Guðný Björnsdóttir fæddist á Ísafirði 20. júlí 1925. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 25. mars 2022.

Guðný var dóttir hjónanna Ingibjargar Jónsdóttur, f. 14.6. 1890, d. 3.10. 1985, húsmóður, og Björns Magnússonar, f. 26.4. 1881, d. 11.8. 1932, símstöðvarstjóra og útgerðarmanns á Ísafirði. Systkini Guðnýjar voru Jón, f. 7.2. 1910, d. 17.11. 1992, Guðrún, f. 11.11. 1916, d. 19.3. 1957, Magnús, f. 1.11. 1928.

Guðný giftist hinn 17.9. 1949 Kristjáni Sveinlaugssyni yfirumsjónarmanni á Ritsímanum í Reykjavík, f. í Mjóafirði 11.9. 1922, d. 19.8. 1981, syni Sveinlaugs Helgasonar, f. 5.2. 1890, d. 12.12. 1966, og Rebekku Kristjánsdóttur, f. 4.6. 1889, d. 2.9. 1984. Börn þeirra eru: 1) Björn, f. 3.5. 1950, maki Svanhildur Guðmundsdóttur, f. 22.5. 1954. Börn: a) Guðmundur Halldór, f. 3.9. 1974, maki Íris Hrund Halldórsdóttir, f. 2.10. 1979, börn þeirra Tara Sól og Hera Björk. b) Guðný, f. 21.2. 1989, c) Jón Arnar, f. 9.7. 1995. 2) Sveinlaugur, f. 17.1. 1952, maki Málfríður Jónsdóttir, f. 22.7. 1954. Börn: a) Guðný Björk, f. 17.10. 1975, maki Róbert Þórhallsson, 12.8. 1971, börn Guðnýjar Bjarkar, Erlingur Ævarr og Fríða Björk. b) Kristján Sveinlaugsson, f. 10.5. 1981, maki Matthildur Jóhannsdóttir, f. 19.4. 1981, börn þeirra Jóhann Ingi, Edda Björk og Elva Björk. c) Ingi Rúnar f. 10.3. 1988. 3) Kristján Kristjánsson, f. 6.9. 1955, maki Rut Bergsveinsdóttir, f. 25.9. 1957, d. 27.1. 2004. Börn: a) Rán Bachman, f. 1.10. 1986, maki Garðar Ingi Ingvarsson, f. 19.6. 1982. Börn þeirra Garðar, andvana fæddur 2007, Einar Valur, Alexander Valur og Ingvar Valur. b) Steinunn, f. 18.9. 1993. c) Andrés Lars, f. 2.3. 1995. 4) Gunnar Rúnar, f. 29.8. 1957, d. 7.9. 2021, maki Jóhanna Erla Pálmadóttir, f. 4.8. 1958. Börn: a) Helga, f. 21.1. 1983. b) Pálmi, f. 6.1. 1989, sambýliskona Þuríður Hermannsdóttir, f. 11.2. 1993. 5) Guðrún Rebekka, f. 25.7. 1959, maki Ómar Örn Ragnarsson, f. 5.2. 1959. Börn: a) Kristján Örn, f. 1.9. 1997 kærasta Snæfríður Birta, f. 17.11. 1997. b) Gunnar Örn, f. 9.10. 2001. Að auki á Ómar Örn tvö börn frá fyrra hjónabandi Jón Örn og Edit. 6) María Ingibjörg, f. 13.10. 1963. Barn: a) Arna, f. 29.12. 1986, unnusta Jóhanna Guðgeirsdóttir, f. 5.12. 1989.

Guðný ólst upp á Ísafirði til sjö ára aldurs og bjó fjölskyldan í símstöðvarhúsinu í Pólsgötu 10. Þegar pabbi hennar lést fluttist hún með móður sinni og yngri bróður til Akureyrar en eldri systkini hennar voru þá flutt að heiman. Guðný er gagnfræðingur frá Akureyri 1943, hún vann við ýmis störf á Akureyri en lengst af vann hún á símstöðinni, eða frá 1943. Hún vann við verslunarstörf til vors 1944. Þá hóf hún störf á símstöðinni á Akureyri og starfaði þar frá 1944-1950. Árið 1951 fluttust hún og Kristján, eiginmaður hennar, til Reykjavíkur og komu þau sér upp heimili í Laugarnesinu. Árið 1981 eftir lát Kristjáns hóf Guðný störf á leikskólanum Laugaborg og starfaði þar til sjötugs. Guðný var í kvenfélagi Laugarnessóknar og var í stjórn félagsins og lengi vel formaður þess.

Guðný verður jarðsungin frá Laugarneskirkju í dag, 12. apríl 2022,klukkan 13.

