10 Daníel Finns Matthíasson er í stóru hlutverki hjá Leikni R.
10 Daníel Finns Matthíasson er í stóru hlutverki hjá Leikni R. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besta deildin Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Reykjavíkurfélögin Leiknir og Fram eru ásamt Keflvíkingum þau þrjú lið sem sérfræðingar Morgunblaðsins telja líklegast að verði í fallbaráttu Bestu deildar karla í fótboltanum á komandi keppnistímabili.

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Reykjavíkurfélögin Leiknir og Fram eru ásamt Keflvíkingum þau þrjú lið sem sérfræðingar Morgunblaðsins telja líklegast að verði í fallbaráttu Bestu deildar karla í fótboltanum á komandi keppnistímabili.

Leiknismenn fengu flest stig af þessum þremur liðum og ættu samkvæmt því að halda sæti sínu áfram en þeir komu á óvart sem nýliðar í deildinni í fyrra og héldu velli af nokkru öryggi. Sigurður Heiðar Höskuldsson hefur vakið athygli sem efnilegur þjálfari liðsins en hann fór með liðið upp og hélt því þar.

Þeir héldu sér þó að talsverðu leyti uppi á mörkum Sævars Atla Magnússonar en hann skoraði tíu af 18 mörkum Breiðholtsliðsins, sem skoraði ekki nema þrjú mörk í síðustu sjö leikjunum eftir að Sævar fór til Lyngby í Danmörku.

Leiknismenn hafa nú fyllt skarð Sævars með danska markaskoraranum Mikkel Dahl, markakóngi Færeyja í fyrra. Þeir hafa líka bætt við sig Dananum Mikkel Jakobsen og pólska miðjumannnum Maciej Makuszewski, sem á landsleiki að baki. Þá sneru Óttar Bjarni Guðmundsson og Sindri Björnsson heim í Breiðholtið frá Akranesi og Grindavík.

Leiknir er því með sterkari hóp en í fyrra en markvarslan er spurningarmerki. Guy Smit fór í Val og Viktor Freyr Sigurðsson er reynslulítill en efnilegur arftaki hans.

Tvenns konar tímamót

Framarar hafa átt mikilli velgengni að fagna í 1. deildinni undanfarin tvö ár. Þeir voru óheppnir að fara ekki upp haustið 2020 en fylgdu því eftir með enn betra tímabili 2021. Jón Þórir Sveinsson er á sínu fjórða ári með lið Fram, sem er loksins aftur í efstu deild eftir sjö erfið ár.

Framarar eru líka á annars konar tímamótum þar sem þeir eru að flytja á nýjan heimavöll í Úlfarsárdal, sem reyndar er ekki tilbúinn fyrir fyrsta leik.

Hætt er við að tímabilið verði erfitt fyrir Framara sem hafa ekki fengið mikinn liðsauka. Þeir misstu Kyle McLagan, besta varnarmann 1. deildar, til Víkings og bakvörðurinn Haraldur Einar Ásgrímsson fór í FH. Í staðinn hafa þeir fengið miðjumanninn Tiago Fernandes aftur frá Grindavík og bakvörðinn Jesús Yendis frá Venesúela. Einnig danska framherjann Jannik Pohl en óvíst er hvenær hann verður leikfær vegna meiðsla. Það er því eðlilegt að Fram sé spáð erfiðri fallbaráttu.

Sluppu fyrir horn í fyrra

Keflvíkingar eru á öðru ári í deildinni og héldu sér naumlega uppi á einu stigi síðasta haust. Þeir sluppu fyrir horn í síðustu umferðinni og fengu meirihlutann af sínum stigum á miðju sumri, þegar þeir slitu sig frá neðstu liðunum, en unnu síðan aðeins einn af síðustu níu leikjum sínum.

Ástralinn Joey Gibbs hélt Keflavík uppi í fyrra með tíu mörkum en nú liggur fyrir að hann verður ekkert með í júlí og verður því fjarverandi í einum fimm leikjum. Keflavík hefur hinsvegar fengið færeyska landsliðsmanninn Patrik Johannesen til að styðja við Gibbs í sókninni, Dani Hatakka sem er finnskur miðvörður og hinn reynda Sindra Snæ Magnússon á miðjuna.

Keflavík hefur misst Ástbjörn Þórðarson til FH og Davíð Snæ Jóhannsson til Lecce á Ítalíu. Sigurður Ragnar Eyjólfsson er nú einn með lið Keflavíkur en hann og Eysteinn Hauksson stýrðu því saman undanfarin tvö ár og Eysteinn í hálft annað ár þar á undan.

Neðstu þrjú lið Bestu deildar karla

Tuttugu sérfræðingar og aðrir áhugasamir um fótbolta, sem starfa hjá eða skrifa fyrir miðla Árvakurs, Morgunblaðið, mbl.is og K100, tóku þátt í spá blaðsins fyrir Bestu deild karla í fótbolta. Í dag birtum við hvaða lið urðu í þremur neðstu sætunum í spánni og ættu samkvæmt því að vera í erfiðri fallbaráttu á komandi keppnistímabili sem hefst með leik Víkings og FH á mánudagskvöldið kemur.

Þessi þrjú lið eru Leiknir úr Reykjavík sem varð í 10. sæti í spánni með 64 stig, Fram sem varð í 11. sæti með 60 stig og Keflavík sem varð í 12. og neðsta sæti með 41 stig.