Sorg Kjósendur Davids Amess syrgðu andlát hans mjög.
Sorg Kjósendur Davids Amess syrgðu andlát hans mjög. — AFP/Tolga Akmen
Íslamski öfgamaðurinn Ali Harbi Ali var í gær fundinn sekur um morðið á David Amess, þingmanni breska Íhaldsflokksins, en Ali stakk hann til bana í bænum Leigh-On-Sea í október í fyrra, þar sem Amess var að hitta kjósendur sína.

Íslamski öfgamaðurinn Ali Harbi Ali var í gær fundinn sekur um morðið á David Amess, þingmanni breska Íhaldsflokksins, en Ali stakk hann til bana í bænum Leigh-On-Sea í október í fyrra, þar sem Amess var að hitta kjósendur sína.

Kviðdómur í málinu komst að einróma niðurstöðu um sekt Ali, en hann viðurkenndi við réttarhöldin að hann sæi ekki eftir því að hafa myrt Amess, og sagði rótina vera þá að hann hefði greitt atkvæði með loftárásum á Sýrland árin 2014 og 2015. Tók kviðdómurinn sér einungis um átján mínútur til að rökræða staðreyndir málsins áður en hann skilaði niðurstöðu sinni. Ali verður gerð refsing á morgun, miðvikudag, en að jafnaði liggur lífstíðarfangelsi án möguleika á náðun við morðum í bresku réttarkerfi.

Ali náði að koma sér á fund við Amess, þrátt fyrir að tilheyra ekki kjördæmi hans, með því að ljúga að starfsmönnum þingmannsins að hann væri heilbrigðisstarfsmaður sem vildi ræða mál sem snertu kjördæmið. Þegar þangað kom dró Ali upp hníf og stakk Amess um tuttugu sinnum. Var hann handtekinn á staðnum með morðvopnið í hendi. Ali hafði áður sent yfirlýsingu til fjölskyldu og vina til að réttlæta gjörðir sínar.

Ali var alinn upp af sómölskum innflytjendum, en snerist til bókstafstrúar árið 2014. Hafði hann íhugað að fara til Sýrlands til að berjast fyrir hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. Mun Ali hafa gengið um með morðvopnið í tösku sinni um mestallt sumarið 2021 í leit að mögulegum fórnarlömbum úr röðum stjórnmálamanna. Hafði hann meðal annars reynt að finna skotmörk við breska þinghúsið, en hvarf frá vegna öryggisgæslu.