Svartsýnn Karl Nehammer mætir til blaðamannafundar í Moskvu.
Svartsýnn Karl Nehammer mætir til blaðamannafundar í Moskvu. — AFP/Natalia Kolesnikova
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, sagði í gær að hann væri svartsýnn á að hægt yrði að semja um frið í Úkraínustríðinu eftir að hann fundaði með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu í gær.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, sagði í gær að hann væri svartsýnn á að hægt yrði að semja um frið í Úkraínustríðinu eftir að hann fundaði með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu í gær.

Sagði Nehammer eftir fundinn að Pútín væri genginn „rökhyggju stríðsins“ á hönd og því teldi hann að viðræður á milli Úkraínumanna og Rússa ættu lítinn möguleika á að skila árangri. „Því friðarviðræður taka alltaf langan tíma, á meðan rökhyggja stríðsins segir „ekki eyða of miklum tíma og farðu beint í orrustu“,“ sagði Nehammer á blaðamannafundi sínum.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins funduðu í gær í Lúxemborg og ræddu þar hvaða frekari refsiaðgerðir gætu komið til greina. Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði að ekkert væri útilokað og að vel kæmi til greina að setja viðskiptaþvinganir á viðskipti með rússneska olíu og jarðgas.

Ekkert í þá veru var hins vegar ákveðið á fundinum, en þess í stað samþykktu ráðherrarnir að bæta 500 milljónum evra, eða sem nemur tæpum 70 milljörðum íslenskra króna, í hernaðaraðstoð fyrir Úkraínumenn, en áður hafði sambandið samþykkt að senda um einn milljarð evra í slíka aðstoð.