Kjartan Blöndahl Magnússon fæddist 12. nóvember 1957. Hann lést 22. mars 2022.

Útför Kjartans fór fram 1. apríl 2022.

Leiðir okkar Kjartans lágu saman árið 2016 þegar við hittumst á flugvellinum í Kaupmannahöfn. Ástæða fyrir að hittast var að hans nafn hafði komið upp hjá okkur sem vorum að starta Team Rynkeby Ísland.

Verkefni mitt var að hitta Kjartan, segja honum frá verkefninu og fá hann til að koma með okkur til Parísar og taka forystu í þjónustuhópnum. Í samtali okkar var augljóst að hann gerði sér grein fyrir að þetta væri mikil vinna, sérstaklega þar sem þetta var fyrsta árið og að þetta væri túr til Evrópu en ekki á Íslandi. Kjartan sagði mér frá Erlu og að hún væri hjúkrunarfræðingur og að ef hann kæmi, þá kæmi hún líka.

Það varð úr að Kjartan og Erla urðu hluti af fyrstu 40 sem fóru ferð Team Rynkeby Íslands árið 2017. Það voru alltaf lausnir þegar Kjartan var með í málum, t.d. buðu þau Erla öllum hópnum heim til sín og við borðuðum saman, spjallað var og haft skemmtilegt. Kjartan mætti með myndavélina á nokkrar æfingar og liggur eftir hann mikið af fallegum myndum af gulum hjólreiðamönnum og –konum. Þegar kom að ferðinni til Parísar kom Kjartan út á undan hópnum, til Danmerkur og smíðaði hann inn í þjónustubílana þannig að ekkert sást á þeim en allt virkaði. Hann og fleiri í þjónustuhópnum redduðu fánastöngum, þannig að bílarnir tveir sem keyrðu á undan og eftir hópnum voru með íslenska fánann og sást íslenska liðið því langt að. Alveg sama hvað gekk á var Kjartan alltaf með rólegheit og fann lausnir, skipti um slöngur þegar sprakk og aðstoðaði alla til að komast áfram ásamt því að taka myndir meðan á öllu stóð.

Elsku Erla, börn og barnabörn, mikill er missir ykkar að góðum dreng og mikið vorum við rík að fá að kynnast honum. Okkar hugur er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Kær kveðja,

Lárus Frans og Ásta Birna.