[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Friðrik Friðriksson fæddist 12. apríl 1972 á sjúkrahúsinu í Keflavík og ólst upp í Ytri-Njarðvík. Hann var í sveit Kálfholti í Holtum í eitt sumar og annað sumar hjá frænku sinni, Rögnu Aðalbjörnsdóttur, í Stóru-Mörk III undir Eyjafjöllum.

Friðrik Friðriksson fæddist 12. apríl 1972 á sjúkrahúsinu í Keflavík og ólst upp í Ytri-Njarðvík. Hann var í sveit Kálfholti í Holtum í eitt sumar og annað sumar hjá frænku sinni, Rögnu Aðalbjörnsdóttur, í Stóru-Mörk III undir Eyjafjöllum.

Friðrik gekk í Grunnskóla Njarðvíkur 1978-1988, Menntaskólann við Sund 1988-1990, en fór síðan í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og varð stúdent þaðan 1992. Hann fór í Leiklistarskóla Íslands 1994 og útskrifaðist þaðan 1998. „Ég uppgötvaði ekki leiklist fyrr en í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en seinna þegar ég var að ræða við samferðamenn mína í grunnskóla þá fannst öllum það augljóst að ég yrði leikari. Ég vissi ekki einu sinni að það væri til leiklistarskóli fyrr en ég var 19 ára. Það var þannig að vinur minn sagði mér að taka Leiklist 103 og Listir 103, þetta væru auðveld fög og væru metin, ekki tekið próf í þeim. Borgþór Arngrímsson fréttamaður var þá kennari og eftir einn tíma sagði hann mér að hann væri handviss um að ég hefði verið í leikfélögum. Mér fannst þetta svo góð einkunn að einhver héldi það, að það fleytti mér áfram og varð til þess að ég fór í leikfélagið og leiklistarbakterían greip mig algjörlega.“

Eftir útskrift lék Friðrik í verkefnum hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Hafnarfjarðarleikhúsinu, Loftkastalanum o.fl. Meðal verka má nefna Dýrin í Hálsaskógi, Eldað með Elvis, Ronju ræningjadóttur, Himnaríki og Sjekspír eins og hann leggur sig, þar sem boðið var upp á verk Shakespeare á 97 mínútum. „Það var eitt af því skemmtilegra sem ég hef gert, að leika í því. Kómíkin hefur alltaf legið mér nærri. Mér finnst mjög skemmtilegt að leika í orkuríkum sýningum með grínið í forgrunni.“ Friðrik var í hópi sem gerði tvær þáttaraðir af Sigtinu með Frímanni Gunnarssyni 2006-2007.

Friðrik var síðan fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið 2007-2015. Þar lék hann í 26 leikritum, m.a. Eldrauninni, Spamalot, Macbeth, Hænuungunum og Ofsa. Hann skrifaði einnig handrit og leikstýrði þremur leikverkum í barnadagskrá Þjóðleikhússins fyrir grunnskólabörn 2009-2011. „Mér finnst frábært að stíga niður af sviðinu og inn í hlutverk leikstjórans.“ Friðrik hefur leikstýrt þremur atvinnusýningum, Humanimal (2009), þar sem hann hlaut tilnefningu til Grímunnar fyrir leikstjórn, og Verði þér að góðu (2011) hjá sviðslistahópnum Ég og vinir mínir og Psychosis í Þjóðleikhúsinu 2015.

Hann hefur leikið í nokkrum bíómyndum, t.a.m. Fúsa eftir Dag Gunnarsson, Fálkum eftir Friðrik Þór, Bakk eftir Gunnar Hansson. Einnig í sjónvarpsþáttunum Ástríður og Sigtið með Frímanni Gunnarssyni og nú síðast í Frímínútum á RÚV. Auk tilnefningar til leikstjórnar hefur Friðrik nokkrum sinnum verið tilnefndur til verðlauna sem leikari.

Friðrik venti sínu kvæði í kross, fór aftur aftur í nám og útskrifaðist með MBA viðskipta- og stjórnunargráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2016. Hann var framkvæmdastjóri Bandalags sjálfstæðra leikhúsa 2015-2022, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós 2016-2022 frá því í febrúar. „Mig langaði að læra meira. Ég var búinn að prófa allar hliðar leiklistar, söngleiki, drama, bíó, leikstjórn og ég þurfti fleiri og nýjar ögranir. Það varð til þess að ég fór í nám og svo opnuðust tækifærin mjög hratt eftir það. Þar með er ekki sagt að ég ætli ekki aftur að stíga á svið. Þetta er eins og að læra að hjóla, það gleymist ekki hvernig á að leika. Leikarinn togar enn þá í mig.“

Frá því í febrúar hefur Friðrik verið framkvæmdastjóri hjá nýrri stofnun, Sviðslistamiðstöð Íslands. „Þar er ég að móta nýtt apparat frá grunni, en markmiðið með Sviðslistamiðstöðinni er að efla og styðja íslenskar sviðslistir á erlendum vettvangi, þ.e. reyna að fjölga tækifærum til sýningarhalds erlendis, með tengslamyndun og ferðastyrkjum og almennri fræðslu.“

Friðrik var formaður stjórnar Menningarfélags Tjarnarbíós 2011-2013, meðstjórnandi í stjórn Icehot Reykjavík 2017-2019 og hefur verið ritari stjórnar Evrópusamtaka sjálfstæðra sviðslista frá 2019 til dagsins í dag.

Helstu áhugamál Friðriks eru sviðslistirnar, matargerð, hlaup og útivist. „Ég elda nær alltaf heima og horfi mikið á matreiðsluþætti. Núna er ég mikið í miðausturlenskri matargerð. Ég hljóp Laugaveginn og Jökulsárhlaup á sínum tíma og hef hlaupið maraþon. Ég er í ferðahóp sem fer alltaf í fjögurra daga ferð einu sinni á ári með allt á bakinu. Þetta er fastur punktur í tilverunni og mesta tilhlökkun ársins að halda út í óbyggðirnar með hópnum. Þess utan er ég að ganga með félögum á fjöll.“

Fjölskylda

Eiginkona Friðriks er Álfrún Helga Örnólfsdóttir, f. 23.3. 1981, leikkona, leikstjóri og handritshöfundur. Þau eru búsett í 101 Reykjavík. Foreldrar Álfrúnar eru hjónin Örnólfur Árnason, f. 15.2. 1941, rithöfundur, þýðandi og leiðsögumaður, og Helga Elínborg Jónsdóttir, f. 28.12. 1945, leikkona og leikstjóri. Þau eru búsett í Reykjavík.

Börn Friðriks og Álfrúnar eru Margrét, f. 29.11. 2007, og Kolbrún Helga, f. 4.7. 2011.

Systkini Friðriks eru Jón Ingi Friðriksson, f. 30.1. 1957, rafeindavirki í Reykjavík, Gunnfríður Friðriksdóttir, f. 11.6. 1958, verkakona í Reykjavík, og Jóna Friðriksdóttir, f. 2.2. 1962, þjónustufulltrúi í Keflavík.

Foreldrar Friðriks eru hjónin Friðrik Magnússon, f. 25.7. 1933, vélstjóri, og Kolbrún Þorsteinsdóttir, f. 22.1. 1937, húsmóðir og fyrrverandi verkakona. Þau eru búsett í Njarðvík.