Fallin er frá í hárri elli elskuleg tengdamóðir mín.

Það er ekki sjálfgefið þegar ungt fólk fer að stinga saman nefjum að það falli inn í fjölskyldurnar sem fylgja með. Í mínu tilfelli var ég svo lánsöm að eignast yndislega tengdaforeldra en því miður þá féll Kristján alltof fljótt frá í blóma lífsins. Þrátt fyrir það gafst Guðný ekki upp og með reisn, sem hún hélt allt til loka, komst hún í gegn um lífið með dugnaði sínum og elju.

Guðný tengdamóðir mín hefði ekki getað reynst mér og fjölskyldu minni betri amma, tengdamóðir og vinur. Ég er óendanlega þakklát henni fyrir hversu vel hún ávallt reyndist okkur. Hún var hreinskiptin og stuttu, snjöllu tilsvörin hennar hreinsuðu oft hismið frá kjarnanum þegar aðrir reyndu að fara í kringum hlutina.

Hún elskaði sína fjölskyldu skilyrðislaust og tók lífinu jafnan með miklu æðruleysi. „Það er bara svona,“ sagði hún oft. Hún fylgdist alltaf með öllum sínum og einnig fjölskyldum okkar tengdabarna hennar. Frændgarðurinn og vinahópurinn var stór og alltaf var pláss á Laugarnesveginum þar sem Guðný ríkti með ljúfri en ákveðinni hendi, allir velkomnir hvort heldur var í mat eða gistingu. Guðný var mikill gleðigjafi, alltaf kát og aldrei var komið að tómum kofunum hjá henni. Minni óbrigðult og sem dæmi má nefna að þegar hún varð áttræð fórum við í bíltúr yfir á Sauðárkrók til að fá okkur afmæliskaffi. Hún taldi upp hverjir höfðu búið í húsunum í Aðalgötunni þegar hún kom þarna fyrst, á skipi frá Ísafirði, til að heimsækja ömmu sína og afa. Ég spurði í forundran hvað hún hefði verið gömul. „Ég var fjögurra ára! Heldur þú að maður muni þetta ekki?“ Hún hélt sínu frábæra minni fram á síðustu stundu.

Guðný var dugnaðarforkur og þegar hún var komin vel á fullorðinsár kom hún árlega norður í réttir allt fram undir nírætt og var að sjálfsögðu langelsti gestur réttanna! Dætur hennar voru duglegar að koma með hana norður og var það alltaf jafn skemmtilegt fyrir okkur hér á Akri. Nú verða þær ferðir ekki fleiri. Á meðan stætt var gekk hún mikið, þótt hálfblind væri orðin, og botnaði ekkert í þessu lata unga fólki sem var með henni á dvalarheimilinu. Það þrek sem hún safnaði á árum áður nýttist henni til enda. Síðastliðið ár reyndist Guðnýju minni erfitt og var hún hvíldinni fegin eða eins og hún sjálf sagði: „Þetta er komið gott! Ég vil, en guð ræður!“

Ég þakka elskulegri tengdamóður minni væntumþykjuna og samferðina á síðastliðnum 46 árum. Far þú í guðs friði með þökk fyrir allt og skilaðu hlýjum kveðjum yfir á sumarströndina þar sem þið Gunni ætluðuð að hittast.

Jóhanna Erla Pálmadóttir.

Ég kveð elsku ömmu með miklum söknuði í hjarta en jafnframt gleði fyrir hennar hönd að hafa fengið að fara, enda orðin vel mettuð af lífsins göngu. Ég upplifi mikið þakklæti fyrir þau forréttindi að hafa fengið að eiga hana svona lengi og fyrir allt sem hún kenndi mér og gaf. Amma var risastór partur af mínu lífi og í raun var hún ein af þremur mæðrum sem ég var svo heppin að eiga og sáu til þess að koma mér til konu.

Amma sá alfarið um kristilegt uppeldi mitt og tók þar hlutverki sínu sem guðmóðir mín mjög alvarlega. Hún sá til þess að kenna mér allar bænirnar, bæði kvöld- og morgunbænir, áður en ég hóf mína grunnskólagöngu og aðra hvora helgi fór hún með mig í sunnudagaskólann í Laugarneskirkju. Það uppeldi og ítrekaðar tilraunir hennar til að gera mig að sjálfstæðismanni urðu þó því miður að engu þegar ég komst á unglingsárin og upp reis vinstrisinnaður trúleysingi. En það var sennilega vegna þess að hún stóð sig betur í að kenna mér mikilvægi þess að standa með eigin skoðunum og vera ekki feimin við að láta þær í ljós. Amma kenndi mér einnig þá allra mikilvægustu lífsreglu og það er að allir fæðast jafnir og eiga rétt á sinni tilveru. Amma setti mark sitt á mín heimilisstörf og í raun var valdur margra samskiptaörðuleika í þeim sambúðum sem ég hef verið í yfir ævina ýmist með vinum eða mökum. Það var mér mikið sjokk að komast að því að það væru ekki allir jafn leiknir við að brjóta saman þvott og hún amma mín og í raun hefur mikilvægasta hlutverk mitt í sambúð verið að sjá um að brjóta saman allan þvott því ég að sjálfsögðu lærði af Guðnýju Björnsdóttur hvernig þvottur væri rétt brotinn saman. Einnig tók það langan tíma að sannfæra mig um að þurrkari væri ekki verkfæri djöfulsins líkt og amma hafði kennt mér. En Jóhanna unnusta mín hlustaði nú ekki á þá vitleysu og erum við stoltir eigendur þurrkara í dag sem amma var svo elskuleg að aðstoða okkur með að eignast. Bestu stundir okkar ömmu voru þó ævinlega í eldhúsinu. Matarást mín á ömmu Níní var sterk og fyrstu minningar mínar eru allar frá eldhúsinu á Laugarnesvegi 102, 4. hæð til vinstri, að sýsla með ömmu. Ég drakk í mig alla hennar matargerð og einsetti mér að verða sami snilldarbakarinn og hún. Eitt af mínum stoltustu augnablikum var þar af leiðandi þegar amma hrósaði fyrstu skinkuhornunum sem ég gerði án hennar aðstoðar. Ég gæti endalaust haldið áfram að rifja upp stundir okkar ömmu saman og segja frá þeim lífsreglum sem hún kenndi mér en það myndi sennilega fylla heilan Mogga. Hvíldu í friði elsku amma, ég veit að þú ert í góðum félagsskap og guð veri með þér.

Arna.

Elsku amma er dáin. Það er svolítið skrýtið að hugsa til þess að að við eigum aldrei eftir að tala við hana aftur. Amma var glöð kona sem passaði okkur oft þegar við vorum litlir og eigum við margar góðar minningar úr Strandaselinu hjá ömmu og líka þegar hún kom til okkar í Borgarnes.

Amma fylgdist mjög vel með okkur, þekkti nöfn vina okkar í gegnum tíðina og spurði alltaf frétta af okkur og þeim fram á síðasta dag. Hún vildi vita allt um hvernig skólinn, sumarvinnan og körfuboltinn gengi og fylgdist með Skallagrími í körfuboltanum.

Þegar við vorum orðnir aðeins eldri og vorum t.d. í körfuboltabúðum í Reykjavík gistum við hjá ömmu og þá voru oft pantaðar Dominos pizzur í matinn sem við vorum mjög ánægðir með.

Amma var dugleg að halda fjölskylduboð í Strandaselinu. Má t.d. nefna aðventukaffi fyrir jólin, jólagrautinn í hádeginu á aðfangadag, bolludag með alls kyns bollum og páskaboð. Amma bakaði mikið fyrir þessi boð og voru skinkuhornin hennar best í heimi. Snúðarnir, súkkulaðið og bollurnar ekki síðri.

Amma fylgdist með íslenska landsliðinu í handbolta og fótbolta. Það var gaman að horfa á leiki með henni og þekkti hún flesta landsliðsmenn með nafni og var með reglurnar nokkurn veginn á hreinu. Einu sinni komum við óvænt til ömmu og ætluðum að bjóða henni út að borða en hún var ekki sko ekki til í það en stakk upp á að panta pizzu heim og horfa frekar saman á landsleik í fótbolta sem væri að fara að byrja í sjónvarpinu.

Elsku amma, þökkum umhyggjuna og hvíldu í friði.

Kristján Örn

og Gunnar Örn.

Elsku besta Guðný amma hefur nú kvatt þennan heim og er komin yfir á Sumarströndina. Síðustu daga hafa ótal minningar sem tengjast ömmu hringsnúist í höfði mér. Sumt er eitthvað sem amma sagði mér frá bernsku- og ungdómsárum sínum og annað minningar sjálfrar mín frá barnæsku allt til dagsins í dag.

Efst í huga mér er þakklætið yfir því að hafa fengið að eiga þessa dásamlegu ömmu sem fylgdi öllum sínum svo vel eftir og var stoð allra og stytta fram á síðasta dag.

