„Fræknustu sporin“ er yfirskrift minningarsýningar um Helga Pjeturss í Þjóðarbókhlöðu en á dögunum voru 150 ár frá fæðingu hans.
„Fræknustu sporin“ er yfirskrift minningarsýningar um Helga Pjeturss í Þjóðarbókhlöðu en á dögunum voru 150 ár frá fæðingu hans. Helgi (1872-1949) var einn af frumherjum raunvísinda á Íslandi og lauk fyrstur Íslendinga doktorsprófi í jarðfræði. Með rannsóknum sínum 1898-1910 lagði hann grunn þess skilnings á jarðsögu landsins sem enn er í fullu gildi. Á seinni hluta starfsævinnar sneri Helgi sér að heimspeki og setti fram heimsfræðilegar kenningar í safnritinu Nýall, sem út kom á árunum 1918-1947. Einnig fékkst hann við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum. Á sýningunni er farið yfir feril Helga sem jarðvísindamanns og nefnd dæmi úr heimsfræðilegum kenningum hans. Sýningin er samstarfsverkefni margra stofnana og samtaka og höfundur hennar Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur.