þarfir lent í öðru og þriðja sæti. Eitt er þó öruggt. Inneign hennar á reikningi almættisins er góð og ég hugga mig við það að þar hefur verið tekið vel á móti henni og hún getur nú notið ávaxtanna af því sem hún lagði þar inn á sinni göngu hér á jörðu.

Síðustu árin voru ekki auðveld fyrir Guðrúnu og á endanum var það Covid sem sló lokahöggið og lagði hana að velli.

Elsku Gunnar, Kiddi, Óli, Lísa, Reynir og Birkir. Við Elsa færum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jakob Kristjánsson.