Þegar ég hugsa til bernskunnar hrannast inn góðar minningar frá Laugarnesveginum. Amma að lesa okkur Örnu í svefn og fara með bænirnar með okkur, fara með ömmu í messu í Laugarneskirkju þar sem við fórum í sunnudagaskólann og svo að sjálfsögðu í messukaffi niðri í safnaðarheimilinu, amma að svæfa okkur með vögguvísunni sinni, strætóferðirnar með ömmu sem í augum okkar systkina voru hreinar ævintýraferðir, sportið að leika sér í fötunum hennar ömmu og margar fleiri. Sunnudagskaffi hjá ömmu er hefð sem gaf svo mikið bæði í líkama og sál. Sunnudagskaffiborðið var að sjálfsögðu hlaðið kræsingum enda amma ein þeirra sem gera bara góðan mat og gott bakkelsi sem gerði allar stundir betri.

Amma fylgdist vel með lífi allra í fjölskyldunni og kom oft á viðburði sem tengdust okkur eða við tókum þátt í og safnaði saman úrklippum úr dagblöðum af okkur fólkinu sínu. Hún fylgdist einnig vel með samferðafólki okkar og spurði alltaf um frændfólk mitt sem var skylt mér í móðurætt og um vini mína þegar ég kom í heimsókn. Hún var mikil keppnismanneskja og missti ekki af landsleikjum í handbolta eða fótbolta. Þegar Pálmi bróðir fór í sjónvarpsþáttinn Kórar Íslands ásamt Karlakór Bólhlíðinga fylgdist amma að sjálfsögðu með. Amma var að vísu ekki með Stöð 2 en Pálmi var alltaf fyrsta atriði og Stöð 2 var ekki búið að rugla aftur dagskránni svo að amma gat horft. Það vandaðist hins vegar málið þegar kom að úrslitaþættinum því þá áttu þeir að vera kór númer tvö sem færi á svið, en Stöð 2 ruglaði ekki dagskrána fyrr en eftir þáttinn. Um leið og þættinum lauk hringdi amma í mig, hún var á hæsta styrk eins og hún hefði verið að horfa á landsleik þar sem Ísland var að sigra því kórinn hans Pálma vann. Hún bara varð að deila gleði sinni og stolti yfir honum og kórnum öllum með einhverjum. Þetta símtal minnti mig á símtal sem hafði átt sér stað einhverjum árum áður þegar Dúnna varð bikarmeistari með Val.

Amma var mjög minnug og mundi allt frá afmælisdögum til símanúmera frá viðburðum yfir í atburði í lífinu og allt þar á milli. Hún var líka kát, klár, heiðarleg, félagslynd og sjálfstæð. Það eru forréttindi að hafa átt hana sem fyrirmynd í lífinu og ég mun taka hana með mér áfram í hjartanu.

Elsku besta amma mín ég þakka þér fyrir allt. Ég veit að þér líður vel á Sumarströndinni þar sem þú ert með pabba, afa, Rut og öllum hinum englunum okkar að fylgjast með okkur fólkinu þínu. Minning þín lifir með okkur öllum. Guð blessi þig elsku besta amma mín.

Þín

Helga.

Guðný eða Níní eins og við kölluðum hana var föðursystir okkar. Hún og pabbi voru yngstu börn ömmu Ingibjargar og það var stutt á milli þeirra í aldri, Níní fædd 1925 og pabbi fæddur 1928. Níní og pabbi voru mjög samrýnd systkin og það voru alla tíð miklir kærleikar með þeim og þau áttu frá mörgum fallegum og skemmtilegum minningum að segja úr barnæsku sinni. Þau ræktuðu alla tíð samband sitt með heimsóknum og símtölum. Níní var sómakona, hún var góð heim að sækja og hafði alltaf mikinn áhuga á ættingjum sínum og hvernig þeim vegnaði í lífinu. Níní hafði létta lund og var jákvæð manneskja, hún var áhugasöm um málefni líðandi stundar og fylgdist vel með þjóðmálaumræðunni. Við systkinin minnumst Níníar með mikilli væntumþykju og þakklæti fyrir samfylgdina. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Blessuð sé minning Guðnýjar Björnsdóttur.

Björn, Steinar, Sigríður María og Guðmundur Magnúsarbörn.

Kveðja frá Kvenfélagi Laugarneskirkju

Gengin er til hvílu ein af forystukonum Kvenfélags Laugarneskirkju, Guðný Björnsdóttir. Hún, ásamt öðrum, vann ötullega að framgangi Kvenfélagsins og stýrði því með miklum sóma um árabil. Mikilvægi starfa þessara forystukvenna er síst ofmetin og mörg hafa handtökin verið. Við hinar yngri tókum við góðu búi úr höndum hennar og eru henni hér færðar hjartans þakkir fyrir hennar góðu og fórnfúsu störf.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

(Hugrún)

F.h. stjórnar Kvenfélags Laugarneskirkju,

Áslaug Ívarsdóttir.