Haraldur Sveinsson fæddist 15. september 1941. Hann varð bráðkvaddur 23. febrúar 2022.

Útförin fór fram 5. mars 2022.

Vinur okkar Haraldur á Hrafnkelsstöðum hefur kvatt þessa jarðvist. Við hjónin vorum erlendis þegar þetta gerðist og gátum því ekki fylgt honum til grafar.

Þau Hrafnkelsstaðahjón, Haraldur og Jóhanna, voru ein af okkar bestu vinum. Sá vinskapur hafði staðið í 40 ár. Við heimsóttum þau oft og á hverjum vetri komu þau til okkar og fóru með okkur í leikhús. Við hlökkuðum alltaf til þeirrar heimsóknar. Í sjö haust fór ég á Hrunamannaafrétt með Haraldi sem einn af fjallmönnum Hrafnkelsstaða. Þá lærði ég margt af Haraldi sem þaulkunnugur var afréttinum enda búinn að fara í fjallleitir hvert ár síðan hann var 15 ára. Haraldur var fyrst og fremst fjárræktarmaður og hafði gríðarlegan áhuga á sauðfjárrækt. En þau hjón vor einnig með hrossarækt. Haraldur var afar traustur maður og gott að vera undir hans leiðsögn. Hann gat verið fastur fyrir og lét til sín taka ef honum þótti hallað réttu máli. Haraldur og þau hjón voru fjárræktarfólk í fremst röð og orð fór af því hve fé þeirra var vel hirt og umgengni til fyrirmyndar. Þegar sýna átti erlendum gestum vel rekið og þrifalegt fjárbú var iðulega farið með þá í Hrafnkelsstaði. Á Hrafnkelsstöðum var rekin tamningastöð í 30 ár og þótti eftirsótt að koma þangað tryppum sínum. Þá voru þau máttarstólpar í Hrossaræktarsambandi Suðurlands. Þau voru með í ráðum þegar valdir voru stóðhestar, komu hestunum í girðingar og tóku á móti hryssunum, skráðu þær niður og afhentu svo að loknu gangmáli. Þá höfðu þau eftirlit með stóðhestagirðingunum og skiluðu að lokum stóðhestunum til síns heima. Mest af þessu var unnið sem sjálfboðastarf. Haraldur hafði mikinn metnað fyrir því að allt gengi vel sem hann tók að sér. Þá var hann mjög bóngóður og hjálpsamur þegar til hans var leitað. Hann hafði sínar skoðanir og var óhræddur við að halda þeim fram. Okkar tengsl hófust í kringum hross og var það oft umræðuefni okkar.

Andlát Haraldar var óvænt en hann varð bráðkvaddur þegar þau hjón voru við gegningar og hneig niður í einni krónni hjá kindunum sínum. Þannig kvaddi hann fjárhópinn sinn. En svona óvænt andlát er mikið högg fyrir aðstandendur. En áður en Haraldur kvaddi þá hafði ný kynslóð tekið að mestu við búskap á jörðinni og var mikið gleðiefni fyrir Harald, því ættingjar hans höfðu lengi búið á Hrafnkelsstöðum og þar var Haraldur fæddur og uppalinn. En okkur er efst í huga sú einstaka vinátta sem við nutum af hálfu þeirra hjóna. Við komum til með að sakna Haraldar og okkar samskipta en færum Jóhönnu svo og afkomendum og öðrum ættingjum og vinum okkar dýpst samúðarkveðjur.

Kári Arnórsson.